Viðskipti innlent

Jákvæð áhrif af styttri vinnudegi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sóley Tómasdóttir segir þörf á að meta áhrif styttri vinnuviku á skiptingu heimilisverka.
Sóley Tómasdóttir segir þörf á að meta áhrif styttri vinnuviku á skiptingu heimilisverka. vísir/Stefán
Niðurstöður tilraunverkefnis um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg benda til þess að starfsmönnum hafi tekist að sinna verkefnum sínum til fulls þrátt fyrir fjórum til fimm klukkutímum styttri vinnuviku. Enginn aukakostnaður fylgdi tilrauninni fyrir utan bakvakt á föstudagseftirmiðdögum hjá Barnavernd.

Niðurstöður benda til þess að með styttri vinnuviku sé andleg og líkamleg líðan starfsmanna betri, starfsánægja eykst og tíðni skammtímaveikinda lækkar. Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og formaður stýrihóps um innleiðingu verkefnisins, segir tvímælalaust jákvæð áhrif af þessari tilraun. Hún segir æskilegt að halda áfram með verkefnið til að mæla hvort jákvæð áhrif vari.

Frá 1. mars 2015 til 1. mars 2016 fór fram tilraun með styttingu vinnuviku í Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og hjá Barnavernd; tveimur vinnustöðum þar sem álag var talið mikið. Hjá Barnavernd var vinnuvikan stytt um fjóra klukkutíma með því að loka eftir hádegi á föstudögum, þá tók bakvakt við. Hjá Þjónustumiðstöðinni var lokað klukkan þrjú í stað fjögur alla virka daga. „Við áttuðum okkur strax á því að það er mikilvægt að laga þetta að hverjum vinnustað fyrir sig,“ segir Sóley

„Verkefnið hefur gengið snurðulaust fyrir sig. Það hafa verið mjög fáar hindranir í veginum. Báðir vinnustaðir tóku sínar daglegu venjur til gagngerrar skoðunar, þeir veltu fyrir sér tímastjórnun, lengd kaffipása, og funda. Niðurstöður og samtöl við fólk sem tók þátt benda til þess að fólk nýti tímann sem það er í vinnunni betur til vinnu,“ segir hún.

Sóley segir að þó að þessar vísbendingar séu til staðar þá sé ýmislegt sem þörf sé á að skoða frekar, til dæmis hvort fólk sem vinni styttri vinnuviku sé að taka á sig auknar byrðar heima. „Niðurstöður tilraunarinnar verða formlega kynntar á málþingi í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan tvö í dag. Það væri gaman ef málþingið í dag yrði til að kveikja í almenna vinnumarkaðnum til að skoða þetta,“ segir Sóley Tómasdóttir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. maí.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×