Lífið

Á von á dóttur og syngur popptónlist í fyrsta sinn

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Geir Ólafsson og Adriana Patricia Sanches Krieger eiga von á stúlkubarni í janúar og hlakka til að takast á við foreldrahlutverkið.
Geir Ólafsson og Adriana Patricia Sanches Krieger eiga von á stúlkubarni í janúar og hlakka til að takast á við foreldrahlutverkið. vísir/pjetur
„Ég man ekki til þess að hafa verið að syngja popp- og rokkmúsík en ég hef gaman af allri tegund tónlistar,“ segir Geir Ólafs, sem er að senda frá sér nýja plötu á dögunum. Hún er jafnframt fjórða sólóplatan hans og sú fyrsta í popp- og rokkstíl enda Geir líklega þekktastur fyrir að syngja djass.

Platan sem ber titilinn Just A Simple Man inniheldur lög eftir Jóhann G. Jóhannsson heitinn og þá er eitt lagið eftir bróðir Jóhanns, Guðmund Reynisson. „Ég hef verið að vinna að plötunni í rúm tvö ár og það var gífurlega mikill heiður að fá efni frá Jóa og er ég ákaflega þakklátur fyrir það,“ segir Geir.

Hann segist hafa kynnst Jóhanni vel við vinnslu plötunnar I´m talking about you sem Geir sendi frá sér árið 2012. „Það er mikill heiður að hafa kynnst honum og algjörlega frábært að vera vinur hans.“

Platan er tekin upp í Los Angeles og á Íslandi og leika miklar kanónur inn á plötuna, má þar nefna trommuleikarana Dave Weckl og Bernie Dresel sem eru báðar ákaflega virtir í tónlistarheiminum, píanóleikarann Don Randi, saxófónleikarann Brandon Fields, píanó- og hljómborðsleikarann Þóri Baldursson og gítarleikarann Vilhjálm Guðjónsson svo nokkrir séu nefndir. „Það er auðvitað alveg frábært að vinna með svona frábærum hljóðfæraleikurum. Ég er gríðarlega ánægður og þakklátur.“

Verkefni Geirs eru þó fleiri en að sinna nýju plötunni því eiginkona hans Adriana Patricia Sanches Krieger gengur með dóttur þeirra sem á að koma í heiminn í byrjun janúar. „Við ætlum að eiga barnið á Íslandi. Mitt aðalverkefni er að láta elskulegu eiginkonu minni líða vel. Ég á henni mikið að þakka, án hennar hefði ég aldrei geta gert þessa plötu,“ segir Geir alsæll og fullur tilhlökkunar að takast á við föðurhlutverkið.

Ekki er komin dagsetning á útgáfutónleikana en Geir hefur þó í nógu að snúast í spilamennsku á næstunni því hann kemur fram á jólahlaðborðum og þá hefur hann og sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson leitt saman hesta sína í tónleikahaldi að undanförnu. Nýja platan kemur út á þriðjudaginn kemur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×