Lífið

Völvan 2016: Ráðherra tekur pokann sinn og Hlín og Malín gera upp málin í beinni útsendingu

Völvan skrifar
Árið 2015 einkenndist af átökum eins og síðustu ár, í stjórnmálunum, í stjórnsýslunni og úti í samfélaginu.

Þingmenn hnakkrifust svo vikum og mánuðum skipti um nánast ekki neitt á háttvirtu Alþingi Íslendinga. Nýir flokkar sem boðuðu breytta stjórnhætti og samræðupólitík stóðu engan veginn undir væntingum okkar sem viljum kurteisi og yfirvegun í stjórnmálunum.

Píratar bættust í hóp öskurapa, kvörtuðu yfirlætislega yfir sessunautum og Birgitta, sem hafði lofað að hætta eins og hinn ágæti þingmaður Pírata Jón Þór Ólafsson stóð við, situr sem fastast. Þetta eru ekki óhefðbundin, íslensk stjórnmál eins og boðuð voru.

Hvað ef barnið mitt er gerandi?

Einhvern tíma á árinu var gefið út skotleyfi á Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hvort forsætisráðherra sé sögulega lélegur eins og margir vinnufélagar hans á Alþingi telja, getur Völvan ekki sagt til um, en hún hefur ókeypis ráð til ráðherrans: Ef þú tekur gagnrýninni, beinn í baki, þá hætta þau að nenna að stríða þér.

Sigmundur er hins vegar bara toppurinn á ísjakanum og Íslendingar, hver og einn, verða að líta sér nær. Við kvörtum yfir umræðuhefð og dónaskap, en mörg okkar hika ekki við að ráðast að persónum og leikendum. Tortryggnin og vandlætingin ríður húsum. Umræðan er of svart-hvít. Það eina sem Völvan hefur lært á langri ævi er það að það er ekkert bara svart eða hvítt, klippt eða skorið. Lífið er marglaga. Það er enginn bara vondur eða bara góður. Slíkar alhæfingar eru of algengar.

Þórunn AntoníaVísir/Valli
Gunnar Bragi Sveinsson er enginn diplómat

Völvan er þeirrar skoðunar að í lýðræðissamfélagi sé umræðan okkar besta og beittasta vopn. Í jólaþætti Sprengisands voru þingmenn sammála um að frammíköll á þinginu hefðu sjaldan eða aldrei verið meiri.

Meinið er að þegar vaðið er í manninn frekar en málefnið, eins og svo oft vill verða missir umræðan marks. Viljum við að umræðuhefðin mótist af frammíköllum, meinfýsni í kommentakerfum og Facebook-statusum um ómögulegt, íslenskt samfélag? Þarna ganga þingmenn á undan með vondu fordæmi.

Þeir þurfa að temja sér kurteisari framgöngu og fara fyrir þjóðinni í þeim efnum. Gunnar Bragi Sveinsson ætti að fara fremstur í flokki, enda utanríkisráðherra og þar með yfirmaður kurteisustu stéttar heims: diplómata. Ætli hann sé með frammíköll í hanastélunum í útlandinu?

Þórunni Antoníu í forsætisráðherrann

Annað hvort þarf að senda þjóðina eins og hún leggur sig á hugleiðslunámskeið (og ég legg til að Þjóðkirkjan borgi brúsann) eða gera Þórunni Antoníu, söngkonu og stofnanda næst-fjölmennasta Facebook-hóp landsins, Góða systir, að forsætisráðherra. Skilaboð hennar eru: Jákvæð og uppbyggileg samskipti. Það sem þjóðina vantar er nákvæmlega það.

Gárungar munu kannski efast um vitsmuni Völvunnar fyrir að hafa komist að þessari niðurstöðu. Þá verður svo að vera.

En af því að Völvan er jákvæð og vongóð, hefur hún spána á því að segja að Illugi Jökulsson rithöfundur verði ánægður með eitt verk ríkisstjórnarinnar eða hvers kyns yfirvalds á nýju ári.

Gunnar Bragi Sveinsson.
Íþróttir og dægurmál

Bardagakappinn Gunnar Nelson snýr aftur eftir niðurlægingu í síðasta bardaga. Tapið verður líkt og bensín á tank Gunnars, sem er hvergi banginn. Gunnar vinnur tvo stóra bardaga á árinu. Tal um slæmar fyrirmyndir víkur fyrir lotningu íslensku þjóðarinnar á Gunnari, sem lætur sér fátt um finnast, eins og venjulega.

Salka Sól hættir á Ríkisútvarpinu og einbeitir sér að ferlinum í tónlist. Þetta er til bóta. Útvarps- og sjónvarpskonan Salka Sól er góð, en tónlistarkonan Salka Sól er virkilega hæfileikarík. Lag eftir okkar konu ferðast út fyrir landsteinana. Hugsanlega sem fulltrúi Íslands í Eurovision.

