Fastir pennar

Búbót á förum?

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Makríll er víst þannig gerður að hann syndir ekki inn í sjó sem er undir ákveðnum hlýindamörkum. Á forsíðu Fréttablaðsins í byrjun vikunnar var frá því greint að hér hefði hitastig sjávar ekki verið lægra síðan 1997.

Um leið hefur hvergi orðið vart við makrílinn, sem tók að ganga inn í íslenska lögsögu rétt fyrir hrun og hefur reynst sjávarútvegsfyrirtækjum og landinu öllu mikilvæg búbót á tímum þrenginga.

Í viðtali við blaðið segist Guðmundur J. Óskarsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, ekki vilja fabúlera um forspárgildi sjávarhita nú og þeirrar staðreyndar að ekki hefur enn bólað á makríl, sem síðustu ár hefur verið mættur einhvern tímann í maímánuði.

„Kannski er makríllinn einfaldlega seinna á ferðinni og gýs upp þegar hlýnar,“ sagði hann og tók um leið undir að fjarvera hans hlyti að vekja ónotatilfinningu hjá þeim sem hagsmuna ættu að gæta í sjávarútvegi.

Undir eru nefnilega umtalsverðir fjármunir. Útflutningstekjur vegna makríls frá því veiðar hófust voru samkvæmt samantekt Sjávarklasans í fyrrahaust komnar hátt í 100 milljarða króna.

Veiðin á líklega stóran þátt í ákvörðunum um nýsmíði skipa, þótt þar spili líka inn í hagstætt afurðaverð og lágt gengi krónu.

„Umfram allt er endurnýjun fiskiskipaflotans tímabær og fjárhagur margra sjávarútvegsfyrirtækja veitir svigrúm til fjárfestinga sem hann gerði ekki áður,“ sagði í greiningu Sjávarklasans í ágúst.

Þá var búið að semja um smíði ellefu nýrra fiskiskipa, flestra fyrir HB Granda, sem afhenda átti á þessu og næstu tveimur árum. Hverfi makríllinn gæti það sett strik í áætlanir hjá einhverjum.

Fari allt á versta veg varðandi göngur makrílsins hefði óneitanlega verið betra að vera búinn að ganga frá samningum um varanlega hlutdeild í heildaraflanum.

Bent hefur verið á að þótt sá hlutur yrði minni en Íslendingar hafa ákveðið einhliða, þá væri hægt að veiða hann á öðrum tíma þegar fiskurinn er feitari og fyrir hann fæst mun hærra verð.

Þannig hefði einhver sjö prósenta hlutdeild sem staðið hefur til boða mögulega farið langt með að skilað svipuðu verðmæti og tæpu tólf prósentin sem hér hafa verið ákveðin einhliða, auk þess að hverfa ekki vegna sjávarkulda.

Vonandi dúkkar makríllinn upp og vonandi bera menn gæfu til að ganga til samninga um varanlega hlutdeild í heildaraflanum.

Samningaleiðin er alltaf betri en að böðlast áfram með hausinn á undan sér í andstöðu við alla í kringum sig. Með samningum vita allir að hverju er gengið og ólíklegra að bakreikningar birtist, eða að framhald verði á deilum.

Þess vegna er til dæmis svo ánægjuleg sú leið sem fara á í uppgjöri við kröfuhafa og afnámi gjaldeyrishafta og kynnt var í gær.

Og um leið er ljóst að sá farvegur sem Icesave-deilan fór í er síðri því enn sér ekki fyrir endann á þeim deilum. Núna liggja nefnilega fyrir EFTA-dómstólnum álitamál tengd ábyrgð ríkisins á bankakerfinu og hundraða milljarða kröfur eru undir.

En fari allt á versta veg í málarekstri Breta og Hollendinga á hendur innstæðutryggingakerfinu og íslenska ríkinu, þá verður í það minnsta gott að eiga afgang eftir uppgjörið við kröfuhafana.


Tengdar fréttir

Ískalt haf og enginn makríll

Hitastig sjávar við Ísland hefur ekki verið lægra síðan 1997, samkvæmt mælingum Hafró. Áta er undir meðallagi.






×