Um heiður og sóma Þorvaldur Gylfason skrifar 21. janúar 2016 07:00 Nú tíðkast að slá máli á ýmsar samfélagsstærðir sem engar haldbærar tölur voru til um áður. Það er framför. Ekki er langt síðan umræður um spillingu voru allar í skötulíki þar eð engar nothæfar tölur voru til um fyrirbærið heldur aðeins ágizkanir. Menn komust upp með að þræta fyrir spillingu þótt hún blasti við þar eð engum staðtölum um hana var til að dreifa. Sama máli gegnir um traust, bæði traustið sem menn bera hver til annars og til ýmissa stofnana þjóðfélagsins. Spilling, traust og slíkar stærðir mættu afgangi í umræðum um þjóðfélagsmál þar eð menn höfðu ekki fast land undir fótum. Svo er ekki lengur.Spilling Á síðustu árum hefur verið safnað gögnum um spillingu í viðskiptum og stjórnmálum víða um heim. Þetta hefur gert mönnum kleift að rekja áhrif spillingar t.d. á vöxt og viðgang efnahagslífsins. Spilling reynist draga úr hagvexti um heiminn. Þessi niðurstaða liggur ekki í augum uppi. Sumir hafa haldið því fram að spilling smyrji hjól viðskiptalífsins og örvi það með því móti. Aðrir hafa haldið hinu fram að spilling slævi atvinnulífið með því t.d. að tefla verklegum framkvæmdum í hendur mútuveitenda frekar en þeirra sem skila hagkvæmustu tilboðum í verkin, með því að velja stjórnendur mikilvægra stofnana eftir flokkshollustu frekar en verðleikum og þannig áfram. Rannsóknir á sambandi spillingar og hagvaxtar benda til að tærandi áhrif spillingar á efnahagslífið séu sterkari en nærandi áhrif hennar þegar öllu er til skila haldið. Þetta skiptir máli. Mörgum sýnist spilling víða í Afríkulöndum vera dragbítur á lífskjörum fólksins þar. Þetta er umhugsunarefni handa Íslendingum í ljósi þess að nýleg athugun Gallups sýnir að 67% svarenda í viðtalskönnun Gallups telja spillingu vera alvarlegt vandamál í stjórnmálum og stjórnsýslu á Íslandi borið saman við 14% í Svíþjóð, 15% í Danmörku, 77% í Úkraínu, 80% í Rússlandi og 86% á Ítalíu.Traust Rannsóknir á trausti eru skemmra á veg komnar. Þær má að nokkru leyti rekja til bókarinnar Bowling Alone (2000) eftir bandaríska prófessorinn Robert Putnam, bók sem sumir telja áhrifaríkasta stjórnmálafræðirit samtímans. Bókarheitið er dregið af staðtölum sem sýna að nú kjósa margir Bandaríkjamenn að slá keilur einir frekar en með öðrum. Hvers vegna? Sjónvarp hefur kennt mönnum að verja tómstundum í einrúmi, segir Putnam. Hann telur einnig að brottför kvenna af heimilum út á vinnumarkaðinn hafi veikt límið sem heldur fjölskyldum saman og þá um leið samfélaginu. Í þessu felst engin ásökun af hálfu Putnams, heldur er hann bara að leita skýringa á orðnum hlut, hæggengri þróun. Í bókinni lýsir Putnam því hversu traust hefur dvínað í Bandaríkjunum undangengna áratugi. Hann hefur m.a. minnkandi kosningaþátttöku til marks. Árin 1840-1900 var kosningaþátttaka í forsetakosningum vestra 77% að jafnaði borið saman við 56% 1904-2012. Kosningaþátttakan hefur verið undir 60% öll árin frá 1972. Fækkun félagsmanna í verklýðsfélögum er angi á sama meiði.Spilling grefur undan trausti Nú eru til fjölþjóðleg viðtalsgögn allmörg ár aftur í tímann um traustið sem menn segjast bera hver til annars. Þegar menn eru spurðir hvort