Lífið

Þessu tímabili í lífi mínu er lokið

Guðrún Ansnes skrifar
Unnur Birna varð heimsfræg á einu augnabliki og segir skjótfengna frægðina ekki hafa verið auðvelda. Hún segist eiga mjög erfitt með að skilja fólk sem sækist eftir slíku.
Unnur Birna varð heimsfræg á einu augnabliki og segir skjótfengna frægðina ekki hafa verið auðvelda. Hún segist eiga mjög erfitt með að skilja fólk sem sækist eftir slíku. Mynd/ViðarLogiKristinsson
Rúm tíu ár eru liðin síðan Unnur Birna Vilhjálmsdóttir hóf störf hjá Miss World Limited í London, í kjölfar sigurs í keppninni Ungfrú heimur sem fram fór í Kína í desember árið 2005. Þannig varð hún heimsfræg á einu augnabliki og var óhjákvæmilega gríðarlega áberandi um tíma. Unnur hvarf svo nánast jafn fljótt úr sviðsljósinu og hefur lítið farið fyrir henni undanfarin ár.

„Það var viljandi, þetta var komið gott. Ég fór bara aftur í skólann, enda rétt nýbyrjuð í mínu námi þegar ég vann þessa keppni í Kína,“ segir Unnur sem tók sér árs hlé frá námi þegar hlutverk alheimsfegurðardrottningar lenti nokkuð óvænt í höndunum á henni.

Aðspurð hvort henni finnist raunverulegt til þess að hugsa, að heill áratugur hafi liðið síðan hún hlaut nafnbótina svarar hún því til að henni finnst það vel geta passað. „Já, þegar ég horfi til baka þá finnst mér alveg geta verið tíu ár síðan ég stóð á sviðinu. Árinu 2006 eyddi ég svo öllu í að vinna fyrir þetta fyrirtæki, og var meira og minna í London, þaðan sem ég flaug til annarra landa að sinna þeim verkefnum sem lögð voru á borð fyrir mig.“

Unnur metur sem svo að tími hennar sem handhafi titilsins ungfrú heimur hafi verið afar áhugaverður fyrir margra hluta sakir, og ekki hvað síst sé hann settur í sögulegt samhengi en þessi ár hafa í seinni tíð gjarnan verið eyrnamerkt uppgangsárunum svokölluðu. „Það var svolítil klikkun í loftinu einhvern veginn og margt í samfélaginu sem maður kemur auga á sé horft til baka. Þetta var í raun áþreifanlegt. Fjörið og lætin í kringum hina ótrúlegustu hluti voru svo greinileg.“ Unnur bendir máli sínu til stuðnings á alls kostar óvæntar móttökur við heimkomuna frá Kína eftir sigurinn, þegar söfnuðust um tíu þúsund manns saman í Smáralind þar sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, tók á móti henni við heljarinnar athöfn. „Ég geng þarna inn, varla lent á Íslandi og þar er þetta mannhaf. Fyrir mér er þetta einmitt partur af því sem var í gangi, stemningin í samfélaginu var svona, allt var blásið upp út í hið óendanlega.“

Unnur stóð á sviðinu í Sjanghæ í desember árið 2005, allskostar laus við að hafa hugmynd um hvað biði hennar mánuðina sem fram undan voru, og viðurkennir að hafa alveg vilja losna við titilinn fyrr.
Athyglin algjörlega galin

Unnur varð sannarlega heimsfræg á Íslandi á einni nóttu, og segir algjörlega galið að fá alla þessa athygli á jafn skömmum tíma og raun ber vitni. „Þó ég hafi verið orðin tuttugu og eins árs, þá er maður ekki með þroska til að takast á við svona mikla athygli allt í einu, og ég efast um að maður hafi nokkurn tíma þroska til að tækla svona skjótfengna og mikla athygli óaðfinnanlega. Jú, vissulega vissu einhverjir hér heima að ég bar titilinn ungfrú Ísland 2005, en þegar ég vinn þessa stóru keppni varð þetta allt annað. Ég þakka bara fyrir að hafa lent á fótunum og að þetta hafi ekki breytt neinu um það hvert ég stefndi í námi og starfi.“

Eðli málsins samkvæmt varð Unnur mjög meðvituð um að fólk fylgdist með hverju skrefi hennar, og viðurkennir að hafa í framhaldi þróað með sér alls kyns ókosti eins og hún orðar það sjálf. 

