Eftir að Sigurður Grétar Benónýsson kom ÍBV yfir á 83. mínútu fengur Ólsarar ansi ódýra vítaspyrnu sem Hrvje Tokic fiskaði og skoraði úr. Það tryggði nýliðunum eitt sig.
„Víkingar fara með eitt stig, dómarinn eitt stig og við sitjum eftir með eitt stig. Dómarar eiga hvorki að gefa stig né safna þeim sjálfir,“ sagði Bjarni Jó sem var aldeilis ekki sáttur með frammistöðu dómarans í dag.
Leikurinn var nokkuð lokaður framan af en opnaðist upp á gátt undir lokin.
„Leikstíll Víkinga er kröftugur og þeir eru mjög agaðir. Það er erfitt að finna glufur í gegn hjá þeim, enda eru þeir taplausir í deildinni í ár. Þeir eru með miklu sterkara lið en menn áttu von á, tímasetningin á markinu hjá okkur á að vera þannig að við eigum að geta varið markið okkar. Við ráðum ekki við svona vitleysisgang eins og Guðmundur Ársæll sýndi hérna í lok leiksins.“
„Við erum búnir að spila ágætlega í þessu móti að undanskildum tuttugu mínútum í síðasta leik. Það voru stór batamerki á liðinu frá síðasta leik og miklu meiri kraftur í okkur. Mér fannst við hafa þannig tök á leiknum í lokin að við hefðum getað unnið dómarann líka.“
Mikkel Maigaard var frábær hjá ÍBV á undirbúningstímabilinu en hefur ekki fengið að spreyta sig mikið í fyrstu leikjunum. „Það eru aðrir menn sem hafa tekið góð skref. Hann verður að bíða þolinmóður.“
Félagaskiptaglugginn lokar á sunnudaginn ætlar Bjarni að bæta við sinn hóp? „Maður veit aldrei hvað þessum stjórnarmönnum dettur í hug,“ sagði Bjarni undir lokin en formaður knattspyrnuráðs ÍBV stóð nokkrum metrum vestan við viðtalsstað.