Sport

Bætti met morðingjans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Liam Malone kemur fyrstur í mark.
Liam Malone kemur fyrstur í mark. vísir/getty
Liam Malone frá Nýja-Sjálandi sigraði í 200 metra hlaupi aflimaðra í flokki T44 á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó í nótt en hann kom fyrstur í mark og vann gull á 21,06 sekúndum.

Malone setti nýtt Ólympíumótsmet en hann bætti met Suður-Afríkumannsins Oscars Pistorius sem var 21,30 sekúndur. Pistorius er dæmdur morðingi í dag en hann afplánar nú sex ára dóm fyrir að myrða Reevu Steenkamp, fyrrverandi kærustu sína.

Nýsjálendingurinn var áður búinn að fá silfur á mótinu en hann varð í öðru sæti í 100 metra hlaupi á eftir Bretanum Jonnie Peacock sem varði þar með titilinn sinn.

Saga Liam Malone er virkilega skemmtileg og hugljúf en gervilimir spretthlauparans voru keyptir fyrir fé sem samlandar hans söfnuðu fyrir hann.

„Ég stæði ekki einu sinni hérna ef ekki væri fyrir þessa fætur. Ég er svo þakklátur öllum sem höfðu trú á mér allt frá byrjun,“ sagði Liam Malone við nýsjálenska fjölmiðla eftir sigurinn.

Liam Malone sáttur með gullið.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×