Veiði

Mikið vatn í Langá við opnun

Karl Lúðvíksson skrifar
Langá á Mýrum opnaði með 5 löxum á sunnudaginn
Langá á Mýrum opnaði með 5 löxum á sunnudaginn
Mikið vatn er í flestum ánum á vesturlandi þar sem mikill snjór er að bráðna í hlýindum síðustu daga.

Þetta hefur mikil áhrif á veiðina en líka jákvæð áhrif á göngurnar í árnar, í það minnsta í flestum tilfellum. Langá á Mýrum opnaði á sunnudaginn og þar er mikið vatn sem gerir marga veiðistaði illveiðanlega.  Það komu þó 5 laxar á land fyrsta daginn og fleiri sluppu. Þetta er fyrsta sumarið þar sem eingöngu er veitt á flugu en það hefðu líklega komið fleiri á land ef áin hefði verið veidd með maðki en veiðimenn hafa tekið mjög vel í þær breytingar að áin sé "fly only" frá þessu sumri og ormurinn langi hefur því kvatt Langá.

Þegar áin er þetta vatnsmikil er líklegt að laxinn fari beint upp ánna í stað þess að stoppa í Strengjunum. Hann fer þá upp Skugga og laxastigann að jöfnu, að því er talið er, og það verður því fróðlegt að sjá hver teljarastaðan er og hversu margir laxar eru þegar gengnir í ánna. Miðað við veðurspá næstu daga gæti verið nokkur snjóbráð að renna í ánna sem á líklega eftir að halda henni í frekar miklu vatni, líklega fram yfir mánaðarmót. Það góða við það, fyrir þá veiðimenn sem eftir koma, er að fleiri laxar komast óséðir framhjá veiðimönnum og upp í ánna.

 





×