Lífið

Góður árangur kallar á rétt mataræði

Rikka skrifar
visir/stefan
Elísabet Margeirsdóttir hleypur lengra á viku en meðalmaður keyrir til og frá vinnu.
Lífefnafræðingurinn, næringafræðingurinn og ofurhlauparinn Elísabet Margeirsdóttir er mörgum kunn úr veðurfréttum Stöðvar 2 en hún vatt sínu kvæði í kross í sumar þegar hún tók við stöðu framkvæmdarstjóra hjá fyrirtæki sem sinnir hennar heitasta áhugamáli, hlaupum. Elísabet hefur þó ekki alltaf verið á hlaupum og segir hraðann hafa stigmagnast frá árinu 2003. „Ég man eftir því þegar ég fór út að hlaupa í fyrsta skiptið þá var ég mjög ánægð að klára hringinn í kringum hlíðarnar í grenjandi rigningu, mig minnir að þetta hafi verið í kringum tveir kílómetrar. Síðan þá hefur þetta stigmagnast og um þessar mundir eru tíu ár frá því ég hljóp mitt fyrsta maraþon. Mér datt ekki í hug á þessum tíma að ég myndi taka þetta svona alla leið,” segir Elísabet.

Aðspurð hvað hefði komið til að hún byrjaði að hlaupa í upphafi segir hún að sér hafi þótt hlaup spennandi. „Ég held að maður geri aldrei neitt nema manni finnist það eitthvað áhugavert. ” Elísabet hvetur þá sem eru að byrja að skella sér í hlaupahóp og læra þannig listina að hlaupa því dýrkeypt getur verið að gera mistök í íþróttinni. „Ég gerði það þó ekki sjálf og hljóp tvö til þrjú maraþon á eigin forsendum. Það var ekki fyrr en nokkrum árum seinna þegar ég var að undirbúa mig undir mitt fyrsta Laugavegshlaup fyrir sjö árum síðan að ég fór að gera markvissari æfingar.”

Með Náttúruhlaupurum á Búrfelli. Beta með Friðleifi sigurvegara MT. Esja Ultra 2014 og Sigurði, öðrum skipuleggjanda. Mætt í mark í Ultra Trail Mt. Fuji í Japan
Leið vel á skjánum

Sem barn æfði Elísabet handbolta en tók því þó aldrei alvarlega.„Ég hætti í handbolta í grunnskóla og fékk svo ekki aftur áhuga á íþróttum fyrr en í menntaskóla.” Eftir að Elísabet útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík fór hún í lífefnafræði í Háskóla Íslands.

„Mér fannst lífefnafræði vera áhugaverð auk þess sem ég stefndi að því að vinna í líftæknigeiranum. Mér fannst mörg líftækni- og matvælafyrirtæki vera að gera spennandi hluti á þessum tíma sem mig langaði að taka þátt í.” Þrátt fyrir að áhuginn á líftæknifyrirtækjum hafi dvalað á meðan á náminu stóð ákvað Elísabet að klára en settist svo fljótlega aftur á skólabekk eftir útskrift og þá í næringarfræði. „Ég hafði tekið marga valáfanga í næringafræði og fannst þetta lógískt framhald af því sem ég var að gera.” Eftir útskriftina úr lífefnafræðinni ákvað Elísabet að leita sér að vinnu meðfram meistaranáminu í næringarfræði og sá fyrir tilviljun auglýsingu þar sem auglýst var eftir veðurfréttamanni á Stöð 2. „Ég kannaðist aðeins við hana Soffíu Sveins sem var búin að vera að vinna sem veðurfréttakona á stöðinni og hún hvatti mig til að sækja um, sem ég og gerði. Mér fannst þetta spennandi með smá bland af gríni og sótti um og var kölluð í prufu daginn eftir. Mér leið alltaf vel á skjánum og fannst þetta virkilega skemmtilegt starf þessi sjö ár sem ég sinnti því.”

Eftir að meistaranáminu lauk stofnaði Elísabet fyrirtæki utan um næringarráðgjöf samhliða veðurfréttastarfinu. „ Ég rak eigin næringarráðgjöf í þrjú til fjögur ár en hætti því núna á þessu ári eftir að ég tók við nýju og spennandi starfi.”

