Lífið

Guðni Th. velti fyrir sér vítamínkaupum í Krónunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni Th. veltir vítamínkaupum fyrir sér í verslun Krónunnar á Granda í kvöld.
Guðni Th. veltir vítamínkaupum fyrir sér í verslun Krónunnar á Granda í kvöld. Myndin er úr FB-hópnum Frægir á ferð
Mikið mæðir á nýjum forseta, Guðna Th. Jóhannessyni, sem tók við embætti þann 1. ágúst síðastliðinn. Ekki aðeins hvílir mikil ábyrgð á herðum Guðna í nýja starfinu heldur hefur hann verið með yngsta barn sitt í aðlögun á leikskóla ásamt því sem kaupa þarf í matinn.

Þannig sást til Guðna í verslun Krónunnar á Granda á sjöunda tímanum í kvöld þar sem hann var að kaupa inn fyrir fjölskylduna. Náðist mynd af forsetanum þar sem hann velti fyrir sér hvort eða hvaða vítamín hann ætti að kaupa rétt áður en komið var að afgreiðsluborðinu.

Einhver bið verður á því að Guðni, eiginkona hans Eliza Reid og börn flytji inn á Bessastöðum. Unnið hefur verið að viðgerðum og viðhaldi á húsnæðinu þar sem meðal annars hefur fundist mygla. Vonir standa til að hægt verði að flytja inn í húsið sem fyrst.

Fjölskyldan setti húsið sitt á Seltjarnarnesi á leigu í sumar þegar ljóst varð að flutningar á Bessastaði væru framundan. Sagði Guðni af því tilefni að hann myndi sjálfur mæta og skipta um perur og aðstoða leigjendur ef vandamál kæmu upp, eins og hver annar leigusali.

Nóg er að gera hjá Guðna í embætti en hann fundaði í dag á Bessastöðum þar sem til umræðu var stefna Íslands við móttöku flóttamanna. Þá sendi hann forseta Ítalíu samúðarkveðju fyrir hönd íslensku þjóðarinnar vegna mannfallsins eftir stóran jarðskjálfta í gærmorgun.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.