Íslenski boltinn

Ásgerður Stefanía: Sýnir hversu miklir sigurvegarar við erum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Stjörnuliðið fyrir leik.
Stjörnuliðið fyrir leik. vísir/anton
„Þetta er held ég sætasti bikarúrslitaleikur sem ég hef spilað,“ sagði fyrirliði Stjörnunnar, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir eftir að hafa tekið við bikarnum í dag.

„Það sýnir bara hversu miklir sigurvegarar við erum. Þetta leit ekki vel út á 77. mínútu og við setjum svo tvö í andlitið á þeim. Það gera bara alvöru sigurvegarar.

„Við komum okkur ekki inn í leikinn og Írunn (Þorbjörg Aradóttir) var útaf í korter af fyrstu 20 mínútunum og það var vesen. En við komum okkur út úr því. Þetta er sigurhefð. Við ætluðum ekki að koma út úr þessu tímabili titlalausar.“

Stjarnan hafði titil að verja líkt og í deildinni en Íslandsmeistaratitillinn blasir við Breiðabliki.

„Við settum okkur það markmið að halda báðum titlum. Það er ekki að takst en við eigum enn markmiðið okkar í Evrópu og ætlum áfram þar,“ sagði Ásgerður sem sagði þennan bikar bjarga tímabilinu hjá Stjörnunni.

„Þegar við erum með svona sóknarlínu og með svona mikið með okkur í leiknum þá hafði ég ekki áhyggjur þó við værum undir. Við spiluðum ekki betur en Selfoss leyfði okkur. Þær léku mjög vel í leiknum.

„Við erum með gæða spyrnumenn og góða leikmenn í teignum og þetta var með okkur í lokin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×