Gunnar Bragi Sveinsson lýsti því yfir í viðtali á nýliðnu ári að hann væri skilinn, laus og liðugur. Völvan sér engin alvarleg sambönd í kortunum. Hann verður áfram laus og liðugur.

Marta María Jónasdóttir sýnir á sér nýja og skemmtilega hlið á nýju ári. Hugur hennar leitar í sjónvarp í auknum mæli. Smartlandið fær nýjan ritstjóra og Marta lætur draumana rætast.

Gísli Pálmi rappari
Einn af okkar bestu tónlistarmönnum, Gísli Pálmi, vekur eftirtekt víðar en á eyjunni fögru. Honum er boðinn samningur við stórt, erlent plötufyrirtæki, sem hann hafnar. Bóhem-lífsstíllinn hentar okkar manni vel.

Þórunn Antonía og Erpur Eyvindarsson leiða saman hesta sína. Úr verður eitt vinsælasta lag sumarsins.

Völvan sér fjölmiðlamanninn Atla Fannar Bjarkason vaxa mikið á árinu. Nútíminn verður stærra númer en hingað til.

Þúsundþjalasmiðurinn Bubbi Morthens sýnir á sér enn nýja hlið, en hann stefnir á að gefa út skáldsögu um næstu jól. Völvan sér þó fyrir að sér að einhverjar tafir geti orðið á útgáfunni. Bróðir Bubba, Tolli Morthens, er einnig að daðra við skáldagyðjuna og stefnir líka á útgáfu í jólabókaflóðið.

Gylfi Þór Sigurðsson.
Fram undan er risastórt ár í íþróttum; EM karla í handbolta og fótbolta og Ólympíuleikarnir í Ríó þar stærstir fyrir okkur Íslendinga. Veislan byrjar í janúar þar sem strákarnir okkar í handboltanum þurfa að ná góðum árangri og vera ansi heppnir ef þeir ætla að eiga möguleika á að komast á Ólympíuleikana. Það mun ekki ganga upp.

Ísland mun aftur eiga tvo fulltrúa á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar þar sem Aron Pálmarsson stendur uppi sem sigurvegari með sínu liði Veszprém frá Ungverjalandi.

Á EM í fótbolta fer Ísland upp úr riðli eftir óvænt jafntefli gegn Portúgal í fyrsta leik og sigur á Ungverjum í annarri umferð. Kolbeinn Sigþórsson skorar tvö mörk í Marseille og fer úr að ofan og hnyklar vöðvana. Sendir þar fyrrverandi þjálfara sínum hjá Nantes, sem sagði hann vera of þungan, skýr skilaboð.

Gylfi Þór Sigurðsson fer á kostum í Frakklandi og þarf Swansea að taka ákvörðun um að taka kauptilboði í miðjumanninn frá stærra liði í öðru landi. Alexandra Helga Ívarsdóttir, kærasta Gylfa og fyrrverandi fegurðardrottning, mun einnig vekja mikla athygli í stúkunni.

Kvennalandsliðið í fótbolta tryggir sig inn á þriðja Evrópumótið í röð mjög auðveldlega og fær aðeins á sig þrjú mörk í allri undankeppninni. Margrét Lára Viðarsdóttir verður eins og ný með landsliðinu eftir að koma heim og lyftir Val aftur upp í toppbaráttuna.

Ísland mun eiga sundkonu í úrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó en hvort það verður Hrafnhildur Lúthersdóttir eða Eygló Ósk Gústafsdóttir á Völvan erfitt með að segja til um. Ásdís Hjálmsdóttir endurtekur leikinn frá London 2012 og fer í úrslit í spjótkastinu á nýju Íslandsmeti

Karlalið FH í fótbolta verður grátlega nálægt því að komast í Evrópudeildina en vinnur úrvalsdeildina með miklum yfirburðum. Breiðablik ver ekki titilinn í kvennaflokki því liðið missir besta leikmann síðustu leiktíðar, Fanndísi Friðriksdóttur, í atvinnumennsku snemma árs.

Endurkoma Helenu Sverrisdóttur verður ekki fullkomnuð því Snæfell vinnur þriðja Íslandsmeistaratitilinn í röð í Dominos-deild kvenna eftir magnaða úrslitaseríu sem fer í oddaleik. Njarðvík vinnur sinn fyrsta titil síðan 2006 í karlaflokki. Stefan Bonneau snýr aftur í úrslitakeppnina og með hann í liðinu hefnir Njarðvík fyrir tapið gegn KR í úrslitum 2007. Haukur Helgi Pálsson verður valinn besti leikmaður deildarinnar og hann finnur sér lífsförunaut sem mun vekja mikla athygli á bleiku síðunum.

