Nokkrir einstaklingar voru teknir tali, sem hafa ýmist reynslu af Söngvakeppninni eða eru miklir áhugamenn, og voru fengnir til að velja það lag þeim þætti líklegast til að standa uppi sem sigurvegari í ár.
Flestir höfðu á orði að þeir hefðu vonast eftir að sjá marga af öflugustu höfundum landsins senda sín sterkustu lög inn í keppnina í þetta skiptið, í ljósi þess að í ár er því fagnað að þrjátíu ár eru síðan Söngvakeppni Sjónvarpsins hóf göngu sína, og því hefði úrvalið komið þeim á óvart í ár.
„Ég var tilbúin að lýsa yfir þjóðarsorg eftir fyrstu hlustun,“ sagði einn álitsgjafanna en þó höfðu margir á orði að lögin næðu þeim vel eftir nokkrar hlustanir. Inni á milli séu einnig lög sem ná að grípa við fyrstu hlustun, sem margir telja mikinn kost í svona keppni þar sem flytjendur hafa að hámarki þrjár mínútur til að heilla áhorfendur.
Margir voru einnig sammála um að flutningur laganna geta skipt sköpum, því sé ekki útilokað að þau eigi eftir að taka breytingum þegar þau verða flutt í beinni útsendingu og þá gæti góður enskur texti skipt sköpum fyrir sum lögin.
Ljóst er að þessir álitsgjafar munu ekki ráða því hvaða lag verður framlag Íslands, heldur er það að stærstum hluta í höndum áhorfenda. Eru lesendur því hvattir til að segja sína skoðun um lögin tólf í athugasemdakerfinu.
Augnablik - Alda Dís
Augnablik í flutningi Öldu Dísar var eitt af þeim tveimur lögum sem var talið álitlegast af þeim sem eru í keppninni. Lagið eiga þau Alma Guðmundsdóttir og James Wong en textann sömdu Alma, Alda og James:
„Kannski ekki frumlegasta lagið (enda væri annað svo sem ekki heldur í anda Eurovision) en nær mér strax í viðlaginu. Taktföst tromma og klappið mun örugglega sjá til þess að þetta verður hittari,“ segir annar álitsgjafi.
„Þótt mér þyki fráleitt að nefna Eurovisionlag þessu nafni, þá finnst mér þetta besta lagið. Allavega eina laglínan sem ég mundi eftir að hafa bara heyrt einu sinni,“ segir einn álitsgjafinn.
Lagið hefur einnig verið gefið út á ensku og heitir þá Now:
„Margfalt betra á ensku en íslensku en íslenska útgáfan venst þó ágætlega,“ segir einn álitsgjafinn um enska textann.
Á ný - Elísabet Ormslev
Á ný með Elísabetu Ormslev var ásamt laginu Augnabliki nefnt oftast af álitsgjöfum Vísis. Höfundur lags og texta er Greta Salóme Stefánsdóttir en hún samdi einnig lagið Raddir sem hún flytur sjálf í keppninni í ár. Hér fyrir neðan má heyra lagið Á ný:
„Að mínu mati eru bara tvö lög sem koma til greina sem framlag okkar Íslands í ár. Bæði lögin eru eftir Gretu Salóme! Lagið Á Ný þykir mér þó sigurstranglegra þar sem Elísabet Orsmlev er stórkostleg söngkona og Evrópa mun fá gæsahúð þegar hún stígur á svið. Raddirnar finnst mér reyndar alveg frábært lag en það er allt of líkt Only Teardrops sem sigraði fyrir hönd Danmerkur 2013 sem ég tel að myndi hafa neikvæð áhrif á okkur í keppninni,“ sagði annar.
„Fallegt, kraftmikið og grípandi lag. Strax við aðra hlustun er maður farinn að raula með viðlaginu, þannig eiga Eurovisionlög að vera.“
„…„Á ný" er vafalaust skásta lagið í ár. Það hefði þó sennilega ekki unnið í fyrra, þar sem keppnin var fjölbreyttari og almennt mun betri. Ég held að mjög fá lög lifi lengi í spilun frá þessu ári. Elísabet Ormslev veldur þessu vel, röddin hennar er fallega hrá og ekki jafn sykursæt og flestar hinar kvenraddirnar í keppninni í ár, sem er kostur því hún sker sig úr. Lagið náði mér við svona 8. hlustun, kl. 3 um nótt eftir allnokkur kynni við bakkus. Bakraddirnar þéttar, viðlagið nógu oft í endann til að ná að límast við heila hlustenda og laglínan fín. Hljóðblöndunin er slæm, en það verður væntanlega lagað. Ég er ekki viss um að ég spái því upp úr undankeppninni úti, en er nokkuð viss um að þetta vinni hérna. Það verður spennandi að heyra það á ensku,“ segir einn af álitsgjöfunum.
