Lífið

Unga fólkið fullt af réttlætiskennd

Guðrún Ansnes skrifar
Magnús er ánægður með eldmóðinn og segir ungu kynslóðina afar upplýsta.
Magnús er ánægður með eldmóðinn og segir ungu kynslóðina afar upplýsta. Fréttablaðið/gva
„Við ætlum að hittast og undirbúa næstu tvær aðgerðir ungliðahreyfingarinnar, sem verða pyntingaraðgerðin og aðgerðir í Druslugöngunni,“ segir Magnús Sigurjón Guðmundsson aðgerðarstjóri.

Er undirbúningsfundurinn til þess fallinn að gefa ungum aðgerðarsinnum tækifæri til að koma með hugmyndir og móta aðgerðirnar. „Pyntingaraðgerðin sem við förum í þann 26. júní næstkomandi snýst um að setja upp tvær stöðvar, annars vegar í Kringlunni og hins vegar á Austurvelli, þar sem Íslendingar geta komið og fengið smjörþefinn af þeim pyntingum sem eiga sér stað úti í heimi. Núna munum við varpa ljósi á lukkuhjólið sem fannst á lögreglustöð í Filippseyjum í fyrra. Fangar voru látnir snúa hjólinu og taka síðan út þá pyntingu sem örin stoppaði á,“ útskýrir Magnús.

„Svo munum við ræða um hvernig best verði að haga aðgerðum í Druslugöngunni í júlí, en þá munum við vekja athygli á skelfilegri löggjöf í Túnis, þar sem kærur gegn nauðgurum eru felldar niður, giftist gerandinn fórnarlambinu,“ bendir Magnús á og bætir við: „Yfirskriftin er sum sé: Myndir þú giftast nauðgara þínum?“

Magnús segir ungt fólk á Íslandi afar framtakssamt. „Krakkarnir eru fullir af réttlætiskennd, eru róttækir og mjög hugmyndaríkir,“ segir hann og bætir við að á þeim þremur árum sem ungliðahreyfingin hafi verið starfandi hafi hún sótt gríðarlega í sig veðrið. „Við héldum fund um daginn, sem endaði þannig að fundargestir sprengdu húsnæðið utan af sér, og var meðal annars fundað inni á salernum hússins til að nýta allt pláss,“ bendir Magnús á og grínast með að brátt verði hann óþarfur, slíkur sé krafturinn í unga fólkinu. Hann hvetur alla sem áhuga hafa á að taka þátt í að móta aðgerðirnar til að koma við í Þingholtstræti 28 í kvöld klukkan 19.30.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.