Lífið

Eins og að búa á 5 stjörnu hóteli

Elín Albertsdóttir skrifar
Gréta Salóme hefur nú siglt um heimsins höf í tæpt ár og upplifað margt skemmtilegt og nýtt.
Gréta Salóme hefur nú siglt um heimsins höf í tæpt ár og upplifað margt skemmtilegt og nýtt. Mynd/Anton
Gréta Salóme Stefánsdóttir, söngkona, tónskáld og fiðluleikari, hefur starfað sem skemmtikraftur um borð í Disney Magic-skemmtiferðaskipinu í eitt ár. Gréta hefur siglt um heimsins höf í tæpt ár en hún kemur heim eftir tvær vikur og þá kemur út nýtt lag með henni.

Landsmenn muna eftir Grétu eftir að hún tók þátt í Eurovision-keppninni í Bakú árið 2012. Síðan hefur margt ævintýralegt gerst í lífi hennar. Sýning Grétu um borð í Disney Magic er glæsileg að allri umgjörð og hún hefur hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína. Gréta segir að sér líki mjög vel um borð. „Skipið er svakalega stórt og hafnirnar fjölbreyttar svo það er ekki hægt að láta sér leiðast,“ segir hún.

Gréta var stödd í Kaupmannahöfn á leið til Rússlands þegar við náðum tali af henni. „Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og ekki síður lærdómsríkt. Ég hef starfað með frábæru, hæfileikaríku fólki og hef lært helling af því. Disney er stærsta fyrirtæki í heimi á sviði skemmtikrafta og það er stórkostlegt tækifæri fyrir mig að starfa fyrir það,“ segir hún. Skipið er núna á siglingu um N-Evrópu en yfirleitt fer fólk í sjö daga ferð.



Dagur í Reykjavík

Gréta segir að ferðamenn um borð séu á öllum aldri. „Það hefur komið mér á óvart hversu fjölbreytt mannflóran er, allt frá ungum pörum og fjölskyldufólki upp í elstu kynslóðina. Það er margt gert fyrir börn sem þá eldri um borð, enda stórt skip með margvíslegri afþreyingu.“

Gréta er alltaf með sömu sýninguna þar sem hún flytur eigin lög í bland við Disney-lög og síðan nokkur lög sem hún samdi sérstaklega fyrir þetta verkefni. Fiðlan leikur að sjálfsögðu stórt hlutverk.

Þegar Gréta er spurð hvað hafi komið henni mest á óvart, svarar hún. „Eiginlega hvað þetta ferðalag hefur farið fram úr mínum bjartsýnustu væntingum. Að auki hef ég fengið að sjá marga eftirminnilega staði, eins og til dæmis St. Pétursborg sem er mögnuð. Þá var sömuleiðis mögnuð tilfinning að koma til Reykjavíkur í einn dag, eiginlega langbest. Það var ótrúlega skemmtilegt að sigla inn í Reykjavíkurhöfn. Mér finnst ótrúleg forréttindi að sjá svona marga nýja staði og hitta fólk sem ég hefði annars ekki gert,“ segir Gréta.



Eiginhandaráritanir og myndatökur

Á hverja sýningu mæta tæplega eitt þúsund manns og fylgjast með Grétu. Hún segir að „showið“ sé farið að rúlla léttilega og það gefur henni tækifæri til að halda áfram í vetur án þess að vera stöðugt um borð. „Ég get flogið út þangað sem skipið er statt og síðan heim aftur.“

Eftir hverja sýningu er gestum boðið upp á myndatöku með Grétu og að fá eiginhandaráritun. „Flestir nýta sér það eftir sýninguna en síðan er líka boðið upp á myndatökur í lok hverrar siglingar,“ segir hún. Gréta hefur því mikið verið ljósmynduð síðasta árið.



Sveiflaðist í loftinu

Svo geta óvæntir atburðir gerst, eins í síðustu viku. „Í lokalaginu flýg ég í vírum í blálokin en það klikkaði eitthvað þetta kvöld og ég byrja að fljúga í byrjuninni á sex mínútna lokalaginu. Það var mikill veltingur þetta kvöld þannig að ég endaði á að hanga átta metra uppi í lofti allar sex mínúturnar og sveiflast fram og til baka með skipinu. Mjög skemmtilegt,“ segir Gréta og hlær en bætir við að hún njóti þess mjög að vera um borð. „Þetta er svolítið eins og að búa á fimm stjörnu hóteli,“ segir hún en þar sem Gréta er svokölluð „Guest Entertainer“ fær hún að njóta alls þess sem farþegum er boðið upp á.



Ný plata

Starfsmenn skipsins í þjónustustörfum vinna hins vegar langan vinnudag og geta ekki skemmt sér með farþegum. „Staða mín er allt önnur en þjónustufólksins og ég þekki ekki vel reglur hjá þeim. Hins vegar er Disney frábrugðið öðrum skipafélögum og ég er ekki viss um að mig hefði langað til að vinna hjá öðrum. Það eru margar dyr sem opnast þegar maður starfar fyrir Disney. Svo er maturinn um borð alveg meiriháttar svo það er betra að passa sig,“ segir hún og viðurkennir að stundum fái hún auðvitað bullandi heimþrá. „En þetta er líka búinn að vera langur tími og styttist í heimkomu eftir tvær vikur. Þegar ég kem heim mun ég einbeita mér að nýju plötunni minni. Ég er að vinna hana með Daða Birgissyni og annað lagið af henni kemur út þegar ég kem heim. Svo er ég að undirbúa tónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í janúar þar sem ég flyt Disney-sjóið mitt að hluta og efni af nýju plötunni. Það eru skemmtilegir tímar fram undan og mörg gigg heima sem mig langar til að gera,“ segir Gréta Salóme.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×