Lífið

Pabba vantaði alltaf

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég byrjaði ungur að gera ýmsa hluti sjálfur og fullorðnaðist snemma,“ segir Haukur, sem verður meðal þeirra sem taka til máls í Víkinni í kvöld.
"Ég byrjaði ungur að gera ýmsa hluti sjálfur og fullorðnaðist snemma,“ segir Haukur, sem verður meðal þeirra sem taka til máls í Víkinni í kvöld. Vísir/Andri Marinó
„Mér er efnið hugleikið. Það tengist æskuminningum mínum því ég var fimm ára þegar ég missti föður minn í sjóslysi. Sjö heimilisfeður fórust frá Dalvík sama dag. Það var mikil blóðtaka,“ segir Haukur Sigvaldason smiður um dagskrá Íslenska vitafélagsins um sjóslys við Íslandsstrendur sem fram fer í Víkinni, sjóminjasafni við Grandagarð, í kvöld, miðvikudag, og hefst klukkan 20.

Sigvaldi, faðir Hauks, fór í róður með bróður sínum, Gunnari, á Val EA 9. apríl 1963. Þeir voru á línu fram af Hvalvatnsfirði þegar ofsaveður brast á mjög snögglega. Báturinn fórst og Gunnar fór niður með honum en Sigvaldi náðist um borð í Esjuna, án lífsmarks, hann var úrskurðaður látinn á Sjúkrahúsi Akureyrar undir kvöld. Sama dag fórst Hafþór EA frá Dalvík. Þrettán börn urðu föðurlaus í plássinu í einu vetfangi.

„Ég man þegar mömmu var tilkynnt andlát pabba. Bróðir hennar kom með lækninum heim og dró sig svo í hlé meðan læknirinn talaði við mömmu en ég var dinglandi við lærið á henni, auðvitað talinn óviti. Ég veit að læknirinn bauð henni sprautu til að deyfa sársaukann og hún gæti sofið, en hún afþakkaði með þeim orðum að hún þyrfti að vakna upp til barnanna sinna.

Ég var yngstur af þremur systkinum. Hin voru níu og tólf ára,“ lýsir Haukur sem segir líf sitt vissulega hafa breyst við slysið. „Mamma fór fljótlega að vinna utan heimilis en mínar aðstæður voru góðar miðað við margra því móðir hennar og þrjú systkini bjuggu á hæðinni fyrir ofan okkur og mikill samgangur var á milli. Ég hafði öruggt skjól en samt var engin tilfinningaúrvinnsla og pabba vantaði alltaf. Ég byrjaði ungur að gera ýmsa hluti sjálfur og fullorðnaðist snemma.“



Sama ár og Haukur missti föður sinn, 1963, fórust 55 íslenskir sjómenn. Fyrstu þrír fjórðungar tuttugustu aldarinnar voru varðaðir sjóslysum. Steinar J. Lúðvíksson, blaðamaður og rithöfundur, skrifaði margar bækur um þá atburði undir heitinu Þrautgóðir á raunastund. Björgunar- og sjóslysasaga Íslands. Hann verður líka með fyrirlestur í kvöld í Víkinni. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.



Tölur yfir þá sem hafið tók frá 1900 til 1974

1900 – 1909   fórust   666

1910 – 1919   fórust   567

1920 – 1929   fórust   637

1930 – 1939   fórust   426

1940 – 1949   fórust   532

1950 – 1959   fórust   301

1960 – 1969   fórust   290

1970 – 1974   fórust   153






Fleiri fréttir

Sjá meira


×