Lífið

Vann að línu Balmain fyrir H&M

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Lára Kristín Ragnarsdóttir gegnir ábyrgðarstöðu hjá H&M. Hún býr í Stokkhólmi ásamt kærastanum Federico Rodriguez og synir þeirra Daniel Mar.
Lára Kristín Ragnarsdóttir gegnir ábyrgðarstöðu hjá H&M. Hún býr í Stokkhólmi ásamt kærastanum Federico Rodriguez og synir þeirra Daniel Mar. myndir/ úr einkasafni
Lára Kristín Ragnarsdóttir er vöruþróunar- og innkaupastjóri hjá tískurisanum H&M. Hún vinnur með mörgum stærstu nöfnum tískuheimsins í dag, nú síðast að samstarfsverkefni H&M við Balmain. Hún er stoltust af vörulínum Marni og Margiela fyrir H&M og segir forréttindi að fá að vinna við hlið færustu hönnuða heims. Lára býr í Stokkhólmi með kærastanum Federico Rodriguez og tveggja og hálfs árs syni þeirra Daniel Mar.

Stund milli stríða í vinnunni hjá Láru og Kendall Jenner.
Ekki bara glamúr og kampavín

„Vinnan mín er ekki stanslaust kampavínspartí heldur fyrst og fremst hörkupúl,“ segir Lára Kristín spurð út í glamúrinn sem hljóti að fylgja tískuheiminum. Í vinnunni sé enginn tími fyrir hangs. Lára er ábyrg fyrir öllu ferlinu frá fyrstu hugmynd og þar til varan er komin á búðar­gólfið. Teymið hennar sér einnig um öll gestahönnunarverkefni H&M Studio Coll­ection, Conscious Exclusive og öll góðgerðar- og styrktarverkefni H&M.

„Maður nær engum árangri nema bretta upp ermar og þetta fólk er fullmeðvitað um það. En kampavínsglösin eru að sjálfsögðu tekin upp þegar vel tekst til,“ segir hún.

Lára ásamt hluta af Balmain hönnunarteyminu baksviðs Október 2015.
Donatella Versace

eftirminnileg

Meðal þeirra sem Lára hefur unnið með eru Donatella Versace, Consuelo Castiglione og Anna dello Russo. Hún segist þó ekkert mega tjá sig um samstarfið þegar hún er innt eftir krassandi sögum.

„Þau eru öll eftirminnileg á sinn hátt. Fundirnir með Donatellu voru afar eftirminnilegir og þá var mjög gaman að vinna með Consuelo Castigione hjá Marni. Hún er ein sú færasta sem ég hef kynnst. Nú síðast unnum við með Balmain og Olivier Rousteing og þar innanborðs er frábært fólk. Oliv­ier er einn sá allra besti þó ungur sé,“ segir Lára.

„Ég hef líka fengið tækifæri til að vinna með áhugaverðu fólki á tökustað í herferðum H&M, til dæmis ljósmyndaranum Mario Sorrenti, kvikmyndagerðarkonunni Sofiu Coppola og fyrirsætunum Jourdan Dunn, Gigi Hadid og Kendall Jenner. H&M Studio Collection-ið okkar f/w 2013 var einnig mjög eftirminnilegt og lærdómsríkt verkefni en það var í fyrsta skiptið sem H&M sýndi á tískuvikunni í París.

Ég ferðast mikið vegna vinnunnar og heilmikið púsluspil að plana heimilislífið í kringum þetta þar sem hvorugt okkar Federicos hefur fjölskylduna hér í Stokkhólmi en hingað til hefur þetta gengið vel,“ segir Lára en heima á Íslandi á hún stóra fjölskyldu.

„Einu sinni liðu tólf mánuðir milli heimsókna til Íslands og ég fann virkilega fyrir því. Íslenska náttúran, fjölskyldan og vinirnir eru nauðsynlegir til að halda heilsu bæði á líkama og sál.“

að lokinni sýningu H&M á tískuvikunni í París 2013.
Kynntust í Flórens

Lára og Federico kynntust í Flórens þegar Lára var við mastersnám hjá Polimoda í Fashion Merchandising- and Management. Federico er fæddur og uppalinn í Flórens og er framkvæmdastjóri ítalska fyrirtækisins OLI VIBRA á Norðurlöndum. Í þrjú ár vann Lára sem aðstoðarmaður collection manager hjá tískufyrir­tækinu Escada í Flórens áður en ævintýrið hjá H&M hófst 2008.

