Handbolti

Guðmundur Hólmar samdi við Cesson Rennes til 2018

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Hólmar er á leið í atvinnumennsku eftir tímabilið í vor.
Guðmundur Hólmar er á leið í atvinnumennsku eftir tímabilið í vor. vísir/andri marinó
Guðmundur Hólmar Helgason, leikmaður Vals í Olís-deild karla í handbolta, er búinn að semja við franska 1. deildar liðið Cesson Rennes.

Vitað var að Akureyringurinn, sem er 23 ára gamall, myndi ganga í raðir Cesson eftir tímabilið hér heima, en nú er greint frá því á heimasíðu Cesson Rennes að Guðmundur sé búinn að skrifa undir samning til 2018.

Guðmundur Hólmar í smekklegum búningi Cesson Rennes.mynd/cessonrennes
Ragnar Óskarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, er aðstoðarþjálfari franska liðsins, en hann þjálfaði Guðmund hjá Val fyrir tveimur árum þegar hann var aðstoðarþjálfari Ólafs Stefánssonar.

Guðmundur Hólmar spilaði sína fyrstu landsleiki um helgina þegar hann stóð vaktina nær allan tímann í vörn Íslands í Gulldeildinni í Noregi.

Akureyringurinn þótti standa sig mjög vel, en Ólafur Stefánsson, annar tveggja aðstoðarþjálfara Íslands, hrósaði honum og Tandra Má Konráðssyni í fréttum Stöðvar 2 í gær. Þeir spiluðu saman í hjarta varnarinnar á mótinu.

Cesson Rennes er í fjórða sæti frönsku deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×