Kreisí - Sigríður Eyrún Friðriksdóttir
Lögin tvö að ofan voru áberandi í vali álitsgjafanna en næst á eftir þeim er lagið „Kreisí“ sem Sigríður Eyrún Friðriksdóttir flytur. Karl Olgeirsson á lagið en saman sömdu þau textann.
„Sendum þetta beina leið í keppnina - elsk'etta! Það er hvort eð er ekkert annað lag í keppninni sem getur unnið Eurovision,“ sagði annar.
„Lagið sem væri hægt að gera mesta showið úr sem er nú talsvert mikilvægt þarna úti væri hins vegar lagið Kreisí í flutningi Siggu Eyrúnar. Lagið er mjög öðruvísi og væri hægt að gera mjög flott atriði í kringum það og show. Sigga Eyrún er frábær söngkona og öllu vön þó svo lagið sjálft sè kannski ekki besta lagið í keppninni,“ sagði einn af álitsgjöfunum.
Einn þeirra er á því að lögin í keppninni sé mikið miðjumoð og ættu því Íslendingar alls ekki að veðja á hefðbundið lag heldur setja allan sinn pening á eitthvað „kreisí“: „Sem einmitt er heitið á einu laginu. Það er mun betra á ensku og held að það muni bara gera ágæta hluti með flottri sviðsframkomu og gæti fengið krakka atkvæðin. Sigga er flott söngkona og myndi gera þetta vel faglega.“
Hægt er að heyra enskan texta lagsins hér fyrir neðan:
„Ótöluð orð“ eftir Ernu Mist og Magnús Thorlacius er sagt krúttlegasta framlagið í Söngvakeppninni í ár:
„Alveg yndislegt lag og hrikalega sætir krakkar. Lag sem vinnur á við hverja hlustun.“
„Eitthvað virkilega sætt við þetta lag en maður er svolítið stressaður með að sjá svona unga og óreynda flytjendur upp á sviði.“
„Krúttbomba keppninnar!"
„Melódían er grípandi, falleg og alveg laus við úrelt tölvuleikjateknó. Textinn fer beint inn í hjartað á hverjum þeim sem hefur ungur slitið ástarsambandi. Hins vegar skiptir sviðsframkoman öllu; aðeins ef þeim tekst að tengja á sviðinu og flytja lagið án þess að lenda á fölskum tónum gætu Íslendingar orðið vitni að töfrum í Laugardalshöll í febrúar. Íslendingar töpuðu í fyrra á því að velja klisjukennda júrólagið þannig í ár ættum við að kjósa einlægnina. Ótöluð orð er taktískasta valið þó því fylgi mögulega áhætta. 2016 verður ár unga fólksins.“
Óstöðvandi - Karlotta Sigurðardóttir
Sænska tónsmíðin sem Karlotta Sigurðardóttir greip nokkra við fyrstu hlustun. Lagahöfundar eru Kristinn Sigurpáll Sturluson og Linda og Ylva Persson:
„Vá, þetta viðlag fer alveg á heilann og söngkonan geggjuð, kraftmikil en viðkvæm um leið. Þetta er alveg eftir uppskriftinni og fer langt ef það verður valið, sérstaklega ef síðasti tónninn verður lengdur um a.m.k. helming.“
„Þetta er lag sem hefur alveg möguleika á að verða eitthvað en eins og það er núna er það ekki neitt."
Ég sé þig - Hljómsveitin Eva
Næstu lög á eftir þessum voru ekki nefnd eins oft sem álitlegustu lögin.
