WOW air mun hefja flug til Cork á Írlandi í júní á næsta ári. Flogið verður fjórum sinnum í viku, allan ársins hring.
Í tilkynningu frá WOW air segir að ákveðið hafi verið að bæta við öðrum áfangastað á Írlandi vegna mikillar eftirspurnar. WOW flýgur einnig til írsku höfuðborgarinnar Dublin.
Haft er eftir Skúla Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, að það sé ánægjulegt að geta boðið upp á flug til fleiri áfangastaða á Írlandi en landið hafi mikið upp á að bjóða hvað varðar afþreyingu og stórbrotið landslag. „Við finnum fyrir miklum áhuga Íra á Íslandi og hefur einnig verið mikil eftirspurn þaðan til áfangastaða okkar í Norður-Ameríku,“ segir Skúli.
Í tilkynningunni segir að tímasetningar fluganna séu einstaklega hagkvæmar og munu gera Íslendingum kleift að nýta vel daginn þar ytra. Flogið verður frá Keflavíkurflugvelli að morgni og lent klukkan 10:25 að staðartíma. „Eins munu tímasetningarnar frá Cork henta Írum vel sem vilja ná tengiflugi til áfangastaða WOW air í Norður-Ameríku. Flogið verður á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum.
Cork er önnur stærsta borgin á Írlandi á eftir Dublin. Cork er staðsett við suðvesturströnd Írlands og liggur að höfn. Áin Lee rennur í gegnum Cork og margar brýr tengja borgarhlutana saman og einkenna mjög borgina. Í Cork er gott að versla og veitingastaðir eru fjölmargir. Þá má einnig geta þess að Cork hefur lengi verið vinsæll áfangastaður fyrir golfáhugamenn enda fjölmargir golfklúbbar starfræktir í Cork og nálægum sveitum,“ segir í tilkynningunni.