flestu fólki sé treystandi eða hvort gæta þurfi ýtrustu varúðar í samskiptum við annað fólk kemur í ljós að traustið sem Íslendingar bera hver til annars var löngu fyrir hrun miklu minna en annars staðar um Norðurlönd. Spilling og vantraust voru því trúlega meðal orsaka hrunsins frekar en afleiðingar hrunsins. Vantraustið fyrir hrun leiddi ekki til aukins eftirlits heldur var því mætt með andvaraleysi og afskiptaleysi. Við bætast innlendar mælingar Capacents og MMR á trausti. Skv. MMR sögðust 14% landsmanna treysta Alþingi 2015. Capacent mælir aðeins meira traust: þau segja að 18% svarenda hafi treyst Alþingi 2015 borið saman við 50% 1995 og 42% 2008. Bankarnir fá enn verri útreið. Skv. MMR sögðust 7% svarenda treysta bönkunum 2015, en 12% skv. Capacent borið saman við 40% 2008. Skv. MMR sögðust 65% svarenda treysta Háskóla Íslands 2015, en 72% skv. Capacent borið saman við 90% 2008 og 84% 1995. Þessar tölur um þverrandi traust vitna ekki endilega um aukið óþol almennings. Það sést á því að traust almennings til lögreglunnar hefur haldizt stöðugt í kringum 80% frá því fyrir hrun. Hitt virðist líklegra að spilling stjórnmálanna sem birtist m.a. í illa útfærðri einkavæðingu og síðan hruni bankanna og nú síðast í tilraun stjórnmálamanna til að drepa nýju stjórnarskránni á dreif til að þóknast útvegsmönnum og sjálfum sér hafi átt drjúgan þátt í að draga úr áliti Alþingis. Vantraust í garð bankanna virðist stafa m.a. af því að þeir hegða sér enn að nokkru leyti eins og ríki í ríkinu, enda er þeim enn, sjö árum eftir hrun, búið svipað fákeppnisumhverfi og fyrir hrun. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Nú tíðkast að slá máli á ýmsar samfélagsstærðir sem engar haldbærar tölur voru til um áður. Það er framför. Ekki er langt síðan umræður um spillingu voru allar í skötulíki þar eð engar nothæfar tölur voru til um fyrirbærið heldur aðeins ágizkanir. Menn komust upp með að þræta fyrir spillingu þótt hún blasti við þar eð engum staðtölum um hana var til að dreifa. Sama máli gegnir um traust, bæði traustið sem menn bera hver til annars og til ýmissa stofnana þjóðfélagsins. Spilling, traust og slíkar stærðir mættu afgangi í umræðum um þjóðfélagsmál þar eð menn höfðu ekki fast land undir fótum. Svo er ekki lengur.Spilling Á síðustu árum hefur verið safnað gögnum um spillingu í viðskiptum og stjórnmálum víða um heim. Þetta hefur gert mönnum kleift að rekja áhrif spillingar t.d. á vöxt og viðgang efnahagslífsins. Spilling reynist draga úr hagvexti um heiminn. Þessi niðurstaða liggur ekki í augum uppi. Sumir hafa haldið því fram að spilling smyrji hjól viðskiptalífsins og örvi það með því móti. Aðrir hafa haldið hinu fram að spilling slævi atvinnulífið með því t.d. að tefla verklegum framkvæmdum í hendur mútuveitenda frekar en þeirra sem skila hagkvæmustu tilboðum í verkin, með því að velja stjórnendur mikilvægra stofnana eftir flokkshollustu frekar en verðleikum og þannig áfram. Rannsóknir á sambandi spillingar og hagvaxtar benda til að tærandi áhrif spillingar á efnahagslífið séu sterkari en nærandi áhrif hennar þegar öllu er til skila haldið. Þetta skiptir máli. Mörgum sýnist spilling víða í Afríkulöndum