Lífið

Hrútar vinna til tvennra verðlauna til viðbótar

Birgir Olgeirsson skrifar
Verðlaununum í Frakklandi deildi Grímur með franska leikstjóranum Thomas Bidegain
Verðlaununum í Frakklandi deildi Grímur með franska leikstjóranum Thomas Bidegain
Kvikmyndin Hrútar heldur áfram að sópa til sín verðlaunum á hátíðum víða um heim. Í gær hlaut Grímur Hákonarson leikstjórnarverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Saint Jean de Luz í Frakklandi og í dag hlaut kvikmyndin aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni Hamptons í Bandaríkjunum. Hefur hún því hlotið átta verðlaun, þar af fimm aðalverðlaun.

„Ég held það séu allt í allt um 50 myndir á hátíðinni, margar flottar myndir eins og Suffragette, Spotlight, Carol, Mediterranea, Anomalisa, Louder than Bombs og High Sun, en aðeins 5 myndir keppa um aðalverðlaunin þar sem Hrútar unnu. Á þeim 22 árum sem hátíðin hefur verið haldin hafa myndir þaðan verið tilnefndar 44 sinnum til Óskarsverðlauna sem besta mynd og 11 sinnum unnið. Á síðustu 7 árum hafa myndir frá Hamptons hlotið alls 194 Óskars-tilnefningar í ýmsum flokkum.” segir Grímur um hátíðina í Bandaríkjunum.

Fyrir aðalverðlaunin fær Grímur þrjú þúsund dollara í peningum og 125 þúsund dollara í formi inneigna fyrir tækjum, tólum og þjónustu fyrir næstu mynd. Nemur andvirðið því um 15,5 milljónum íslenskra króna fyrir verðlaunin á Hamptons-hátíðinni í Bandaríkjunum.

„Þetta var frumsýning myndarinnar á Austurströnd Bandaríkjanna, þetta er virt hátíð og verðlaunin fín. Ég hef heyrt að þetta sé góður staður til að sýna á fyrir Óskars-herferðina og því er ég alsæll með að við höfum einnig unnið keppnina,“ segir Grímur.


Tengdar fréttir

Hrútar unnu aðalverðlaunin í Zürich

Kvikmyndin Hrútar vann um helgina "Gullna augað“ á kvikmyndahátíðinni í Zürich í Sviss. Þetta eru aðalverðlaunin í flokki alþjóðlegra kvikmynda í fullri lengd en alls tóku fimmtán myndir þátt í keppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.