Lífið

Tilvísun í hræðilegan veruleika

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Andri Óttarsson og Þorleifur Örn Arnarsson hafa unnið að handritinu að Rétti 3 í rúm tvö ár. Þeir eru gamlir vinir og segja handritið upphafið að frekara samstarfi.
Andri Óttarsson og Þorleifur Örn Arnarsson hafa unnið að handritinu að Rétti 3 í rúm tvö ár. Þeir eru gamlir vinir og segja handritið upphafið að frekara samstarfi. Vísir/Ernir
Tökur standa yfir á þriðju seríu sakamálaþáttanna Réttar. Baldvin Z sér um leikstjórn og handritshöfundar eru Þorleifur Örn Arnarsson og Andri Óttarsson. Serían er frumraun þeirra í handritsgerð fyrir sjónvarp en Þorleif kannast margir við úr leikhúsgeiranum þar sem hann hefur leikstýrt fjölda verka, meðal annars Sjálfstæðu fólki og Englum alheimsins og starfað í leikhúsum í Þýskalandi og Sviss.

Aðkoma Andra er óhefðbundnari, hann kemur úr heimi lögfræði og pólitíkur, en ákvað fyrir um fimm árum að láta drauminn rætast og einbeita sér að skrifum.

Skrifin veita lífsánægju

„Þetta hefur alltaf blundað í mér og á einhverjum tímapunkti fór ég að gera mér betur og betur grein fyrir því að þetta var það sem veitti mér mesta lífsánægju. Það leiddi til þess að ég fór að þreifa mig áfram og fikta við skáldskapinn,“ segir Andri og bætir við að hann hafi í kjölfarið komist að því að honum þóttu skáldskaparskrifin gefandi og skemmtileg.

„Lífið er einhvern veginn allt of stutt og skemmtilegt til þess að vera að gera eitthvað annað en það sem maður hefur mesta ánægju af því að gera.“

Áralöng vinátta

Andri og Þorleifur hafa verið vinir í lengri tíma, raunar svo langan að þeir eiga í erfiðleikum með að rifja upp árafjöldann. Andri hefur lengi aðstoðað Þorleif á bak við tjöldin í sínum verkefnum, lesið yfir efni og jafnvel ferðast á milli landa til að rétta hjálparhönd.

Þorleifur var því fljótur að stinga upp á að þeir skrifuðu handritið að Rétti 3 saman þegar honum bauðst verkefnið.

„Það meikaði sens að við tveir myndum skrifa þetta, einn úr leikhúsinu og svo Andri úr lögfræðinni sem hafði líka þessa hæfileika,“ segir Þorleifur og heldur áfram:

„Samtalið við SagaFilm um að fá Andra um borð tók í alvöru bara þrjár mínútur. En á sama tím verður líka að segjast að hugrekki Sagafilm í þessu ferli hefur verið magnað. Það var ekki nóg að þau þorðu að veðja á nýja höfunda heldur að gefa þeim svona ótrúlega mikið frelsi til þess að enduruppgötva hvað svona sería getur verið," segir Þorleifur.

Feikilega gott teymi

Þeir eru ólíkir í fasi og framkomu en augljóst er að þarna er eitthvað sem virkar. Einhvers konar jing-jang orka þar sem þeir vega hvor annan upp. Þeir eru sammála um að þeir skipi gott teymi, samvinnan hefur gengið vel og jafnvel styrkt vináttuna sem var sterk fyrir.

„Okkur gengur rosalega vel að vinna saman. Ég held að reynsla Dodda sem leikstjóra hjálpi okkur mikið. Hann getur alltaf hámarkað möguleikana sem hver sena hefur og er algjörlega óhræddur við að benda á að senan gæti verið betri. Þó þetta sé eitthvað sem aðrir myndu segja að væri mjög gott, þá sér hann alltaf það sem hægt er að bæta ofan á hana í gæðum. Sem er náttúrulega ómetanlegt. Ég held að þetta komi að einhverju leyti úr leikstjórninni,“ segir Andri og beinir þessum vangaveltum að vini sínum sem fellst á það.

Þorleifur segir markið hafa verið sett hátt, enda þýði ekkert annað.

„Við ákváðum að skrifa besta handrit sem hefur komið í íslensku sjónvarpi og sögðum að það yrði enginn afsláttur gefinn,“ segir Þorleifur á meðan Andri brosir út í annað yfir ákefðinni.

Þorleifur heldur hlæjandi áfram. „Já, eða ég er alltaf búinn að vera að tala um það og ég bara trúi því. Það hvort manni tekst það eða ekki er ekki endilega aðalatriðið, en maður verður að stefna á það.“

Að handritinu hafa þeir unnið í rúm tvö ár og kastað því á milli. Þorleifur hefur verið starfandi erlendis mikinn hluta af tímanum og eru þeir sammála um að það fyrirkomulag hafi hentað prýðisvel.

