Íslenski boltinn

Fer Þróttur í gegnum hálft mótið án þess að skora?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir er þjálfari Þróttar.
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir er þjálfari Þróttar. fréttablaðið/ernir
Þróttur tekur á móti Fylki í eina leik dagsins í Pepsi-deild kvenna. Fylkiskonur hafa rétt úr kútnum eftir erfiða byrjun og eru búnar að vinna tvo leiki í röð og eru auk þess komnar í undanúrslit Borgunarbikarsins.

Það gengur öllu verr hjá Þrótti. Liðið hefur aðeins fengið tvö stig af 24 mögulegum og er í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar. Vandamál Þróttar er augljóst þegar litið er á töfluna; liðið er aðeins búið að skora eitt mark í leikjunum átta. Það kom í 5-1 tapi fyrir Stjörnunni 30. júní síðastliðinn.

Það sem gerir þetta markaleysi Þróttar enn neyðarlegra er að eina mark liðsins í deildinni til þessa var sjálfsmark leikmanns Stjörnunnar. Þróttarar eru því búnir að leika átta leiki án þess að skora sjálfar og gerist það aftur í kvöld fer liðið í gegnum alla fyrri umferðina án þess að skora mark.

Það þarf að fara 29 ár aftur í tímann til að finna viðlíka markaleysi hjá liði í efstu deild kvenna. Það var sumarið 1986 þegar Haukar fóru í gegnum fyrstu níu umferðirnar án þess að skora. Raunar skoraði Haukaliðið ekki eitt einasta mark í deildinni það sumarið – í tólf leikjum.

Þróttarar geta þó huggað sig við það að þrátt fyrir markaleysið eru stelpurnar ekki á botni deildarinnar en það er hlutskipti Aftureldingar sem er aðeins með eitt stig.

Vinni Þróttur í kvöld lagar liðið stöðu sína verulega. Þróttarar verða þá aðeins einu stigi frá KR, sem er í 8. sætinu, og um leið aðeins einu stigi frá fallsæti. En til þess að það gerist þurfa leikmenn Þróttar að skora – þær geta ekki beðið mikið lengur með það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×