Lífið

Opnar umræðuna um geðsjúkdóma í MR

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Andrea Urður skipulagði vikuna en hún var meðal annars með fyrirlestur um veikindi sín.
Andrea Urður skipulagði vikuna en hún var meðal annars með fyrirlestur um veikindi sín. Vísir/Vilhelm
Í þessari viku hefur Andrea Urður Hafsteinsdóttir staðið fyrir Depression Awareness Week í Menntaskólanum í Reykjavík þar sem hún er nemandi. Hún skipulagði vikuna ásamt skólahjúkrunarfræðingnum. Vikan er tileinkuð geðsjúkdómum og er markmiðið að opna umræðuna hjá ungu fólki. Málefnið skiptir Andreu miklu máli en í febrúar á þessu ári var hún lögð inn á geðdeild í tvær vikur.

„Fólk talar ekki um geðsjúkdóma. Það hefur orðið einhver vitundarvakning en ég vil að fólk opni augun gagnvart þessum sjúkdómum. Ég skrifaði pistil á kvíði.is um veikindi mín sem fékk mjög góðar viðtökur og í kjölfarið bauð vinkona mín mér að halda þessa viku, en hún er inspector scholae í MR.“



Fjölbreytt dagskrá alla vikuna



Í liðinni viku hafa verið fyrirlestrar frá meðal annars Andreu og Sigrúnu Þóru Sveinsdóttur sálfræðingi sem fjallaði um jákvæða sálfræði og fleira. Í dag munu Hugarafl og Unghugar koma og tala um starfsemi sína en í kvöld verða tónleikar á Kexi þeim til styrktar. Á morgun kemur leikkonan Bryndís Ásmundsdóttir og verður með fyrirlesturinn „Það er ókei að vera ekki ókei“.



„Ég hélt fyrirlestur þar sem ég talaði um mín veikindi svo að samnemendur mínir gætu séð hvað þetta er nálægt þeim. Það getur hver sem er verið þunglyndur en það skiptir svo miklu máli að vera með gott stuðningsnet og eiga góða vini sem styðja mann,“ segir Andrea en hún hefur einnig verið að kynna stuðningshóp sem kemur að þunglyndi og kvíða. Hún segir mikilvægt að nemendur hafi aðgang að slíku meðfram náminu enda sé það krefjandi í MR.

„Ég átta mig ekki alveg á hversu margir eiga eftir að skrá sig í stuðningshópinn. Það verða eflaust margir ragir við það en bara ef fimm mæta þá er ég sátt. Jafnvel bara einn þá er það frábært. Það er betra að hjálpa einum heldur en engum.“



Óþarfi að skammast sín



Átakinu Útmeða var hrint af stað í seinustu viku og hefur það vakið mikla athygli. „Mér finnst þetta frábært framtak og áhrifaríkt myndband. Það er gott að þetta lendi svona nálægt hvort öðru en ég byrjaði að skipuleggja vikuna í maí.“

Í febrúar á þessu ári fór Andrea inn á geðdeild í tvær vikur en hún vill miðla af reynslu sinni. „Þetta er mjög mikilvægt fyrir mig. Ég skammaðist mín svo mikið og sagði engum hvar ég hefði verið þegar fólk fór að spyrja mig. Það var ekki fyrr en í maí þegar ég fattaði að þetta er ekki mér að kenna. Þetta er sjúkdómur sem ég ræð ekki við.“ 


Tengdar fréttir

Hefur verið fullreynt að bera harminn í hljóði

Arnar Dan Kristjánsson leikari fer með hlutverk aðalsögupersónu í nýrri herferð Geðhjálpar. „Gríðarlega erfitt verkefni, þó tæknilega séð hafi það verið auðvelt.“

Útmeð'a!

Slagorðið „Útmeð'a“ er yfirskrift átaks Geðhjálpar og Rauða krossins gegn sjálfsvígum ungra íslenskra karlmanna á aldrinum 18-25 ára sem er algengasta dánarorsök þessa aldurshóps. Nú um mánaðamótin mun 12 manna hlaupahópur hefja átakið í samstarfi við Geðhjálp og Rauða krossinn






Fleiri fréttir

Sjá meira


×