Poppsöngkonunni Rihönnu er margt til lista lagt.
Rihanna er ein þekktasta poppstjarna heims um þessar mundir og hefur gefið út hvern smellinn á fætur öðrum á síðastliðnum árum og nú stefnir hún á að herja á tískuheiminn og stofnsetja sitt eigið tískumerki.
Merkið mun bera nafnið $CHOOL KILLS og skrásetti fyrirtæki söngkonunnar, Roraj Trade LLC, nafnið í New York í síðastliðnum mánuði undir flokkunum leður- og fatavörur, en mun byrja á því að gefa út skart- og fylgihluti.
Söngkonan hefur áður hannað fatalínu fyrir breska merkið River Island og er sögð vilja láta reyna á feril á öðrum sviðum en í tónlistinni þótt hún muni halda áfram að gefa út tónlist.
Rihanna gaf út sína fyrstu plötu, Music of the Sun, árið 2005 en skaust upp á stjörnuhimininn árið 2006 þegar hún gaf út sína aðra plötu, A Girl Like Me, sem fór á topptíu-lista í þrettán löndum. Síðan hefur leiðin legið upp á við og hefur Rihanna meðal annars unnið með tónlistarmönnum á borð við Jay-Z, Kanye West, Paul McCartney, Shakira og Niki Minaj.
Rihanna með eigið tískumerki
Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
