Lífið

Myndaveisla: Theódór hafði betur gegn Sigurði í hrútaþukli

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Theódór Júlíusson sést hér íhugull raða hrútunum í rétta röð.
Theódór Júlíusson sést hér íhugull raða hrútunum í rétta röð. mynd/grímar jónsson
Theodór Júlíusson og Sigurður Sigurjónsson, aðalleikarar Hrúta, spreyttu sig í hrútaþukli síðastliðinn sunnudag er Íslandsmótið í hrútadómum fór fram í Sauðfjársetrinu í Hólmavík. Fór það svo að lokum Theodór hafði betur í einvígi þeirra.

Keppnin gengur út á að dæma fjóra hrúta og raða þeim í rétta röð, en hrútarnir höfðu verið mældir og dæmdir af fagmönnum fyrir mótið. Metþátttaka var á mótinu í ár en keppt er í flokki vanra og óvanra þuklara.

Af 53 óvönum voru fimm með hrútana fjóra í réttri röð en aðeins tveir af 41 reyndum þuklurum. Hrúturinn Kroppur var stigahæsti hrúturinn að þessu sinni.

„Eins og ég sagði ykkur fyrir mótið tel ég mig mun næmari en Sigga og það kom bersýnilega í ljós í þessu einvígi,“ segir Theodór. Þess skal getið að Theodór var með rétta röð á hrútunum og fékk mikið lof fyrir góða frammistöðu frá dómurum keppninnar.

Sigurður vitnaði í hina sígildu mynd Þráinn Bertelssonar, Dalalíf, er hann hafði beðið lægri hlut. „Þetta var gaman, I love it,“ sagði hann en vildi ekki tjá sig frekar um úrslitin.

Hrútar, mynd Gríms Hákonarsonar, hefur farið sigurför um heiminn en hún bar sigur úr bítum á kvikmyndahátíðinni í Cannes í flokknum Un Certain Regard.

Myndaveislu frá keppninni má sjá hér að neðan en myndirnar tók Grímar Jónsson, framleiðandi myndarinnar.


Tengdar fréttir

Cohen kaupir Hrúta

Bandaríska framleiðslufyrirtækið Cohen Media Group hefur tryggt sér sýningarréttinn á íslensku kvikmyndinni Hrútar eftir Grím Hákonarson.

Kindurnar með hreinum ólíkindum

Hrútar, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, umturnaði Bárðardal á meðan á tökum stóð en bændur og kvikmyndagerðarmenn lögðust á eitt til að gera myndina að veruleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.