Ábyrgð er Kung fu Jón Gnarr skrifar 11. júlí 2015 07:00 Á uppgangstímum íslenska bankakerfisins fóru í fyrsta skipti í Íslandssögunni að birtast fréttir og viðtöl við fólk sem var að fá áður óþekkt ofurlaun eða bónusgreiðslur. Þessar upphæðir gátu jafnvel hlaupið á milljörðum. Þegar fólk var spurt út í þetta þá var því gjarnan borið við að það væri mjög eðlilegt að það fengi góð laun því það tæki svo mikla ábyrgð. Ábyrgð er líklega mikilvægasta en um leið misskildasta hugtak í heimi. Það er erfitt að skilgreina hana en hún er nauðsynlegur hluti af öllu sem fólk gerir. Okkur verður samt ekkert sérstaklega tíðrætt um hana dagsdaglega. Hún þykir leiðinleg. Hún drepur niður stemningu. Það eru engin grípandi dægurlög samin um ábyrgð. En þegar hún er höfð útundan kemur hún yfirleitt til baka með miklum látum. Ábyrgð er einn af þessum einkennilegu hlutum sem geta flætt á milli fólks og lendir oft á þeim sem síst skyldi og oft er einhver einn sem tekur ábyrgð fyrir stóran hóp. Sumir hafa ríka ábyrgðartilfinningu á meðan aðrir virðast nokkuð lausir við hana. Margir eru með fleiri ástæður fyrir því af hverju þeir ættu ekki að taka ábyrgð heldur en af hverju þeir ættu að gera það. Ábyrgð er systir yfirvalds. Hún er íþyngjandi bæði í orði og á borði. Foreldrar „taka“ ábyrgð á börnum sínum og „bera“ svo ábyrgð á þeim. Ábyrgð þýðir að vera vakandi, greina rétt frá röngu og horfast í augu við hvað sem maður telur vera sannleika og raunveruleika hverju sinni og taka ákvarðanir. Ábyrgð er tegund fyrirhyggjusemi. Það er fyrirhöfn og mjög lýjandi til lengdar að vera ábyrgur. Oft fer líka sérkennilegur vítahringur af stað; þegar einn er móttækilegur fyrir því að taka ábyrgð verður það gjarnan til þess að aðrir sjá tilefni og tækifæri til að láta frá sér ábyrgð. Þá skapast ójafnvægi. Þetta ójafnvægi er regla frekar en undantekning í mannlegu samfélagi. Því prímitífari og tjúllaðri sem samfélög eru því meira er ójafnvægið. Það er aðeins í mjög sivílíseruðum borgarsamfélögum sem jafnvægið er gott. Þar er meðvitund um ábyrgð og vilji til að hún lendi nokkuð jafnt á milli manna.Vítahringur ábyrgðarleysis Afstaðan til ábyrgðar er misjöfn eftir löndum. Það er til dæmis meiri almenn áhersla á ábyrgð einstaklingsins í Bandaríkjunum heldur en í Evrópu. Afstaðan til ábyrgðar á Íslandi er um margt sérstök. Mér verður oft hugsað til umræðunnar um rusl í miðborginni. Margir vilja að borgaryfirvöld verji meiri peningum í að þrífa upp ruslið. Fáir benda á leiðir til að fá fólk til að hætta að henda rusli á götuna. Það væri þó það sem réttast væri að gera. Það eru einstaklingar sem búa þetta rusl til. Íslenskur ruslaralýður. Hreinsun ýtir undir meira rusl og úr verður vítahringur ábyrgðarleysis.Vald er ábyrgð Hin svokölluðu yfirvöld verða að svo mörgu leyti til vegna ábyrgðarleysis þegnanna. Fólk er á launum við að taka ábyrgð. Ef samfélag er fjölskylda er ríkisvaldið foreldrarnir. Og því ábyrgðarlausara sem fólk er því öflugri verður forræðishyggja hins opinbera. Stofnanir og embætti stækka og eflast og nýjar stofnanir, sem hafa það að markmiði að fylgjast með okkur og passa okkur, verða til. Og það getur verið erfitt að fá þessa ábyrgð til baka því ábyrgð er vald. Gott íslenskt dæmi um það er ÁTVR. Ef allir væru alltaf fullkomlega ábyrgir fyrir sjálfum sér og gjörðum sínum