„Ef ég fer meðal fólks eða í margmenni horfi ég ekki í kringum mig, ég horfi ekki á fólk. Þetta er tilkomið frá þessum tíma þegar fólk var mikið að spá í mér og horfa. Ég á það til að ganga fram hjá fólki sem ég þekki, einfaldlega vegna þess að ég horfi ekki í kringum mig,“ útskýrir hún og skellir upp úr. „Ég fer út í búð og ég flýti mér alltaf að gera það sem ég þarf. Sjálf tók ég eftir að aðrir væru að fylgjast með hvað ég væri að gera, hvað ég væri að kaupa, í hverju ég væri og allt þetta. Þetta finnst mér ekki eftirsóknarvert. Ég á mjög erfitt með að skilja fólk sem sækist eftir frægð án þess að hafa eitthvað að selja, en það er kannski vegna þess að ég er ekki þessi skvísa að eðlisfari sem fer alltaf óaðfinnanleg út úr húsi.  Í dag skiptir þetta mig engu máli, en það gerði það á sínum tíma. Hugarfarið hvað þetta varðar breyttist mikið eftir að ég eignaðist börn og ég er mjög meðvituð um það hvernig ég vil að fjögurra ára dóttir mín upplifi heiminn. Það á ekki að skipta neinu máli hvað öðrum finnst heldur aðeins hvað þér sjálfri finnst og þeim sem skipta þig máli.“

Þetta var ekkert fyrir mig

Þegar Unnur sló til og samþykkti þátttöku í Ungfrú Reykjavík á sínum tíma, sem svo átti eftir að verða upphafið að ævintýrinu, hafði hún hafnað þátttöku í keppninni þrisvar. „Þátttakan var eitthvað sem ég valdi þegar amma var fallin frá og það var ákveðið móment í því. Þarna er viss fjölskyldusaga, bæði það að mamma hafði verið í keppninni og svo var amma kjólameistari og saumaði kjóla fyrir stúlkur sem tóku þátt í keppninni í mörg ár. Þetta var því alltaf eitthvað í umræðunni á mínu heimili og partur af mínu umhverfi og tilveru en við amma vorum mjög nánar.“ 

Hafði hún þannig einhvern tíma einlægan áhuga á þessu? „Nei, þetta var ekki ég,“ svarar hún til baka og dæsir. „Allar vinkonur mínar voru á sama máli og ég man að amma og afi í föðurættinni sögðu við mig: „Nei, Unnur, þú átt frekar heima í hestagallanum í sveitinni, þetta er ekkert sérstaklega mikið í þínum anda.“ Ég svaraði þeim þannig að ég gæti nú alveg eins gert þetta eins og allar aðrar, og ákvað það svo bara og þá varð ekki aftur snúið. En ég fékk það í bakið, þetta er og var virkilega ekki fyrir mig enda hafði ég ekkert sérstaklega gaman af þessum prinsessuleik og fæ hroll við það að hugsa um að þurfa að krulla á mér hárið á hverjum morgni og vera með gervineglur.

Án þess að flækja það nokkuð viðurkennir hún að hafa ekki hugsað svo langt þegar hún ákvað að taka þátt, að hún myndi enda á sviðinu í Kína áður en árið rynni sitt skeið. „En ég tók ekkert þátt í svona keppni til að eignast vinkonur, ég á alveg nógu margar og góðar vinkonur. Ég tók þátt vegna þess að mig langaði að reyna að komast eins langt og ég gæti. Ég geri það yfirleitt í öllu sem ég tek mér fyrir hendur, ég er ekkert fyrir hálfkák. En þetta er auðvitað svolítið öðruvísi, enda engin íþróttakeppni.“