Birgitta Jónsdóttir
Pólitík

Dagur B. Eggertsson á erfitt uppdráttar á árinu, ásamt flokki hans Samfylkingu. Borgarstjórinn íhugar alvarlega að hætta afskiptum af stjórnmálum og hverfa aftur til starfa sem læknir. Flokksbróðir hans Árni Páll hættir sem formaður. Við formannssætinu tekur kona, Sema Erla Serdar. Fylgi Samfylkingar eykst lítillega við þessar breytingar.

Bjarni Benediktsson stendur örlítið beinni í baki, eftir afnám gjaldeyrishaftanna og samninga við kröfuhafa föllnu bankanna. Hann verður óhræddari við að ganga fram með sínar hugmyndir, jafnvel þó þær séu ólíkar hugmyndum starfsbróðurins, hæstvirts forsætisráðherra. Nokkuð verður um deilur innan ríkisstjórnarinnar.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis­ráðherra tekur ákvörðun um að hætta í pólitík. Nokkrar deilur verða um eftirmann hennar í starfi.

Stjórnmálaflokkur vinstri grænna logar í innri átökum. Vinnusálfræðingur þeirra Lífar Magneudóttur og Sóleyjar Tómasdóttur dugar ekki til. Flokkurinn er klofinn. Þetta kveikir á frekari deilumálum. Völvan sér miklar mannabreytingar innan raða vinstri grænna. Katrín Jakobsdóttir íhugar að yfirgefa flokkinn, en gerir það ekki. Menn horfa til fyrrverandi blaðamanns, Kolbeins Óttarssonar Proppé, sem nýrrar vonarstjörnu í flokknum.

Pólitísk spillingarmál verða áfram í deiglunni. Í því næsta, sem upp kemur í vor, spilar Gunnar Bragi Sveinsson stóra rullu. Hann neyðist til að íhuga stöðu sína alvarlega.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mýkist hins vegar á manninn og uppsker eftir því. Allt vegna þess að hann tekur ráðum Völvunnar fagnandi, lætur gagnrýnina ekki á sig fá og einbeitir sér að skipulags- og byggingarmálum í auknu mæli.

Fylgi Pírata dalar í skoðanakönnunum á þessu ári. Samfylking, Píratar og Björt framtíð sameinast í eina fylkingu, en flokkur vinstri grænna verður eftir sem sjálfstæður flokkur. Björt Ólafsdóttir, í Bjartri framtíð, gengur út úr stjórnmálum og snýr sér að öðru. Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst við þessar vendingar allar, en fylgi Framsóknarflokks dalar.

Andri Snær Magnason býður sig fram til forseta og fær ótal læk á Facebook. Hvorki Jón Gnarr né Kári Stefánsson fara gegn honum. Ungur og gáfaður mannréttindalögfræðingur, Katrín Oddsdóttir, býður sig hins vegar fram. Frú Vigdís Finnbogadóttir styður hana opinberlega. Jakob Frímann Magnússon íhugar forsetaframboð alvarlega.

Forsetaframboð Andra Snæs mun vekja athygli út fyrir landsteinana, því þekktir Íslendingar munu stíga fram í stuðningi við hann, meðal annars Björk Guðmundsdóttir og Baltasar Kormákur.

Björt framtíð hefur árið á mikilli fjölmiðlaherferð, þar sem þau reyna að koma sér að í eins mörgum viðtölum og hægt er, til þess að hala fylgi sitt upp og hafa eitthvað að bjóða fram í nýja vinstri breiðfylkingu.

Eygló Harðardóttir á strembið ár fyrir höndum. Aukin harka færist í umræðu um húsnæðismál og mörgum þykir ekki nægilega vel að móttöku flóttamanna staðið. Á haustmánuðum dregur til tíðinda í húsnæðismálum. 

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Stofnanir og samfélagið

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, kemur fram í afhjúpandi viðtali á einhverjum stóru miðlanna. Þar ræðir hún um hvernig það er að sinna einu umdeildasta embætti samtímans. Hún hafi oft íhugað að hætta.

Byltingar á samfélagsmiðlum í þágu kvenréttinda vekja minni athygli nú á árinu en á því síðasta. Áhrifa þeirra gætir þó víða, leynilegir og opinberir starfshópar eru að vinna við að knýja fram breytingar á meðferð yfirvalda í nauðgunarmálum. Þeir munu fá nokkru ágengt á þessu ári. Karlmenn fara að láta í sér heyra. Næsta bylting á samfélagsmiðlum verður þeirra.

Réttarkerfið sætir nokkurri gagnrýni á nýju ári, líkt og undanfarin ár. Samlandar Völvunnar verða minna refsiglaðir eftir því sem lengra líður frá hruni. Ólöf Nordal sendir dómara utan til að kynna sér meðferð kynferðisbrotamála og hrunmála í öðrum löndum.

