Lífið

Þöggunin er enn til staðar hjá eldri kynslóðinni

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Í dag verður druslugangan gengin í fimmta sinn.
Í dag verður druslugangan gengin í fimmta sinn. Vísir/Andri
Átak á vegum druslugöngunnar sem ber nafnið „drusluákall“ fór af stað fyrir aðeins tveimur dögum og nú þegar hafa hundruð kvenna og karla sagt sögu sína og tekið afstöðu með málstaðnum.

Viðbrögðin við drusluákallinu hafa ekki látið á sér standa en þetta er það sem skipuleggjendur druslugöngunnar voru að vonast eftir.

„Það er ekki alveg hægt að gera sér grein fyrir hvort svona grípi eða ekki en við vitum að það eru margir sem hafa lent í einhverju og þetta er góð leið til þess að kalla eftir breytingum hjá lögreglu og stjórnvöldum. Eftirfylgnin í þessum málum í dag er lítil sem engin. Nú er þessi bylting orðin of stór til þess að við náum að fylgjast með enda er þetta einhvers konar sameining á öllum þeim byltingum sem hafa átt sér stað á þessu ári. Slagorð göngunnar er „Ég á mig sjálf“ og það á vel við það sem er að gerast í samfélaginu,“ segir María Rut Kristinsdóttir, talskona druslugöngunnar.





María Rut Kristinsdóttir
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi sagði í gær frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi þegar hún var ung. María telur þetta setja sterkt fordæmi fyrir eldri kynslóðir þar sem þöggunin er hvað mest. 

„Guðfinna er að sýna ótrúlegt hugrekki með því að segja frá þessu. Það sem við viljum er að fleiri af hennar kynslóð segi sögu sína þar sem svo margir eru að burðast með sína skömm sem er svo tilgangslaust. Ég veit hvernig þetta er og frelsið sem ég upplifði með því að segja frá.“

Druslugangan verður farin frá Hallgrímskirkju klukkan tvö í dag og endar á Austurvelli þar sem verða fluttar ræður og tónlistaratriði. 

„Það er allt klárt. Við verðum með skiltagerð fyrir gönguna og svo erum við búin að redda meiri varningi. Drusluderhúfurnar seldust upp á 20 mínútum í partíinu okkar á miðvikudaginn og við þurftum að grátbiðja um meira. Hægt verður að kaupa drusluvarning hjá Hallgrímskirkju og á Austurvelli á meðan birgðir endast.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.