Blaðamaður spyr þá hinnar sígildu spurningar, hvort virkilega sé hægt að keppa í fegurð. „Málið er að eins og í keppninni úti, þá snýst þetta alls ekki um að finna stelpuna sem er fallegust af þessum hundrað og tuttugu sem eru á sviðinu. Þar er bara verið að hugsa um stúlku sem þeir vita að þeir þurfa að vinna með í eitt ár. Hún þarf að hafa vit í kollinum og geta tekist á við það sem þurfti að gera til að rúlla þessu fyrirtæki næsta árið. Ég hélt óteljandi ræður og veitti fjölmörg viðtöl við blaðamenn, ræddi við borgarstjóra, ráðherra og flakkaði milli landa á þessu tímabili. Maður þarf að vera tilbúinn í ákveðið samstarf og vera sveigjanlegur, og jú, vissulega passa í einhver form, og þannig er búin til ákveðin ímynd um þessa drottningu. Á hana er sett kóróna, hún klædd í fínan kjól og þannig á þetta að ganga allt upp.  Ég hef síðar verið beðin um að gefa stúlkum sem eru á leið út ráð en ég veit eiginlega ekkert hvað ég gerði til að vinna þessa keppni. Fyrir mér snerist þetta aðallega um að láta sig hafa það þennan mánuð sem keppnin tók úti, mæta á viðburði og taka þátt í minni keppnum, svo sem tískusýningu, íþrótta- og hæfileikakeppni. Ég endaði svo einhvern veginn á að vinna, og ég veit ekki einu sinni hvernig það gerðist. “

Unnur segist hafa vonast til að Ungfrú Ísland legðist af þegar hún féll niður árið 2014. „Það er alltaf verið að minna fólk á mig þegar fjallað er um keppnina, mér finnst óþarfi að það sé alltaf verið að draga mig inn í þetta. Þetta er reyndar nákvæmlega það sem Linda Pé sagði við okkur mömmu þegar ég vann: „Nú geta þeir hætt að tala um mig og fara að tala um þig,“ og nú skil ég hana svo vel,“ segir hún og hlær áður en hún heldur áfram: „Ég græði svo sem ekkert á að tala fegurðarsamkeppnir niður og það mun ég ekki gera þó ég telji þær barn síns tíma. 

Málið er að ef það er markaður fyrir svona, stúlkur sem vilja taka þátt, styrktaraðilar sem vilja koma að þessu og fólk sem hefur áhuga á að horfa á þetta, þá skilur maður alveg að til séu aðilar sem vilji halda keppnina. Eins og Bjössi og Dísa hugsa þetta núna, þá er það mjög eðlilegt. Þó ég sé komin yfir þetta, þá þýðir það ekki að aðrir séu á sama máli.“

Guðsfegin þegar árinu lauk

„Við skulum orða það þannig, að ég var mjög fegin að mitt ár var það stysta í sögu Miss World frá upphafi. Ég hlýt titilinn í desember 2005 og krýni svo næstu í september 2006, vegna þess að sú keppni fór fram í Póllandi og þar var orðið of kalt í desember. Ég var gjörsamlega komin með nóg, og ef ég hefði ekki verið búin að skrifa undir samninginn, því þetta var jú atvinna og ég látin skrifa undir ráðningarsamning, þá hefði ég örugglega reynt að koma mér út úr þessu. En maður klárar auðvitað það sem maður kemur sér í og það helst með sóma,“ segir Unnur ákveðin.

Blaðamaður spyr hvað hafi haft þau áhrif á hana: „Fordómarnir, sem fylgja titlinum. Að maður sé bara fegurðardrottning og að ekki geti maður verið með mikið vit í kollinum, verandi í þessu hlutverki. En það var einmitt það sem þetta var, hlutverk sem ég bara lék.“ 

Hún segist í ófá skiptin hafa komið fólki á óvart með þeim málefnum sem hún bryddaði upp á. „Ég sat til að mynda heila kvöldstund með David Cameron, sem þá var ekki orðinn forsætisráðherra Breta, aðeins formaður síns flokks, í sextugsafmæli í London, og spjallaði þar við hann og eiginkonu hans. Virkilega skemmtilegt kvöld, en svo í lokin þegar leiðir skildi fann hann sig knúinn til að segja mér að það hefði komið honum mikið á óvart að stúlka með þennan titil hygðist læra lögfræði og væri svona vel að sér í hinum ýmsu málum. 