„Hjá Escada opnaðist sá heimur fyrir mér sem ég starfa við enn í dag. Ég lærði fatahönnun við LHÍ á sínum tíma en hjá Escada öðlaðist ég ómetanlega reynslu sem enginn skóli getur kennt.

Mig langaði þó að færa mig nær ráðandi tískustraumum og læra meira um alþjóðlega vöruþróun og hvernig stærsti kúnnahópurinn hagar sér. Án þess að vita hvert ég ætlaði sagði ég upp starfi mínu hjá Escada og sendi nokkrum fyrir­tækjum CV-ið mitt. H&M kallaði mig strax í viðtal og bauð mér svo vinnuna samdægurs. Tíu dögum síðar var ég flutt til Stokkhólms."

Besta leiðin til að gleyma amstri dagsins er að leika við Daniel Mar á róluvellinum í hverfinu.
Lisbeth Salander „býr“ í götunni

Fjölskyldan býr við Mosebacke­torg á Södermalm rétt við Slussen og brúna yfir til Gamla Stan. Lára lýsir hverfinu sem líflegu og skemmtilegu. Gatan þeirra sé einnig sögusvið bóka Stieg Larsson og oft megi sjá aðdáendur rithöfundarins á vappi með myndavélar á lofti en Lisbeth Salander, „býr“ við endann á götunni.

Til að kúpla sig út úr amstri vinnunnar segir Lára að besta meðalið sé leikur við Daniel á róluvellinum.

„Þar er maður fljótur að gleyma öllu stressi. Svo förum við heim og búum til góðan mat og erum dugleg að bjóða vinum, jafnt á mánudegi sem um helgar. Helgarnar nýtum við til að gera eitthvað skemmtilegt saman. Yfir vetrartímann er frábært að fara á söfn. Við fórum tvisvar á sýningu Ólafs Elíassonar í Moderna Museet, hún var alveg mögnuð og Daniel naut hennar jafn mikið og við. Náttúrugripasafnið, lestarsafnið og tæknisafnið heimsækjum við líka oft.

Það kemur fyrir að ég þarf að ferðast um helgar en yfirleitt reyni ég að halda laugardögum og sunnudögum lausum. Daniel fer í fimleika á laugardagsmorgnum og svo er svaka stuð á snjóþotunni núna, svona þegar ekki er 20 gráðu frost.“

Lára æfði fimleika í 20 ár, fyrst með KR og svo með Stjörnunni. Hún segir fimleikana hafa kennt sér aga og áræðni .
Frækinn fimleikaferill

Það kemur ekki á óvart að Daniel æfi fimleika. Sjálf æfði Lára fimleika í 20 ár, fyrst með KR og síðar með Stjörnunni. Þegar hún flutti til Stokkhólms hóf hún að þjálfa hjá Stockholm Top Gymnastics og vann liðið Norðurlandameistaratitilinn 2009 og silfur á Evrópumótinu 2010.

„Ég mun alla tíð búa að árunum innan fimleikahreyfingarinnar. Ég er stolt af því að hafa verið með sigursælu liði Stjörnunnar á sínum tíma sem átti stóran þátt í að ryðja brautina fyrir komandi kynslóðir og þeirri velgengni og vinsældum sem íþróttin hefur náð á Íslandi,“ segir Lára.

„Agi, metnaður, skipulagning, þrautseigja, viljastyrkur og trúin á sjálfa mig eru einungis hluti af því sem fimleikarnir hafa gefið mér, en það er eitthvað sem getur annars tekið bróðurpart ævinnar að læra og tileinka sér.“

Um helgar reynir Lára að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni.
Troðfullur fataskápur

Flíkur H&M fylla dágóðan hluta fataskápa okkar Íslendinga og viður­kennir Lára að hún sé engin undantekning. Hún eigi í rauninni allt of mikið af fötum. Einnig séu merkin Balenciaga, Marni, Rod­ebjer, Acne, Prada og nýja Gucci og Valentino í uppáhaldi.

Ertu komin á rétta hillu? „Ég ætla ekki að starfa á sama stað þar til ég fer á eftirlaun, það er alveg á hreinu. Akkúrat núna er ekkert fararsnið á mér en ég tel það stórhættulegt að hugsa þannig að maður sé kominn á áfangastað. Held það sé nauðsynlegt að hugsa alltaf aðeins lengra til að halda sér á tánum og halda áfram að þróa sjálfan sig.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×