Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði bikarmeistara Stjörnunnar, mun spila með Kristianstad í sumar en þetta staðfesti Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska liðsins, i viðtali við fréttasíðuna Damfotboll.com.
Ásgerður Stefanía spilaði með Kristianstad í byrjun tímabilsins í fyrra en skipti aftur yfir í Stjörnuna í maí og missti aðeins af einum leik Garðabæjarliðsins í Pepsi-deildinni.
Elísabet staðfestir hinsvegar að Ásgerður Stefanía muni spila allt 2016-tímabilið með Kristianstad og þar með er ljóst að Stjörnukonur eru að missa leiðtoga sinn af miðjunni sem hefur verið ein að lykilleikmönnum í sigurgöngunni.
Ásgerður Stefanía er 29 ára gömul og hefur unnið sex stóra titla með Stjörnunni á síðustu sex árum. Hún hefur spilað með Stjörnunni frá 2005 og er búinn að bera fyrirliðabandið frá árinu 2013.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir verður annar tveggja íslenskra leikmanna í liði Kristianstad en Sif Atladóttir er komin til baka eftir fæðingarorlof og Elísabet segir að hún sé komin í sitt gamla góða form.
Elísabet horfði aftur á móti á eftir Eyjasystrunum Margéti Láru og Elísu Viðarsdætrum sem sömdu báðar við Val og spila því í Pepsi-deildinni í sumar.
Margrét Lára var fyrirliði liðsins með Susanne Moberg og sú hefur einnig yfirgefið Kristianstad sem missir því báða leiðtoga sína á einu bretti. Sif var hinsvegar fyrirliði liðsins áður en hún fór í barnsburðarleyfi og tekur væntanlega aftur við fyrirliðabandinu nú.
Kristianstad hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum og Elísabet segir að félagið hafi ekki efni á því að bjóða stóra samninga. Hún segir því að félagið þurfi að búa til sína leikmenn. Elísabet er samt vongóð um að reksturinn gangi betur í ár en í fyrra.
