Lífið

Hvernig á að komast lifandi út úr janúar útsölunum

Guðrún Ansnes skrifar
Vissara er að hafa varann á þegar útsölurnar eru þræddar.
Vissara er að hafa varann á þegar útsölurnar eru þræddar.
Þungt loft og fólk með krónumerki í augum troðfyllir verslanir og verslunarkjarnana þegar brestur á með janúarútsölunum, þar sem markmiðið er að gera bestu kaup ársins, allavega fram að næstu útsölu. Þórunn Ívarsdóttir og Lína Birgitta Camilla Sigurðardóttir eru hoknar af reynslu þegar kemur að útsölum, og hafa ráð undir rifi hverju varðandi hvernig hægt er að gera gott úr slíkum aðstæðum.

Lína þekkir útsölustemninguna eins og lófann á sér, en hún hefur meðal annars átt eigin verslun, auk þess sem hún er iðinn bloggari.
Passa sig á koktailkjólunum

„Ég fer á hverju ári með vinkonu minni á janúarútsölurnar og hef gert í mörg ár. Þetta er ómissandi partur af nýju ári fyrir okkur,“ segir Lína Birgitta sem segir íslenskar verslanir standa sig sífellt betur í þessum efnum, en ekki sé langt síðan vart hafi verið þverfótað fyrir arfaslökum útsölum. „Ég er þó ánægðust með að komast á útsölur erlendis, en er ánægð með hvernig þetta er að þróast hér heima.“ Lína segir grundvallaratriði að fólk sé meðvitað um hvað það virkilega þarf í fataskápinn áður en það leggur af stað í leiðangurinn. 

„Það munar auðvitað miklu í verði, og þó maður sjái eitthvað sem kostar ótrúlega lítinn pening, þarf maður að spyrja sig hvort maður komi raunverulega til með að nota vöruna. Er varan að fara að hanga mestmegnis inni í skáp? Að kaupa vöru sem manni finnst sæmileg, eða svona „lala“ eiginlega bara af því að hún er á svo miklum afslætti, fellur um sjálft sig ef maður notar hana ekkert og því hefði verið sniðugra að kaupa frekar dýrari vöru, og nota hana,“ útskýrir Lína. Hún hvetur kynsystur sínar jafnframt til að skilja réttlætingar á borð við „ég mun bókað nota þennan kjól í kokteilboði“ eftir heima. „Það kannast örugglega flestar við þetta. Að finna geggjaðan kjól, sem passar stórkostlega og spyrja sig svo hvenær maður gæti mögulega notað hann. Og þá sannfærir maður sig um að hann sé fullkominn kokteilboðakjóll. Ég á fullan skáp af þessum kjólum, og hef á minni tuttugu og fimm ára ævi farið í eitt kokteilboð. Maður fer aldrei í neitt kokteilboð, og ef maður gerir það, þá fer maður ekki í svona kjól,“ bendir Lína á og skellihlær.

1. Finna út hvað virkilega vantar í skápinn. Eru það skór? Buxur? Gott að spyrja sig hvort maður muni í alvöru nota vöruna. Hreinskilni borgar sig.

2. Gott að hugsa: „Myndi ég kaupa þessa flík fyrir upprunalegt verð?“ Ef svarið er já, er óhætt að skella sér á kassann, ef svarið er nei, eru allar líkur á að hún endi aftast í skápnum þegar heim er komið.

3. Eru líkur á að þessi guðdómlegi kjóll muni koma sér vel í kokteilboðinu sem þér verður líklega ekki boðið í? Slepptu honum.

 4. Skipulagið skiptir máli. Gott er að ákveða í hvaða búðir skuli fara til að koma í veg fyrir að enda með spíral í augunum í rangölum verslunarmiðstöðvarinnar.

5. Passa sig á að kaupa ekki vörur sem eru við það að detta úr tísku. Fólk á auðvitað að kaupa það sem það langar í, en fyrir þá sem pæla í svona hlutum er gott að hafa þetta bak við eyrað.

Þórunn stendur beggja vegna búðarborðsins, en hún hefur bæði starfað í verslunum og gert misgóð kaup. Vísir/Stefán
Þarf ekki að kaupa allt þó það sé ódýrt

„Alltaf þegar ég fer á útsölu, nota ég nánast aldrei það sem ég kaupi. Ég er ekki að tala illa um útsölur, en þær virðast ekki henta mér sérstaklega þar sem ég enda alltaf í nýju vörunum,“ segir Þórunn og hlær. Hún segir öllu skipta að fólk vandi valið, og kaupi ekki eitthvað bara vegna þess að varan kosti minna en hún gerði einhvern tíma.

„Það er ekki sniðugt að láta freistast af því að varan kostar bara þrjú þúsund kall, eða eitthvað. Þetta eru enn þá peningar, sem þú gætir til dæmis notað í tvær, þrjár máltíðir.“ Þórunn segist þó hrifnust af að detta á útsölur erlendis, og nefnir þar Bandaríkin. „Það er frábært að komast á vetrarútsölur í Flórída til dæmis, þá getur maður fengið góðar úlpur, skó og þykkar peysur á góðu verði. Þetta gildir vissulega hér heima líka að einhverju leyti, og verður að segjast að janúarútsölurnar eru betri en sumarútsölurnar, þar sem það er alltaf kalt hérna á Íslandi,“ bendir hún glaðlega á. „Það sem skiptir líka miklu máli þegar fólk fer á útsölur er, að vera ágætlega upplagður í þetta. Aldrei fara í vondu skapi, eða pirraður inn í mátunarklefa. Að máta eitthvað í brjáluðu skapi er ekki sniðugt, þá bara passar ekkert og allt ómögulegt.“

1. Kaupa beisik flíkur, svo sem rúllukragaboli, yfirhafnir, góð vesti og leðurjakka. Þeir eru alltaf dýrir, svo það er gott að fá þá á útsöluverði.

2. Það er óhætt að kaupa góða skó, með alvöru vetrarsólum. Þeir munu nýtast. Ég mæli með Vagabond-útsölum.

3. Passa sig á trendum, þau safnast upp á útsölum.





4. Ekki kaupa eitthvað bara vegna þess að það er ódýrt.

5. Biðja um aðstoð starfsfólks, það veit alveg hvað það syngur.



6. Fara ekki að versla í fúlu skapi.Ekki kaupa eitthvað sem er þakið rennilásum.

Fimm góð ráð frá Daða Ólafssyni, sérfræðingi á neytendasviði Neytendastofu.

1. Veltu fyrir þér hvort raunverulega sé um gott tilboð að ræða. Forðastu að einblína bara á afsláttinn og veltu heldur fyrir þér hvort verðið sé gott.

2. Veltu fyrir þér hvort þú hafir þörf fyrir vöruna og hvort varan sé úrelt eða hafi lítið notagildi þegar hún er keypt.

3. Mundu að verslanir eru ekki skyldugar til að bjóða upp á skilarétt á ógölluðum vörum.

4. Bjóði verslun upp á skilarétt þá gilda skilaréttarskilmálar verslunarinnar um hann.

5. Það er tveggja ára lögbundin ábyrgð á gölluðum vörum. Það er þó yfirleitt ekki hægt að bera fyrir sig galla eftir á ef sérstök athygli var vakin á honum við kaupin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×