Hann meinti þetta líklega sem hrós og ég var orðin svo meðvituð um þetta að ég lét þetta ekki á mig fá. En fólk fer út í hin ýmsu hlutverk og störf af mismunandi ástæðum, það er ekki hægt að setja fólk alltaf í sama flokk hvað það varðar. Ég sakna þess ekki að hafa þetta hangandi yfir mér en þrátt fyrir það hefði ég aldrei viljað fara á mis við þá lífsreynslu sem fylgdi því að vinna þessa keppni.“

Tækifærin alltaf til staðar

„Þetta var verkefni sem ég valdi að fara út í og tók að mér, sem ég svo bara kláraði og hélt áfram með mitt. En það er vissulega margt sem ég hef gert eftir þetta tímabil, sem ég hefði kannski ekki fengið tækifæri til að gera nema einmitt vegna þessa. Svo sem að starfa við dagskrárgerð á Stöð 2 og RÚV. Það er eitthvað sem mér fannst einstaklega skemmtilegt og þegar ég horfi til baka þá er það eitt það skemmtilegasta sem ég hef tekið að mér.  Svo starfaði ég fyrir utanríkisráðuneytið úti í Kína og bjó í Sjanghæ í tæpa 9 mánuði. Þar réð ég mig sem kynningar- og viðburðastjóra íslensku þátttökunnar á heimssýningunni í Sjanghæ en ég var einmitt mikið í Sjanghæ árið sem ég bar titilinn Miss World og hafði þannig bæði reynslu af að vera í borginni og sambönd við fjölmiðla og fleiri. Þetta verkefni hefði ekki komið inn á borð til mín öðruvísi en vegna þeirrar tengingar.“

Ekki verður hjá því komist að spyrja hvort starfið Ungfrú heimur sé vel borgað og hvort líkur séu á að konur verði ríkar af titlinum einum saman. Unnur svarar því að svo sé nú ekki, þær fái greitt mánaðarlega rétt eins og aðrir, en mögulega geti þær aukið við innkomuna með því að taka að sér önnur verkefni samhliða. 

„Ég valdi mér vel og var bæði andlit og talskona Icelandic Glacial Water og Bláa lónsins á tímabili. Það var það eina sem ég gerði eftir keppnina í rauninni, en ég vildi alltaf að það væri eitthvað meira í þessu en bara að leika í auglýsingu eða sitja fyrir.  Þetta er risastór heimur, sem sýnir sig vel í því að ég er enn að fá skilaboð frá alls konar fólki með ýmsar hugmyndir og verkefni. Ég hef þó algjörlega hundsað slíkar beiðnir, en það er líka bara vegna þess að ég hef ekki áhuga á að tengja mig þessu. Það er sennilega æðislegt að nýta þetta til að ferðast víða, en fyrir mér er það ekki þess virði að þurfa að setja mig í þetta hlutverk aftur. Þetta er tímabil í lífi mínu sem er lokið.“

Stimpillinn lífseigur

En þótt Unnur hafi staðið sína plikt með sóma, og skilað af sér kórónunni tíu mánuðum síðar, er langur vegur frá því að þar með hafi hún losnað við nafnbótina. 

„Þetta er mjög mikill stimpill, ef ég get orðað það þannig. Ég hef upplifað þetta í starfi mínu sem lögmaður. Eftir að ég útskrifast með meistarapróf í lögfræði, næ mér í héraðsdómslögmannsréttindi og byrja að starfa á lögmannsstofu, fannst mér ég enn alltaf þurfa að sanna mig. Að ég væri nú klárari en það að vera bara einhver fegurðardrottning. Mér fannst ég þurfa að sanna mig tvöfalt meira en konan við hliðina á mér,“ bendir hún á. 

„Þetta er að lagast, ég er alveg róleg yfir þessu í dag og er ekkert að velta því fyrir mér né skynja að fólk sé almennt að spá í þessu núna en ég er svo sem heldur ekki mikið í að hafa mig í frammi í sviðsljósi fjölmiðla. Ég starfa meðal annars í þannig málaflokkum innan lögfræðinnar, svo sem á sviði barnaréttar og barnaverndar, að mér finnst einfaldlega ekki við hæfi að skjólstæðingar mínir sitji með mér daglangt að ræða mögulega erfiðustu mál lífs síns og sjái mig svo framan á næsta glanstímariti. Ég fæ ekkert út úr því að viðhalda einhverri frægð á Íslandi.“ 

