Leikirnir hafa margir verið ótrúlega spennandi og mörg úrslit komið á óvart. Ísland vann til dæmis sigur á Noregi í fyrstu umferð mótsins sem þótti ekki óvænt þá en nú eru Norðmenn búnir að vinna Króatíu, Pólland og Frakkland og komnir í undanúrslit.
Úrslitin á miðvikudaginn í lokaumferð milliriðlanna tveggja voru sum hver alveg ótrúleg, en lokadagurinn í riðlakeppninni verður lengi í minnum hafður.
Noregur, sem aldrei áður hefur komist í undanúrslit á EM, tók sig til og vann fimm marka sigur á meistaraefnum Frakklands á sama tíma og Dagur Sigurðsson, með meiðslum hrjáð lið Þýskalands, lagði stjörnum prýtt lið Danmerkur undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar.
Króatar þurftu tíu marka sigur á heimamönnum frá Póllandi fyrir framan 14.000 æsta stuðningsmenn gestgjafanna. Þeir gerðu enn betur og unnu fjórtán marka sigur.
Eitt tíst frá handboltaáhugamanni dró lokadaginn ágætlega saman.
Go home, handball. You're drunk. #ehfeuro2016pic.twitter.com/jmx5HDaTQj
— H (@SamR03A) January 27, 2016
„Þetta er það klikkaðasta sem ég hef séð. Ég hef farið á 30 stórmót og aldrei hef ég séð neitt eins og gerðist í gær [fyrradag],“ sagði Nyegaard í gær.
„Ekki bara tapaði Frakkland fyrir Noregi heldur vann Noregur sannfærandi sigur. Svo var það þessi magnaði sigur Króatíu á Póllandi. Maður situr hérna og hugsar að þetta átti ekki að geta gerst.“
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska liðsins, var búinn að sleikja sárin eftir tapið gegn Þýskalandi þegar hann mætti í EM-stofuna hjá TV2 í gær og ræddi um þennan ótrúlega lokadag.
„Þetta er einn skrítnasti dagur sem ég hef upplifað á stórmóti. Þetta var eiginlega óraunverulegt. Það var mjög skrítið að horfa upp á þetta. Úrslitin sýna samt breiddina sem er komin í handboltann og hvernig íþróttin er að þróast,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.