þá mætti líklega skera ríkisvaldið niður um svona helming. Það þyrfti engar eftirlitsstofnanir lengur og lögreglufólk hefði ekkert að gera. Ábyrgð er oft það sem skilur á milli framgangs og klúðurs. Hún er gjarnan innihaldsefnið sem lætur hluti virka. Þeir sem skilja ábyrgð sjá þetta en flestir aðrir halda að yfirleitt sé það fyrst og fremst að þakka heppni eða hæfileikum þegar eitthvað gengur upp. Vald er ábyrgð. Ábyrgðarlaus stjórnandi eða leiðtogi er eins og drukkið eða annars hugar foreldri. Ábyrgðarlaust vald er vondur húsbóndi. Eins er engin ást án ábyrgðar. Sönn ást er að viðurkenna frelsi og sjálfstæði annarrar manneskju en vera jafnframt tilbúinn að grípa hana ef henni skrikar fótur og telja sig njóta þess sama til baka. Það verður heldur ekkert frelsi án ábyrgðar. Ábyrgðarlaust frelsi er skrípaleikur. Maður sér því miður alltof mikið af slíku í okkar ágæta landi. Harmleikurinn um íslenska efnahagsundrið er örugglega besta dæmið um það. Það er mín staðfasta skoðun að ábyrgð sé best komið eins mikið hjá einstaklingum og hægt er og fólk sé látið taka ábyrgð og sæta henni líka því þannig verður samfélagið bæði þroskaðra og heilbrigðara. Ábyrgð er burðarbitinn í mannlegum þroska. Að taka ábyrgð þjálfar heilann okkar eins og bestu heilabrot. Hún þvingar okkur til að horfa fram á við, sjá orsakasamhengi og gerir okkur hæfari til að leysa verkefni. Hvert minnsta ábyrgðaratriði er æfing. Að henda ekki rusli á götuna er „wax on, wax off“ æfing í ábyrgð. Og ef við tileinkum okkur þessar einföldu æfingar þá verðum við með tímanum tilbúin í stóra og merkilega bardaga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Gnarr Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun
Á uppgangstímum íslenska bankakerfisins fóru í fyrsta skipti í Íslandssögunni að birtast fréttir og viðtöl við fólk sem var að fá áður óþekkt ofurlaun eða bónusgreiðslur. Þessar upphæðir gátu jafnvel hlaupið á milljörðum. Þegar fólk var spurt út í þetta þá var því gjarnan borið við að það væri mjög eðlilegt að það fengi góð laun því það tæki svo mikla ábyrgð. Ábyrgð er líklega mikilvægasta en um leið misskildasta hugtak í heimi. Það er erfitt að skilgreina hana en hún er nauðsynlegur hluti af öllu sem fólk gerir. Okkur verður samt ekkert sérstaklega tíðrætt um hana dagsdaglega. Hún þykir leiðinleg. Hún drepur niður stemningu. Það eru engin grípandi dægurlög samin um ábyrgð. En þegar hún er höfð útundan kemur hún yfirleitt til baka með miklum látum. Ábyrgð er einn af þessum einkennilegu hlutum sem geta flætt á milli fólks og lendir oft á þeim sem síst skyldi og oft er einhver einn sem tekur ábyrgð fyrir stóran hóp. Sumir hafa ríka ábyrgðartilfinningu á meðan aðrir virðast nokkuð lausir við hana. Margir eru með fleiri ástæður fyrir því af hverju þeir ættu ekki að taka ábyrgð heldur en af hverju þeir ættu að gera það. Ábyrgð er systir yfirvalds. Hún er íþyngjandi bæði í orði og á borði. Foreldrar „taka“ ábyrgð á börnum sínum og „bera“ svo ábyrgð á þeim. Ábyrgð þýðir að vera vakandi, greina rétt frá röngu og horfast í augu við hvað sem maður telur vera sannleika og raunveruleika hverju sinni og taka ákvarðanir. Ábyrgð er tegund fyrirhyggjusemi. Það er fyrirhöfn og mjög lýjandi til lengdar að vera ábyrgur. Oft fer líka sérkennilegur vítahringur af stað; þegar einn er