Næringarfræðina nýtir Elísabet til eigin nota sem og vinsælla námskeiða sem hún hefur verið að halda undanfarið um næringu hlauparans. „Í grunninn er íþróttanæring mjög svipuð á milli íþrótta en þegar komið er að því að einstaklingar eru farnir að keppa reglulega þá skiptir næringin mjög miklu máli. Þetta er kannski í grunninn ekki ólíkt því sem maður vill sjá hina venjulegu manneskju borða en hlauparinn þarf að hugsa meira um orkuna í heild og þá horfa helst til kolvetna og þá góðra kolvetna. Þau þarf að velja mjög vel, þú ert ekkert að raða ofan í þig pasta, hvítu brauði og sætabrauði fyrir hlaup og ætla að ná árangri, það er sjaldan þannig að þú þurfir að borða mikið af einföldum kolvetnum til að fá orkuna sem þarf. Í kringum keppnir getur verið hentugt að grípa í einfaldan orkugjafa og þá skiptir máli að dagsdaglega sé mataræðið í góðu jafnvægi þannig við getum verið aðeins sveigjanlegri þegar kemur að átöku,” segir Elísabet og bætir við að næring eftir hlaup skipt i í raun meira máli en það sem hlauparar setja ofan í sig fyrir hlaup. „Það sem þú borðar fyrir hlaup skiptir máli upp á vellíðan en það sem þú borðar eftir hlaup skilar sér betur til vöðvanna og þannig stuðla að uppbyggingu heilbrigðs líkama.”

Um fjöll og firnindi

Nýlega tók Elísabet við stöðu framkvæmdarstjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic running en þar segist hún vera komin á rétta hillu í starfi. „Eftir að ég hætti í veðurfréttunum fór ég að kanna þann möguleika að gera eitthvað meira með hlaupin og taka það lengra. Mér var boðin vinna sem framkvæmdarstjóri Arctic running en það er lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem er tvískipt. Það heldur utan um hlaupasamfélag sem heitir Nátturuhlaup og svo höldum við utan um hlaupaferðir þar sem áhersla er lögð á erlenda aðila. Fyrirtækið leggur áherslu á hlaupaferðir í kringum höfuðborgarsvæðið alveg frá Öskjuhlið og í lengri ferðir inn í Þórsmörk þar sem stundum er gist yfir nótt. „Við erum mest að keyra á dagstúrum en erum einnig að skipuleggja lengri ferðir fyrir sérhópa, þá eru það frá þremur dögum upp í heila viku þar sem fólk er að hlaupa eitthvað á hverjum degi og skoða landið í leiðinni.”

Að sögn Elísabetar vilja þau alls ekki gefa sig út fyrir að vera einungis með skipulagðar ferðir fyrir lengra komna heldur séu allir velkomnir.„Við erum aftur á móti með mjög góða hlaupaleiðsögumenn sem ættu auðvelt með að þreyta ansi góða hlaupara,” segir Elísabet og brosir.„Við fengum þrjá stráka til okkar í vor sem voru mjög vanir hlauparar, einn þeirra hafði nýlokið Pacific crest leiðinni sem liggur frá Mexíkó til Kanada og er tæplega fimmþúsund kílómetrar. Það var áskorun að þreyta þá og að þeir fengju út úr því sem þeir sóttust eftir. Það tókst þegar við létum þá hlaupa Fimmvörðuháls þar sem snjórinn náði þeim upp að hnjám í hverju skrefi,” segir Elísabet og hlær. „Fyrir fólk sem býr í stórborgum erlendis er það frelsi að koma til Íslands og fá að hlaupa hér um frjáls, upplifa eitthvað allt annað og vera ein út af fyrir sig.”

Ofurhlaup á Íslandi

Elísabet er ein af þeim sem stofnuðu Mt. Esja Ultra ofurhlaupið sem haldið var núna í sumar í fjórða sinn. Þar geta þátttakendur keppt í utanvegahlaupi upp og niður Esjuna allt að ellefu sinnum. Einnig er í boði að hlaupa maraþon uppi á fjallinu en það er nýbreytni sem boðið var upp á í fyrsta sinn í ár.

