Lífið

Hrakfallabálkurinn fundinn: Prakkaraskapur á Grundarfirði kom í veg fyrir Fitness-keppni

Bjarki Ármannsson skrifar
Steinn sést í vinsælu YouTube-myndbandi falla til jarðar við klifur í loftræstiröri.
Steinn sést í vinsælu YouTube-myndbandi falla til jarðar við klifur í loftræstiröri.
„Það líður ekki sá dagur í mínu lífi þar sem ég hugsa ekki til Grundarfjarðardaga 2012,“ grínast Steinn Vignir, hinn ungi íslenski maður sem sést í vinsælu YouTube-myndbandi falla til jarðar við klifur í loftræstiröri. Á fjórðu milljón manna hefur horft á myndbandið.

Steinn Vignir. Þess má geta að hann er hér í sömu skyrtu og í myndbandinu umtalaða.Mynd/Steinn Vignir
Vísir birti myndbandið fyrr í kvöld og lýsti eftir nafni íslenska mannsins sem sést þar detta á nokkuð kostulegan hátt. Steinn Vignir gengst við því að vera maðurinn á myndbandinu og segir það tekið í góðu gríni á Grundarfirði þegar hann var nítján ára. Fallið hefur vakið kátínu netverja úti í heimi en dró því miður dilk á eftir sér fyrir Stein.

„Þetta var bara svona prakkaraskapur hjá ungum pjökkum,“ segir Steinn. „Ég lendi á olnboganum, ég var búinn að æfa mjög stíft fyrir Fitness-keppni og þurfti í raun og veru að hætta við það út af þessu. Það var rosa leiðinlegt.“

Sem fyrr segir hefur myndbandið vakið mikla athygli og Steinn fengið ýmis skilaboð og fyrirspurnir vegna þess á Facebook. Hann segir frægðina eilítið óþægilega, fyrst og fremst þar sem hann vinni með „algjörum kvikindum.“ Hann leyfði Vísi þó góðfúslega að birta söguna á bak við myndbandið, með einu skilyrði.

„Ég mun ekki veita frekari komment, nema Jón Ársæll taki viðtalið,“ segir Steinn. „Héðan í frá verður það bara hann sem sér um þetta mál.“

Fyrir þá sem hafa ekki séð fallið, er myndbandið birt hér fyrir neðan. Innkoma Steins er eftir rúmlega 2 mínútur og 30 sekúndur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×