Viðskipti innlent

Krispy Kreme opnar í Hagkaup Smáralind

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Það eru eflaust ófáir sem fagna komu Krispy Kreme til landsins.
Það eru eflaust ófáir sem fagna komu Krispy Kreme til landsins. Myndvinnsla/Garðar
Kleinuhringjakeðjan Krispy Kreme mun opna dyr sínar fyrir gestum í Hagkaup Smáralind þann 5. nóvember næstkomandi. Krispy KremeInc og Hagar hf hafa skrifað undir samstarfssamning, en kleinuhringjarisinn starfrækir nú þegar verslanir í um 25 löndum með yfir 1.100 útibúum. Ísland bætist nú í hópinn, fyrst Norðurlandaþjóða.

Hið víðfræga "Hot light"Mynd/Krispy Kreme
Krispy Kreme var stofnað árið 1937 og hefur uppskrift fyrsta kleinuhringsins, Original Glazed, haldist óbreytt frá stofnun. Sá upprunalegi mun spila veigamikla rullu í Krispy Kreme hér eins og annars staðar en þegar gestir og gangandi sjá kveikt á svokölluðu „Hot Light“ skilti þýðir það að nýr skammtur af Original Glazed sé á leiðinni. Allir gestir sem stoppa við þegar kveikt er á skiltinu fá að smakka frían kleinuhring. „Þetta verður svona happy hour,“ segir Viðar Brink, rekstrarstjóri Krispy Kreme á Íslandi, í samtali við Vísi.

„Við bökum alla kleinuhringi og allar vörur sem við erum með frá grunni og við gerum það á hverjum einasta degi þannig að þetta er alltaf ferskt,“ segir Viðar.

Gestir munu geta fylgst með framleiðslunni í svokölluðu Doughnut Theater, eða kleinuhringjaleikhúsi og er stefnt að því að staðurinn verði mjög fjölskylduvænn. Til að mynda verða sérstök barnabox sem innihalda litabók, liti og kleinuhring sem börnin geta skreytt sjálf. 

Viðar Brink, rekstrarstjóri Krispy Kreme á ÍslandiMynd/Krispy Kreme
Fjölskylduvæn stemning og sérútbúin kaffiblanda

Þá verður Krispy Kreme í samstarfi með Te & Kaffi, sem hefur útbúið kaffiblöndu fyrir keðjuna. „Þau gerðu sérstaka blöndu fyrir Krispy Kreme á Íslandi, sem við erum gríðarlega sátt við,“ segir Viðar.

„Það er þekkt á öllum Krispy Kreme stöðum að þetta er mjög fjölskylduvænn staður, sérstaklega um helgar. Við verðum með fría nettengingu og innstungur fyrir síma og tölvur. Við viljum hafa þægilega og góða stemningu fyrir fólk ef það vill koma að læra, eða hvernig sem það er,“ segir Viðar sem segir að ráða þurfi töluvert af starfsfólki á næstu dögum.

Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir Krispy Kreme stórskemmtilega viðbót í verslanir Hagkaups. „Við erum afskaplega ánægð með að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa nýjung strax í byrjun nóvember,” segir Gunnar Ingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×