Lífið

Kópavogsbær útnefnir heiðurs- og bæjarlistamenn

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Frá afhendingu viðurkenninganna. Karen E. Halldórsdóttir, Daði Harðarson, Kristín Þorkelsdóttir, Ásgeir Ásgeirsson, Ármann Kr. Ólafsson og Auður Sigrúnardóttir.
Frá afhendingu viðurkenninganna. Karen E. Halldórsdóttir, Daði Harðarson, Kristín Þorkelsdóttir, Ásgeir Ásgeirsson, Ármann Kr. Ólafsson og Auður Sigrúnardóttir.
Ég hef ekki sóst eftir þessari vegtyllu,“ segir Kristín Þorkelsdóttir, myndlistarkona og hönnuður, sem var valin heiðurslistamaður Kópavogs nýlega. Auk þess að mála vatnslitamyndir frá 1984 starfaði hún við grafíska hönnun í áratugi, hannaði vegabréfið og fjöldann allan af vöruumbúðum, bókakápum og merkjum.

Eitt af því sem eftir Kristínu liggur er hönnun allra núgildandi peningaseðla Íslands. Þá tók hún að hanna 1981, ásamt Stephen A. Fairbairn. Spurð af hvaða seðli hún sé stoltust svarar hún kankvís: „Þeir eru nú margir góðir, skal ég segja þér. Mér þykir afskaplega vænt um 10 þúsund króna seðilinn og 50 króna seðillinn með Guðbrandsbiblíu var ákaflega fallegur og líka hundrað kallinn með handritunum en þeir hafa báðir verið lagðir til hliðar.“ 

Fyrir fjórum árum kveðst Kristín hafa fengið blóðtappa og lamast á vinstri útlimum en hamast við að endurhæfa sig með aðstoð fagfólks og fleiri. „Ég hef málað öll sumrin frá því þetta gerðist. Þá er ég að njóta lífsins með málverkinu úti í garði og hef afskaplega góðan karl sem passar upp á mig,“ lýsir hún, létt í bragði.

Það eru vatnslitirnir sem Kristín fæst við. Síðasta sýning hennar var portrettsýning í Listasafni Mosfellsbæjar á síðasta ári, hún hét Ásýnd samferðamanna á lífsfleyinu. „Þar voru myndir eiginlega frá ævilengd minni sem er orðin allnokkur,“ segir Kristín.  „Ég hef alltaf haft vissa þörf fyrir að teikna þá sem í kringum mig hafa verið.“

Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari verður bæjarlistamaður Kópavogs næsta árið. Hann hefur gefið út tvær sólóplötur, leikið inn á hátt í 100 hljómplötur og hefur einnig verið tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir eigin tónsmíðar.



Ásgeir hefur lagt rækt við flutning Balkantónlistar. Hann mun í haust heimsækja alla skóla Kópavogs og flytja tónlist frá Balkanskaga ásamt félögum sínum enda tilgangur með vali á bæjarlistamanni  að fá öflugan listamann til að sinna menningarfræðslu í Kópavogi í samstarfi við Menningarhús Kópavogs.



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. september 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×