Lífið

Heimsfrægur söngvari deildi mynd íslensks menntskælings

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Laufey (t.h.) birti myndina af Sean Kingston á Instagram-reikningnum sínum og bjóst ekki við því að hinn heimsfrægi myndi nýta sér hana.
Laufey (t.h.) birti myndina af Sean Kingston á Instagram-reikningnum sínum og bjóst ekki við því að hinn heimsfrægi myndi nýta sér hana. myndir/laufey
Menntskælingurinn Laufey Jónsdóttir öðlaðist örlitla heimsfrægð í nótt þegar rapparinn góðkunni Sean Kingston birti mynd sem Laufey tók á tónleikum hans á dögunum.

Hún segir að tónleikarnir, sem voru á vegum Nemendafélags Verslunarskóla Íslands og fóru fram í Vodafonehöllinni, hafi boðið upp á þetta „ótrúlega góða móment“ sem hún fangaði á filmu.

Myndina setti hún svo á Instagram-síðuna sína í gærkvöldi. Hún átt sér einskis ills von þegar hún lagðist á koddann í nótt. Þá brá Kingston á leik og birti mynd Laufeyjar á sínum reikningi. Færsluna má sjá hér að neðan.

„Þegar ég er að fara að sofa í nótt skrifar vinkona mín við myndina hans Kingston og merkir mig inn á hana. Ég fer inn á þetta og sé myndina og ég fæ bara sjokk. „Guð, Sean Kingston að setja inn myndina mína!“ segir Laufey.

Laufey Jónsdóttir
Ljóst er að ekki einungis Kingston féll fyrir myndinni því að um 2000 aðdáendur hans hafa líkað við hana síðan hún birtist á miðnætti í nótt.

Laufey gerir ráð fyrir því að myndbirtinguna megi rekja til þess að hún merkti söngvarann inn á myndina sína. Það sé þó alla jafna ekki ávísun á birtingu á reikningum stjarnanna.

„Það sem mér finnst ótrúlega merkilegt er að það eru ótrúlega margir sem tagga Sean Kingston inn á myndirnar sínar en hann hefur greinilega valið mína mynd og sett hana á Instagramið sitt,“ segir Laufey.

Þrátt fyrir birtinguna segist Laufey ekki ætla að rukka Kingston fyrir birtinguna, þó hún gæti alveg hugsað sér að fá boð á næstu tónleika söngvarans – enda gengst hún alveg við því að vera hirðljósmyndari þess bandaríska.

Kingston hefur birt fleiri myndir frá heimsókn sinni hingað en þær má nálgast á Instagram-reikningi söngvarans.

Sömuleiðis má nálgast upprunalegu færslu Laufeyjar á Instagram-reikningum hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×