Lífið

Rauðhærður og freknóttur maður á fertugsaldri óskar eftir ábyrgum eiganda

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðmundur Garðar vinnur í dag hjá Landsvirkjun.
Guðmundur Garðar vinnur í dag hjá Landsvirkjun. vísir
„Það er alltaf jafn gaman að eiga afmæli á facebook og takk kærlega fyrir kveðjurnar fallega fólk. Sérstakar þakkir fá þau sem sáu ástæðu til að nota orð á borð við, ungi maður, kútur og strákur.“ Svona hefst stöðufærsla frá Guðmundi Garðari Gíslasyni sem auglýsir eftir eiganda af sjálfum sér á Facebook. Guðmundur er 33 ára lögfræðingur hjá Landsvirkjun sem ólst upp á Blönduósi.

„Í fyrra gerði ég heiðarlega tilraun til að auglýsa eftir konu til undaneldis að sérstakri ósk föður míns sem þá hafði miklar áhyggjur af hjúskaparstöðu minni. Það er skemmst frá því að segja að sú auglýsing bar ekki tilskyldan árangur.“

Guðmundur segir að körfurnar hafi þá verið full miklar og hefur hann ákveðið að snúa þessi við í ár.

Rauðhærður og freknóttur maður á fertugsaldri

„Maður á fertugsaldri óskar eftir ábyrgum eiganda. Um er að ræða rauðhærðan og freknóttan mann, en það eru þó ekki hans einu kostir. Til gangs er hann hjólbeinóttur og útskeifur en þrátt fyrir það mikill dansari. Matgrannur og almennt ódýr í rekstri. Hann er að mestu uppalinn yngstur hjá einstæðri móðir ásamt þremur eldri systrum sem gerir hann einstaklega vel undirbúinn fyrir langar búðarferðir og þaulæfðan í hvers konar bið eftir kvenfólki.“

Hann segist vera með óþroskaðan húmor og almennur einfaldleiki geri honum kleift að umgangast börn og tengjast þeim á jafningjagrundvelli.

„Hann er menntaður rafvirki og því nothæfur til almenns viðhalds á heimilinu. Einnig er hann menntaður og starfandi lögfræðingur og því almennt snyrtilegur til fara og vel að máli farinn. Auk þess er hann furðu heiðarlegur þrátt fyrir lögfræði menntun. Engin formleg greining hefur farið fram á honum en óhætt að segja að hér sé um að ræða lúða, eða nörd, en samt töff lúða. Kann á þvottavél og tekur fyrirmælum vel.“

Utanbæjareintak

Guðmundur segist í grunninn vera utanbæjareintak sem þurfi sinn skammt af hreinu lofti.

„En hefur aðlagast Reykjavík með ágætum og ekkert því til fyrirstöðu að hafa hann þar áfram. Mjög einfalt er að hafa ofan af fyrir honum. Einnig stendur til boða að senda hann út á land í styttri tíma til upprunalegs eiganda.Tilboð óskast í PM. Hlusta á öll boð.“

Eins og áður segir þá starfar Guðmundur núna hjá Landsvirkjun í tímabundu verkefni sem lýkur um mánaðarmótin. Hann vantar því einnig vinnu sem fyrst. 

Það er alltaf jafn gaman að eiga afmæli á facebook og takk kærlega fyrir kveðjurnar fallega fólk. Sérstakar þakkir fá þ...

Posted by Guðmundur Garðar Gíslason on 21. september 2015





Fleiri fréttir

Sjá meira


×