Handbolti

Leikmenn Vals björguðu mannslífi á æfingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér fagna Rebekka Rut Skúladóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir Íslandsmeistaratitli Vals á síðasta ári.
Hér fagna Rebekka Rut Skúladóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir Íslandsmeistaratitli Vals á síðasta ári. Vísir/Stefán
Stefán Arnarson, fyrrum þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta, segir að það sem hafi staðið upp á nýliðnu ári er að leikmenn hans hafi bjargað mannslífi.

Eins og fram kemur á fimmeinn.is sagði Stefán frá atvikinu í bloggfærslu sinni og má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

„Þegar tímamót eru í lífi manns þá er ávallt gott að staldra við og skoða hvað árið hefur gefið manni. Árið 2014 hjá mér var svipað og undanfarin ár hjá mér, en það er einn atburður sem stendur samt upp úr á árinu. Ég varð vitni að mikilli hetjudáð, það var æfing hjá mér og þegar æfingin er nýhafin verður Anna Úrsula vör við að maður sem var að hlaupa uppi á svölum hnígur niður.“

„Anna tók mikið Gasellu stökk og var komin upp á nokkrum sekúndum, hún kallar á liðsfélaga sína að kalla á hjálp. Rebekka Rut hljóp þá upp ásamt fleirum og fóru þær að aðstoða Önnu. Þegar ég kom upp var maðurinn meðvitundarlaus og var farinn að blána. Stelpurnar byrjuðu að hnoða og Rebekka Rut stuðaði einstaklinginn sem leiddi til þess maðurinn komst til meðvitundar um svipað leyti og sjúkrabíllinn mætti á staðinn.“

„Maðurinn sem missti meðvitund var og er mjög virtur innan hópssins og þ.a.l. var björgunin mjög tilfinningamikil og hafði mikil áhrif á hópinn. Í lífi manns eru sigrar og töp en að bjarga mannslífi eru mesti sigur sem til er að mínu mati. Það er hefð sem fylgir áramótum að velja mann eða konu ársins, hjá mér er valið einfalt, Anna Úrsula, Rebekka Rut og þeir leikmenn sem komu að björguninni eru menn ársins að mínu mati.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×