Minna úr réttarsalnum

Réttur fjallar um lögfræðistofuna Lög og Réttur og þær flækjur sem upp koma. Handritið að fyrri seríum skrifuðu Sigurjón Kjartansson og Margrét Örnólfsdóttur og aðalpersónur því til staðar en það eru þau Magnús Jónsson, í hlutverki Loga, og Jóhanna Vigdís Arnardóttir í hlutverki Brynhildar.

Það var því spennandi og krefjandi verkefni fyrir Þorleif og Andra að takast á við, sér í lagi þar sem um er að ræða frumraun þeirra beggja í sjóvarpi. Sögusviðinu breyttu þeir að því leyti að minna er í réttarsalnum og meiri áhersla á íslenskan veruleika. „Ég var ofboðslega fljótur að útskýra fyrir fólki að íslenskir réttarsalir eru svona sirka bát leiðin­legasta sjónvarpsefni sem til er í heiminum,“ segir Andri sposkur á svip.

Eftir þá ákvörðun kviknuðu spurningar um umfjöllunarefni þáttanna en þeir félagar áttuðu sig fljótt á að starf lögmanna snertir marga fleti íslensks samfélags. Afraksturinn er samfeld sakamálasaga úr íslenskum raunveruleika þar sem dregin er upp yfirlitsmynd af ofbeldismálum.

Umfjöllunarefnið er kynferðis­ofbeldi gagnvart ungum einstaklingum í neyslu og hinn duldi heimur internetsins þar sem samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Snapchat koma við sögu. Þeir söfnuðu að sér upplýsingum um málaflokkinn, þó ekki um einstakt mál, og lögðu upp með að þættirnir væru raunverulegir og drægju ekkert undan.

„Það er varla að það komi þarna inn sena eða atvik sem á sér ekki hliðstæðu eða jafnvel enn öfgafyllri útgáfu í íslenskum raunveruleika í dag. Ekki í LA eða einhvers staðar í Simbabve, heldur hér,“ bætir Þorleifur við ákveðinn og segir sjónvarpsseríuformið henta vel til þessa en í handritinu eru margar sögur fléttaðar saman yfir langan tíma.

„Við vorum ákveðnir í því eigin­lega frá fyrstu mínútunni að það væri vannýtt tækifæri ef við færum að skrifa þessa seríu eingöngu út frá skemmtanagildi, það yrði að vera einhver þjóðfélagsleg skírskotun,“ segir Andri og bætir við að ánægjulegt sé að vilji sé til að skapa efni með sterkum skilaboðum og skírskotun í raunveruleg og aðkallandi málefni.

Kjarni vináttunnar

Þarna tekur Þorleifur til máls og segir að það sé einmitt þessi köllun þeirra beggja sem sé kjarni vináttunnar. „Við viljum báðir hafa áhrif á samfélagið. Andri áður í gegnum pólitískt starf og lögmennsku og ég í gegnum leikhúsið,“ segir Þorleifur.

„Við fórum í gegnum sameiginlegt ferli og ég held að við höfum báðir komist að því að í listinni hafi maður að mörgu leyti tækifæri til, þó þú sjáir það ekki alveg svart á hvítu, að hafa djúpstæðari aðgang að fólki. Þetta eru níu þættir sem munu kannski rúlla í gegnum þrjá mánuði. Ef okkur tekst vel upp þá geta þessi málefni verið á milli tannanna á fólki í fleiri mánuði,“ segir Þorleifur og það er augljóst að umfjöllunarefnið er þeim hjartans mál.

Tökur á þáttunum standa yfir fram í júlí en stefnt er á að sýningar hefjist á Stöð 2 í október.„Við erum búnir að sjá svolítið úr tökunum, fáum sendar senu og senu og þetta lítur alveg svakalega vel út. Við erum mjög spenntir, alveg eins og krakkar í dótakassa,“ segir Þorleifur ánægður og bætir við að það sé magnað að sjá tveggja ára vinnu vakna til lífsins.

Andri er sammála og bætir við: „Það er alltaf erfitt að afhenda sköpunarverkið í hendurnar á einhverjum öðrum en eftir fyrsta fundin með Baldvin Z vissum við að handritin gætu ekki verið í betri höndum, hann deilir sömu sýn á verkefnið og er í raun eins og hugur okkar á setti. Við erum búnir að mæta nokkrum sinnum á settið og að sjá þessar fyrstu tökur. Það sem við erum búnir að sjá er ennþá betra en það sem maður þorði að vona,“ segir hann og þegar þeir eru inntir eftir því hvort þetta verkefni sé upphafið á frekara samstarfi þeirra í þessum geira eru svörin skýr: „Það er alveg ljóst að við munum halda þessu áfram,“ segir Andri ákveðinn og Þorleifur tekur í sama streng: „Þetta var bara upphitun.“

Tengdar fréttir

Baldvin Z leikstýrir Rétti 3

Saga Film og Stöð 2 hafa undirritað samning um framleiðslu á þriðju þáttaröðinni af Rétti. Þorleifur Örn Arnarsson og Andri Óttarsson skrifa handritið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.