„Það var lengi búið að vera að tala um það að setja upp svona erfitt hlaup til þess meðal annars að geta unnið sér inn stig sem gilda upp í þátttökurétt í utanvegahlaupum erlendis. Utanvegahlaup eru orðin mjög vinsæl í heiminum og færri komast að en vilja og er það hálfgert happadrætti að komast að. Það þarf að klára ýmis hlaup sem gefa svo stig sem safnast saman upp í þátttökuréttinn. Þetta gerir þátttakendur líka undirbúa undir það sem koma skal í erfiðum hlaupum.” Að sögn Elísabetar vantaði sárlega keppni hérlendis þar sem einstaklingar gætu safnað þessum tilteknu stigum og var keppnin því svar við þeirri eftirspurn. „Áður fyrr var eini valkostur þeirra sem höfðu áhuga á því að fara í svona hlaup að fara erlendis með tilheyrandi kostnaði.” Þátttakan hefur aukist frá ári til árs en eins og gefur að skilja eru kannski nokkrir þarna úti sem veigra sér við að fara í kapphlaup upp á Esju og hvað þá allt að því ellefu sinnum. „Það er markmiðið að fá fleiri í keppnina en hingað til hefur þetta verið að mestu ákveðinn hópur. Þetta á samt sem áður ekki að vera auðvelt og myndi ég telja að þetta væri ein af þeim erfiðari keppnum sem fólk skráir sig í og ætlar að gera vel hér á landi.

Hlaupið hefur mikla sérstöðu og algerlega ólíkt öllu því sem gerist í almennum hlaupakeppnum hérlendis.” Fyrir þá sem velta því fyrir sér hvernig stigagjöfin gengur fyrir sig þá gefa ellefu ferðir í Mt. Esja Ultra heil tvö stig en sem dæmi má nefna þá þarf að safna heilum níu stigum til þess að fá þátttökurétt í ofurhlaup eins og Mt. Blanc Ultra trail þar sem hlaupið er hundrað og sjötíu kílómetra langt og hækkunin tæplega tíuþúsund metrar.

Á hlaupum um allan heim

Sjálf er Elísabet ekki ókunnug þessum svokölluðu ofurhlaupum en hún hefur sjálf lokið heilum sjö hlaupum sem öll eru yfir hundrað kílómetrar á síðustu fjórum árum.„Eftir að hafa hlaupið nokkur maraþon kynntist ég náttúruhlaupum árið 2008 þegar ég tók þátt í Jökulsárhlaupinu og ákvað svo í kjölfarið að hlaupa Laugaveginn árið eftir, en hann er fimmtíu og fimm kílómetra langur. Ég undirbjó þá keppni mjög vel og fékk góða reynslu út úr því. Líka það að fara lengra en heilt maraþon gaf mér góða trú á getu minni til að hlaupa lengri vegalengdir.”

Aðspurð að því hversu langan tíma það tekur að undirbúa þokkalegan hlaupara fyrir Laugavegshlaup mælir Elísabet með almennt góðum hlaupagrunni og að það sé kostur að vera með allavega eitt maraþon á bakinu þó svo að það sé ekki endilega nauðsynlegt. Gott sé þó að afla sér upplýsinga hjá þeim sem hafa reynsluna , æfa hugann fyrir verkefnið og hafa gott sjálfstraust.

Sjálf skiptir Elísabet árinu upp í nokkra hluta og eru fyrstu haustmánuðirnir hvíldartími hjá okkar konu eftir þrekraunir sumarsins. „Smám saman fer ég aftur inn í æfingarrútinu og einblíni þá aðallega á hlaup, léttar styrktaræfingar og hot jóga. Þannig undirbú ég keppnistímabilið sem er aðallega yfir sumartímann,” segir Elísabet. Þegar okkar kona er komin aftur í keppnisform er hún að hlaupa jafnlangt á viku og meðalmanneskja keyrir heiman frá sér og til vinnu vikulega eða áttatíu til hundrað og þrjátíu

Framundan er þó keppni í janúar í Hong Kong sem Elísabet hefur lengi haft augun á og kominn tími til að fara í. „Þetta er fyrsta hlaupið í þessari Ultra trail seríu sem ég hef verið að taka þátt í og er það haldið tuttugasta og þriðja janúar, þannig að það er ekki langur tími til stefnu. Mig hefur lengi langað að fara í þetta hlaup og aftur til Asíu eftir að ég hljóp í Mt. Fuji hlaupinu í Japan sem var tæpir hundrað og sjötíu kílómetrar.” segir Elísabet og er hvergi nærri hætt og á greinilega fullt eftir, það verður því æsispennandi að fylgjast með henni hlaupa í keppnum heimshorna á milli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×