Lífið

Auðveldara að uppgötva nýja staði á Matartips

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Facebook hópurinn vex hratt með hverjum degi.
Facebook hópurinn vex hratt með hverjum degi. Vísir/GVA
Félagarnir Egill Fannar Halldórsson og Daníel Andri Pétursson byrjuðu með Facebook-hópinn „Matartips!“ fyrir mánuði.

Nú þegar eru komnir 1.200 meðlimir í hópinn og hann stækkar ört með hverjum deginum. „Þetta er ábyggilega næstmest spennandi grúppan á Facebook á eftir Beaty Tips. Við byrjuðum á þessu af því okkur finnst gaman að fara út að borða og prófa nýja staði. Þetta er auðveldara og skemmtilegra en að gefa einkunn á Trip advisor. Í hópnum kemur saman fólk sem vill deila reynslu sinni og finna nýja staði eða rétti til þess að prufa,“ segir Egill.

Þegar mynd er deilt inn á síðuna er mikilvægt að hún sé smekklega tekin og að henni sé gefin sanngjörn einkunn. „Þetta er auðvitað skemmtilegast fyrir veitingastaðina sem fá góða umfjöllun en hafa ekki mikinn pening til þess að auglýsa eða vera áberandi. Ég hef rekist á fullt af stöðum sem ég var búinn að gleyma eða vissi einfaldlega ekki að væru til.“

Umræðan á síðunni er yfirleitt jákvæð en það koma þó lélegar umsagnir inn á milli.

„Það er einn staður sem hefur verið krossfestur á síðunni sem er ekkert nema gott fyrir neytendur. Síðan snýst um að fólk sé hreinskilið og segi frá reynslu sinni,“ segir Egill.

Síðan er frjálsleg og strákarnir eru ekki að eyða innslögum enda tilgangur síðunnar augljós.

„Við skiptum okkur lítið af síðunni nema til að leyfa fólki að komast í hópinn og auðvitað deilum við sjálfir matnum sem við fáum. Þetta er mjög skemmtilegt samfélag sem öllum er velkomið að taka þátt í.“



Matartips! má finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×