Og ekki saknar hún kjaftasagnanna sem svo oft er býsna lífseigur fylgifiskur frægðarinnar. „Ég hef ekki orðið vör við þær í mörg ár enda snerust þær að miklu leyti um að ég væri að leita mér að mannsefni. Svo þegar ég gekk út, gifti mig og eignaðist börn þá hefur fólk minni áhuga á þessu. Það er einhvern veginn þannig í íslenskum fjölmiðlum að áberandi og einhleypar konur eru paraðar saman við nánast hvern þann sem þær sjást með. Ég er mjög fegin að þurfa ekki að vera að takast á við þann fylgifisk lengur.“

Ólíkir heimar mætast

Unnur ætlaði sér allan tímann að læra lögfræði og starfa við hana, burtséð frá góðu gengi í hinum tryllta heimi fegurðarbransans sem hún nýtir sér þó að ákveðnu leyti. Í dag starfar hún á Íslensku lögfræðistofunni í Turninum í Kópavogi og hefur gert síðustu fjögur ár. Hún starfar ekki eingöngu á sviði barnaréttar og barnaverndar en meiðyrða-, fasteignagalla- og erfðamál eru jafnframt fyrirferðarmikil á hennar borði ásamt því sem hún sinnir skiptastjórn þrotabúa og verjendastörfum. Unnur hefur samhliða lögmennskunni unnið ötullega að sjálfsstyrkingar- og framkomunámskeiði, sérsniðnu að ungu fólki í samstarfi við Eskimo umboðsskrifstofu en næsta námskeið hefst í febrúar.

„Þetta eru sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir ungt fólk, frá tólf ára og upp úr. Ég vildi óska þess að ég hefði farið á svona námskeið þegar ég var yngri, þar sem við komum inn á svo mörg svið og gerum það á persónulegan hátt. Við fáum til okkar gestakennara, svo sem leiklistar­kennara, næringarfræðing, förðunarfræðing og fíkniefnafræðslu og nýtum tenginguna við Eskimo, á þann hátt að nemendurnir fara í einstaklingsmyndatöku og ljúka námskeiðinu með þátttöku í stórri tískusýningu. Þannig reynum við að fá unga fólkið til að stíga út fyrir sinn ramma, og það er stórt skref í sjálfsstyrkingu.“ 

Segist Unnur miðla sinni reynslu, og fræða krakkana, sem eru aðallega stúlkur, um framkomu, líkamsburð, fyrstu kynni og gefur þeim góð ráð í tengslum við það að tala opinberlega eða fyrir framan hóp fólks. „Ég er auðvitað enginn sérfræðingur í þessu og nemendurnir fá alveg að vita það, en ég miðla minni reynslu, og því sem ég geri í dag, og nýti til þess að gefa þeim góð ráð. Ég get sagt þeim frá því sem ég hef tekið með mér úr þeirri reynslu sem ég hef aflað mér undanfarin ár og það sem ég hefði gjarnan viljað heyra eða læra þegar ég var á þeirra aldri.“

Unnur reynir utan þess að sinna hlutverkum lögmanns og hafa umsjón með þessum námskeiðum, að nýta tíma sinn vel með fjölskyldunni. Hún er gift Pétri Rúnari Heimissyni og saman eiga þau tvö börn, auk þess sem Pétur á fyrir eina dóttur, sem Unnur kallar bónusbarnið sitt, svo nóg er að gera á stóru heimili. Hún segir miklu máli skipta að reyna svo að skilja vinnuna eftir í vinnunni, þó slíkt geti reynst þrautin þyngri. 

„Þegar ég er að klára erfiða hjalla í mínum málum, erfiða aðalmeðferð eða málflutning og skýrslutökur, reyni ég að hafa fyrir reglu að sækja börnin aðeins fyrr í leikskólana þann daginn og geri eitthvað extra, líklega bæði til að bæta mér og þeim upp samverustundirnar sem við höfðum misst af dagana þar áður. Það virkar fyrir mig eins og hugleiðsla eða jógatími. Að fara í göngutúr, gefa öndunum brauð og fá auka samveru og þá helst áður en úlfatíminn frá fimm til átta hefst, en það er sá tími sem getur tekið á þegar á eftir að fara í búðina, baða, elda og svæfa þreytt leikskólabörn. Þá skiptir máli að hafa átt gæðastund með þeim áður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.