Lífið

Sigurganga Hrúta heldur áfram

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Grímur Hákonarson og Grímar Jónsson ásamt sænska leikstjóranum Roy Anderson.
Grímur Hákonarson og Grímar Jónsson ásamt sænska leikstjóranum Roy Anderson.
Alþjóðleg dómnefnd Evrópsku kvikmyndahátíðarinnar í Palic í Serbíu, sem nú er haldin í 22. skiptið, valdi Hrúta Gríms Hákonarsonar sem bestu mynd hátíðarinnar af þeim 12 sem kepptu í aðalkeppninni og hlýtur hún því GOLDEN TOWER-verðlaunin þetta árið.

Grímur Hákonarson leikstjóri og Grímar Jónsson, framleiðandi myndarinnar, voru gestir hátíðarinnar. „Þetta er mikill heiður, það voru sterkar myndir og reynslumiklir leikstjórar með okkur í keppninni, menn eins og Nanni Moretti og Jaco Van Dormael, þannig að maður bjóst ekki við neinu. En það er vissulega gaman og ekki slæmt að hafa unnið til verðlauna alls staðar þar sem við höfum verið í keppni fram að þessu. Fram undan eru hátíðir og frumsýningar víðast hvar í heiminum og því mjög spennandi tímar fyrir Hrúta. Myndin er enn þá í bíó hérna heima og gengur bara vel,“ segir Grímar Jónsson.

„Það eru mikil forréttindi að ferðast og hitta kollega sína á hátíðum sem þessum. Ég hitti sænska leikstjórann Roy Anderson þarna, sem var heiðursgestur hátíðarinnar, og við töluðum um að það gæti verið áhugavert að gera mynd um rabarbarabónda í Færeyjum. Sjáum hvað setur með það,” segir Grímur Hákonarson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×