móttækilegur fyrir því að taka ábyrgð verður það gjarnan til þess að aðrir sjá tilefni og tækifæri til að láta frá sér ábyrgð. Þá skapast ójafnvægi. Þetta ójafnvægi er regla frekar en undantekning í mannlegu samfélagi. Því prímitífari og tjúllaðri sem samfélög eru því meira er ójafnvægið. Það er aðeins í mjög sivílíseruðum borgarsamfélögum sem jafnvægið er gott. Þar er meðvitund um ábyrgð og vilji til að hún lendi nokkuð jafnt á milli manna.Vítahringur ábyrgðarleysis Afstaðan til ábyrgðar er misjöfn eftir löndum. Það er til dæmis meiri almenn áhersla á ábyrgð einstaklingsins í Bandaríkjunum heldur en í Evrópu. Afstaðan til ábyrgðar á Íslandi er um margt sérstök. Mér verður oft hugsað til umræðunnar um rusl í miðborginni. Margir vilja að borgaryfirvöld verji meiri peningum í að þrífa upp ruslið. Fáir benda á leiðir til að fá fólk til að hætta að henda rusli á götuna. Það væri þó það sem réttast væri að gera. Það eru einstaklingar sem búa þetta rusl til. Íslenskur ruslaralýður. Hreinsun ýtir undir meira rusl og úr verður vítahringur ábyrgðarleysis.Vald er ábyrgð Hin svokölluðu yfirvöld verða að svo mörgu leyti til vegna ábyrgðarleysis þegnanna. Fólk er á launum við að taka ábyrgð. Ef samfélag er fjölskylda er ríkisvaldið foreldrarnir. Og því ábyrgðarlausara sem fólk er því öflugri verður forræðishyggja hins opinbera. Stofnanir og embætti stækka og eflast og nýjar stofnanir, sem hafa það að markmiði að fylgjast með okkur og passa okkur, verða til. Og það getur verið erfitt að fá þessa ábyrgð til baka því ábyrgð er vald. Gott íslenskt dæmi um það er ÁTVR. Ef allir væru alltaf fullkomlega ábyrgir fyrir sjálfum sér og gjörðum sínum þá mætti líklega skera ríkisvaldið niður um svona helming. Það þyrfti engar eftirlitsstofnanir lengur og lögreglufólk hefði ekkert að gera. Ábyrgð er oft það sem skilur á milli framgangs og klúðurs. Hún er gjarnan innihaldsefnið sem lætur hluti virka. Þeir sem skilja ábyrgð sjá þetta en flestir aðrir halda að yfirleitt sé það fyrst og fremst að þakka heppni eða hæfileikum þegar eitthvað gengur upp. Vald er ábyrgð. Ábyrgðarlaus stjórnandi eða leiðtogi er eins og drukkið eða annars hugar foreldri. Ábyrgðarlaust vald er vondur húsbóndi. Eins er engin ást án ábyrgðar. Sönn ást er að viðurkenna frelsi og sjálfstæði annarrar manneskju en vera jafnframt tilbúinn að grípa hana ef henni skrikar fótur og telja sig njóta þess sama til baka. Það verður heldur ekkert frelsi án ábyrgðar. Ábyrgðarlaust frelsi er skrípaleikur. Maður sér því miður alltof mikið af slíku í okkar ágæta landi. Harmleikurinn um íslenska efnahagsundrið er örugglega besta dæmið um það. Það er mín staðfasta skoðun að ábyrgð sé best komið eins mikið hjá einstaklingum og hægt er og fólk sé látið taka ábyrgð og sæta henni líka því þannig verður samfélagið bæði þroskaðra og heilbrigðara. Ábyrgð er burðarbitinn í mannlegum þroska. Að taka ábyrgð þjálfar heilann okkar eins og bestu heilabrot. Hún þvingar okkur til að horfa fram á við, sjá orsakasamhengi og gerir okkur hæfari til að leysa verkefni. Hvert minnsta ábyrgðaratriði er æfing. Að henda ekki rusli á götuna er „wax on, wax off“ æfing í ábyrgð. Og ef við tileinkum okkur þessar einföldu æfingar þá verðum við með tímanum tilbúin í stóra og merkilega bardaga.
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun