Lífið

Skemmtun fyrir alla fjölskylduna

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Snjór um víða veröld eða World Snow Day verður haldinn hátíðlegur á morun.
Snjór um víða veröld eða World Snow Day verður haldinn hátíðlegur á morun. Vísir/AntonBrink
„Tilgangurinn með viðburði sem þessum er að skíðasvæði um allan heim sameinist um að fá byrjendur til að mæta ásamt fjölskyldum þeirra í fjallið, til þess að njóta og upplifa þess sem fjöllin hafa upp á að bjóða,“ segir Jón Viðar Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands. Snjór um víða veröld eða World Snow Day er alþjóðlegur skíðadagur sem haldinn er víðsvegar um allan heim á morgun.

„Við erum aðallega að reyna að höfða til barna, á aldrinum 4-14 ára. Skíðasamband Íslands vill búa til heimsviðburð um snjó og kynna öryggisreglur fyrir börnum. Þetta er í fimmta sinn sem dagurinn er haldinn hátíðlegur víðsvegar um heiminn, og jafnframt fimmta sinn sem að Ísland tekur þátt í viðburðinum,“ segir Jón Viðar ánægður með þátttöku íslands.

Níu skíðasvæði víðsvegar um landið bjóða upp á alls konar afþreyingu og fríðindi fyrir þá sem mæta þann 17. janúar.

„Helsta ástæðan fyrir því að farið var af stað með World Snow Day var að fá fleiri til þess að iðka skíði en sú tala fór lækkandi frá aldamótum fram til 2010. Fyrir utan að kynna skíðaíþróttina fyrir alheiminum með svona viðburði eins og World Snow Day er verið að reyna að fá börn, og aðra, til þess að njóta útivistar í óspilltri náttúru og sjá hag sinn í að huga að heilsunni með hollri hreyfingu,“ segir Jón Viðar fullur tilhlökkunar fyrir komandi helgi.

Þau skíðasvæði sem taka þátt í ár eru Bláfjöll Reykjavík, Hlíðarfjall Akureyri, Ólafsfjörður, Dalvík, Siglufjörður, Tindastóll Sauðárkrókur, Oddskarð, Stafdalur og Ísafjörður og verða öll þessi svæði með skemmtilega dagskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×