Veiði

Kvíslaveitur að gefa góða veiði þessa dagana

Karl Lúðvíksson skrifar
Kvíslaveitur hafa verið vinsælar hjá veiðimönnum sem sækja á hálendið en þetta árið voru þær þó heldur seinar af stað.

Þetta átti svo sem við um veiði heilt yfir hálendið enda var mikill snjór á hálendinu eftir langann vetur. Veiðin hefur oft verið komin þokkalega í gang á þessu svæði í byrjun júlí og framan af tímabilinu var þetta frekar mikið kropp. Veiðimenn sem voru við veiðar um helgina veiddu margir mjög vel og aðrar fréttir af veiði frá miðjum júlí hafa verið mjög góðar. Mun meira hefur verið að veiðast heldur en á góðum dögum í fyrra að sögn vanra manna en fiskurinn er þó sýnu minni heldur en áður.

Veiðin dreifist ágætlega um svæðið þó svo að þekktir staðir gefi meira en aðrir. Vonlaust hefur þó verið að fá það upp úr þeim sem veiða mest þarna hvar urriðinn sé að taka og hvað hann sé að taka, af skiljanlegum ástæðum, því auðvitað vilja þessir veiðimenn vera lausir við að fá fjöldann af fólki á staðina "sína". Það sem gefur þó ágætlega í Kvíslaveitum er makríll, maðkur og fluga en nokkuð er líka veitt á spún. Helstu flugurnar eru yfirleitt straumflugur sem eru veiddar á sökkenda og ýmist dregnar inn hratt eða löturhægt. Þarna er upplagt að prófa t.d. Grænann Nobbler, Dentist, Black Ghost og Köttinn.

Varðandi val á veiðistöðum hefur það oft gefið góða raun að veiða þar sem tærar ár og lækir renna í Kvíslaveiturnar sjálfar en eins veiðist oft vel þar sem straums gætir á milli vatnanna. Útfallið neðst í Kvíslaveitunum sjálfum gefur oft vel en þá helst á kvöldin. Mælt er með því að taka með sér flugnanet og sprey því flugan getur verið mjög ágang þarna uppfrá.

 





×