Viðskipti innlent

Íbúar Reykhóla vakna á nýju ári við enga verslun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eyvindur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir í viðtali í þættinum "Um land allt" í fyrra.
Eyvindur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir í viðtali í þættinum "Um land allt" í fyrra. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Einu matvöruversluninni á Reykhólum, Hólakaupum, var lokað á gamlársdag. Eigendurnir, þau Eyvindur Magnússon og Ólafía Sigurvinsdóttir, ákváðu að hætta rekstrinum vegna mikillar bindingar og vinnuálags fyrir fjölskylduna, að því er fram hefur komið á fréttamiðlunum Reykhólar.is og Skessuhorn.is.

Eyvindur segir að hagnaður hafi verið af rekstrinum og segir sannarlega grundvöll til að reka verslun á Reykhólum. Tilraunir til að fá aðra til að kaupa reksturinn hafa hins vegar ekki tekist. Þau Eyvindur og Ólafía eru þó ekki á förum og hafa ákveðið í staðinn að snúa sér að uppbyggingu rútufyrirtækis til að aka með ferðamenn um Vestfirði. Þá munu þau áfram enn um sinn hafa umsjón með eldsneytisdælunum við verslunina.

Verslunin Hólakaup á Reykhólum.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Um 130 manns búa í þorpinu á Reykhólum en um 270 manns alls í Reykhólahreppi. Langt er í næstu matvöruverslanir, 40 kílómetrar til Skriðulands í Saurbæ, 58 kílómetrar til Hólmavíkur og 75 kílómetrar í Búðardal. 

Hér má sjá þátt „Um land allt“ á Stöð 2 í fyrra þar sem fjallað var um barnasprengju á Reykhólum og rætt við þau Eyvind og Ólafíu en þau eru í hópi þeirra sem eiga þátt í óvenju mikilli barnafjölgun á svæðinu. Þar greindi Eyvindur frá því að þau hefðu flutt úr Reykjavík eftir hrun þegar nær engin verkefni voru í sendibílaakstri, sem Eyvindur stundaði áður. Ólafía á rætur í Reykhólahrepp.

Í þættinum kom fram að skortur á íbúðarhúsnæði hamlar því að fleira fólk geti sest að á Reykhólum.


Tengdar fréttir

Fluttu úr borginni og vöktu vegasjoppuna

Draumur ungs pars um að flytja úr borginni út í sveit hefur nú ræst. Í Dalasýslu fundu þau gamla þjóðvegasjoppu sem farin var á hausinn..






Fleiri fréttir

Sjá meira


×