Lífið

Flöskuvarastækkanir hættuleg fyrirbæri

Guðrún Ansnes skrifar
Staðan er heldur skuggaleg ef marka má myndaflæðið á fésbókinni
Staðan er heldur skuggaleg ef marka má myndaflæðið á fésbókinni
Svokölluð Kylie Jenner Challenge, eða Kylie Jenner-áskorun, hefur heldur betur rutt sér til rúms meðal íslenskra kvenna. Hópurinn Beauty Tips á Facebook, sem í eru tæplega tuttugu og fjögur þúsund íslenskar konur, hefur orðið vettvangur kvennanna til að deila myndum af árangrinum og má með sanni segja að vægast sagt misjafnlega hafi tekist til.

Margar konur keppast við að vara kynsystur sínar við á meðan aðrar gefa góð ráð um hvernig megi blása upp varirnar án skaða.

Guðmundur Már segir áhættu vissulega tekna í hvert skipti og aldrei að vita hvenær illa fer. Vísir/Pjetur
Guðmundur Már Stefánsson, lýtalæknir í Domus Medica, mælir ekki með uppátækinu en þekkir til kvenna sem hafa látið til skarar skríða.

„Í stuttu máli má segja að með þessari blóðrásarstöðvun orsakast að bláæðarblóðið kemst ekki að. Bláæðarnar geta þannig sprungið og þá getur komið mar, eða ör. Slíkt getur svo leitt til ójafna í vörunum sökum vefjaskemmda og varirnar afmyndast í framhaldinu,“ útskýrir Guðmundur.

„Hér er verið að leika sér með áhættuna, sumar lenda ekki í þessu en aðrar gera það og það getur verið stórmál,“ segir hann og bætir við að afleiðingarnar gætu verið afar ófyrirsjáanlegar þótt upphaflega hafi átt að fylla varirnar sakleysislega."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×