vera dragbítur á lífskjörum fólksins þar. Þetta er umhugsunarefni handa Íslendingum í ljósi þess að nýleg athugun Gallups sýnir að 67% svarenda í viðtalskönnun Gallups telja spillingu vera alvarlegt vandamál í stjórnmálum og stjórnsýslu á Íslandi borið saman við 14% í Svíþjóð, 15% í Danmörku, 77% í Úkraínu, 80% í Rússlandi og 86% á Ítalíu.Traust Rannsóknir á trausti eru skemmra á veg komnar. Þær má að nokkru leyti rekja til bókarinnar Bowling Alone (2000) eftir bandaríska prófessorinn Robert Putnam, bók sem sumir telja áhrifaríkasta stjórnmálafræðirit samtímans. Bókarheitið er dregið af staðtölum sem sýna að nú kjósa margir Bandaríkjamenn að slá keilur einir frekar en með öðrum. Hvers vegna? Sjónvarp hefur kennt mönnum að verja tómstundum í einrúmi, segir Putnam. Hann telur einnig að brottför kvenna af heimilum út á vinnumarkaðinn hafi veikt límið sem heldur fjölskyldum saman og þá um leið samfélaginu. Í þessu felst engin ásökun af hálfu Putnams, heldur er hann bara að leita skýringa á orðnum hlut, hæggengri þróun. Í bókinni lýsir Putnam því hversu traust hefur dvínað í Bandaríkjunum undangengna áratugi. Hann hefur m.a. minnkandi kosningaþátttöku til marks. Árin 1840-1900 var kosningaþátttaka í forsetakosningum vestra 77% að jafnaði borið saman við 56% 1904-2012. Kosningaþátttakan hefur verið undir 60% öll árin frá 1972. Fækkun félagsmanna í verklýðsfélögum er angi á sama meiði.Spilling grefur undan trausti Nú eru til fjölþjóðleg viðtalsgögn allmörg ár aftur í tímann um traustið sem menn segjast bera hver til annars. Þegar menn eru spurðir hvort flestu fólki sé treystandi eða hvort gæta þurfi ýtrustu varúðar í samskiptum við annað fólk kemur í ljós að traustið sem Íslendingar bera hver til annars var löngu fyrir hrun miklu minna en annars staðar um Norðurlönd. Spilling og vantraust voru því trúlega meðal orsaka hrunsins frekar en afleiðingar hrunsins. Vantraustið fyrir hrun leiddi ekki til aukins eftirlits heldur var því mætt með andvaraleysi og afskiptaleysi. Við bætast innlendar mælingar Capacents og MMR á trausti. Skv. MMR sögðust 14% landsmanna treysta Alþingi 2015. Capacent mælir aðeins meira traust: þau segja að 18% svarenda hafi treyst Alþingi 2015 borið saman við 50% 1995 og 42% 2008. Bankarnir fá enn verri útreið. Skv. MMR sögðust 7% svarenda treysta bönkunum 2015, en 12% skv. Capacent borið saman við 40% 2008. Skv. MMR sögðust 65% svarenda treysta Háskóla Íslands 2015, en 72% skv. Capacent borið saman við 90% 2008 og 84% 1995. Þessar tölur um þverrandi traust vitna ekki endilega um aukið óþol almennings. Það sést á því að traust almennings til lögreglunnar hefur haldizt stöðugt í kringum 80% frá því fyrir hrun. Hitt virðist líklegra að spilling stjórnmálanna sem birtist m.a. í illa útfærðri einkavæðingu og síðan hruni bankanna og nú síðast í tilraun stjórnmálamanna til að drepa nýju stjórnarskránni á dreif til að þóknast útvegsmönnum og sjálfum sér hafi átt drjúgan þátt í að draga úr áliti Alþingis. Vantraust í garð bankanna virðist stafa m.a. af því að þeir hegða sér enn að nokkru leyti eins og ríki í ríkinu, enda er þeim enn, sjö árum eftir hrun, búið svipað fákeppnisumhverfi og fyrir hrun.