Til að mynda lagið „Ég sé þig“ eftir hljómsveitina Evu sem þær Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoniasardóttir skipa. Einn spyr hvort einlægni þeirra sé einmitt það sem vanti í Eurovision?:
„Ótrúlega ljúft og seiðandi, en töff lag, enginn rembingur, frumlegt og mikil mjúk stemning. Einlægt, kannski það sem vantar í Eurovision? Skemmtilega ólíkar raddir,“ segir annar.
„Það verður að segjast alveg eins og er að lögin tólf í ár eru sérlega óspennandi og andlaus. Skást er "Ég sé þig" með Hljómsveitinni Evu, ágætis rólegt lag og einlægt.“
„Laglegu lesbíurnar í hljómsveitinni Evu eru með yndislegt lag eins og þeirra er von og vísa en það þarf að meira grípandi til þess að ná langt í stóru keppninni.“
Ég leiði þig heim - Pálmi Gunnarsson
Ég leiði þig heim sem Pálmi Gunnarsson syngur var einnig nefnt til sögunnar. Þórir Úlfarsson á lag og texta:
„Pálmi hefur engu gleymt þó hann tali kannski ekki um það og láti sem ekkert sé. Hann er enn í eðli sínu sami gamli Pálmi og lagið er ágætt en kemst líklega ekki áfram,“ sagði annar.
Fátækur námsmaður - Ingólfur Þórarinsson
Fátæki námsmaðurinn hans Ingólfs Þórarinssonar er sagður augljóslega ekki saminn fyrir Eurovision en með góðum enskum texta gæti lagið gert góða hluti:
„Textinn er náttúrlega snilld. Góður textahöfundur (Halló John Grant!) gæti klárlega snarað þessu á skemmtilega ensku og þannig talaði textinn til Evrópubúa sem búa við þetta sama vandamál og við. Ingó yrði líka örugglega mjög hress í Stokkhólmi."
„Þetta verður aðallagið á Þjóðhátíð í sumar. Mjög grípandi og maður getur ekki setið kyrr, heldur rífur sig út á gólf. Veit ekki alveg með þetta millispil.“
Spring yfir heiminn - Þórdís Birna og Guðmundur Snorri
Einn álitsgjafanna er á því að lagið Spring yfir heiminn, sem Þórdís Birna Borgarsdóttir og Guðmundur Snorri Sigurðarson flytja, sé eina lagið sem standi upp úr í ár. Lagið er eftir Júlí Heiðar Halldórsson en textann á hann ásamt Guðmundi Snorra:
Raddirnar - Greta Salóme
Önnur lög í keppninni eru lagið Raddirnar eftir Gretu Salóme sem hún flytur sjálf:
Hugur Minn er - Erna Hrönn og Hjörtur Traustason
Hugur minn er, eftir Þórunni Ernu Clausen, sem Erna Hrönn Ólafsdóttir og Hjörtur Traustason flytja:
Óvær - Helgi Valur Ásgeirsson
Óvær, eftir Karl Olgeirsson, sem Helgi Valur Ásgeirsson flytur:
Álitsgjafar Vísis: Auður Friðriksdóttir, sálfræðingur og áhugamaður um Eurovision, Ásgeir Orri Ásgeirsson lagasmiður, Bergþór Pálsson söngvari, Hildur Kristín Stefánsdóttir söngkona og lagahöfundur, Alma Tryggvadóttir meðlimur í FÁSES (Félag áhugafólks um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva), Hildur Tryggvadóttir Flóvenz ritstjóri jurovisjon.is og stjórnarkona í FÁSES, Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmaður forsætisráðherra, Nanna Elísa Jakobsdóttir blaðamaður, Flosi Jón Ófeigsson meðlimur í stjórn FÁSES, Tinna Ólafsdóttir textasmiður hjá PIPAR\TBWA, Erna Hrund Hermansdóttir samfélagsmiðlaráðgjafi, Inga Auðbjörg Straumland borgarstarfsmaður og skáti, María Ólafsdóttir söngkona, Gunnar Lárus Hjálmarsson (Dr. Gunni) tónlistarmaður og Tinna Rós Guðmundsdóttir efnaverkfræðingur.
Söngvakeppni Sjónvarpsins fer fram í þremur beinum útsendingum í mynd-, hljóð- og rafrænum miðlum RÚV. Forkeppnin verður haldin daga 6. og 13. febrúar í Háskólabíó en úrslitakvöldið fer fram í Laugardalshöll þann 20. febrúar.