Páll Winkel fangelsismálastjóri hverfur til annarra starfa á nýju ári, eftir harða og opinbera baráttu fyrir auknum fjármunum til málaflokksins sem ekki allir ráðamenn eru par sáttir við. Völvan sér ekki að Páll hverfi úr opinberri umræðu, og spáir því að hann hefji feril í stjórnmálum á nýju ári eða því næsta.

Íslenska þjóðkirkjan siglir ekki lygnan sjó á nýju ári, frekar en undanfarin ár. Áfram verður fjallað um deilur innan kirkjunnar og um tilvist hennar yfir höfuð í fjölmiðlum. Völvan sér áframhaldandi deilur um völd í Kirkjuráði og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, á í vök að verjast. Sumt af því sem dregið verður fram í dagsljósið kemur til með að reynast kirkjunni enn annað PR-floppið. Agnes stendur allt saman af sér.

Kleinuhringir voru nokkuð áberandi á árinu, og eins og stundum vill verða æstust landar Völvunnar mikið við þær fregnir að ný, erlend keðja skyldi opna á Íslandi. Ný bresk eða bandarísk keðja opnar á haustmánuðum á þessu ári og mun sú hljóta fádæma viðtökur – jafnvel meiri en þegar samlandar Völvunnar biðu næturlangt eftir að næla sér í kleinuhringi.

Ríkisútvarpið reynir í örvæntingu að ná til unga fólksins. Miklir peningar verða settir í rappþætti og annað sem á að höfða til þeirra sem yngri eru. Á meðan hverfa áheyrendur RÚV á braut og margir undra sig á því hvað sé gert við upphæðirnar, hvort það sé svona dýrt að endurflytja Krakka- og Hraðfréttir.

Traust á störfum lögreglumanna eykst með áframhaldandi setu skeleggs lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Sú kemur til með að líta í auknum mæli til glæpa gegn konum, og lögreglan fer innan skamms að ganga í takt við tímann. Það er af sem áður var.

Systurnar Hlín og Malín Brand gera upp sín mál í samtali við þjóðina og í beinni útsendingu. Jón Gnarr pródúserar.

Baltasar Kormákur
Listir og menning

Baltasar Kormákur verður mestmegnis á Íslandi í ár. Hann tekur sér örlítið frí frá vinnu, snýr aftur á hesta­búgarðinn á Hofi á milli þess sem hann vinnur að verkefnum í Þjóðleikhúsinu. Snýr svo aftur tvíefldur í kvikmyndagerðina snemma á næsta ári. Völvan sér Baltasar gera sig enn meira gildandi í þjóðfélagsumræðu hér á landi.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra eykur framlög til Kvikmyndasjóðs og býr til aukasjóð til framleiðslu kvikmynda, eingöngu ætlaðan konum. Þetta er að forskrift Baltasars Kormáks. Gjörningurinn er nokkuð umdeildur, en Illugi lætur sér fátt um finnast.

Björk Guðmundsdóttir kemur til með að láta sífellt meira að sér kveða í þjóðfélagslegri umræðu, þó umræðuefnið verði það sama og oft áður. Náttúruvernd. Hún kemur fram í viðtali á árinu þar sem hún lýsir yfir stuðningi við Andra Snæ í forsetaembættið.

Ragnheiður Skúladóttir verður einn af sigurvegurum ársins þar sem alþjóðlegu leiklistarhátíðinni LÓKAL vex fiskur um hrygg.

Páll Óskar Hjálmtýsson verður aðalstjarnan í nýrri, íslenskri þáttaröð sem er væntanleg. Undirbúningurinn hefst á árinu, en þáttaröðin verður ekki frumsýnd fyrr en 2017.

Leikkonurnar Nína Dögg Filippusdóttir og Elma Stefanía Ágústsdóttir standa upp úr á leikárinu. Þær fá báðar tilnefningu til Grímuverðlauna, ásamt leikstjórunum Unu Þorleifsdóttur og Bergi Þór Ingólfssyni.

Fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson heldur í útrás á árinu. JÖR verður fáanlegt í Kaupmannahöfn, Berlín og London innan fárra ára. 

Pétur Jóhann Sigfússon sýnir á sér nýja hlið – kveður grínið um stund og birtist þjóðinni mun alvarlegri en við höfum áður séð.

Mikael Torfason, leikskáld og rithöfundur, heldur utan með frumsamið verk. Hann hlýtur fyrir mikið lof. 

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir vinnur Edduverðlaunin fyrir leik sinn í þáttaröðinni Rétti.

Björk Guðmundsdóttir.Mynd/Getty
Eldgos og náttúran

Miklir jarðskjálftar verða í Bárðarbungu - merki þess að kvika streymi inn í eldstöðina í miklum mæli. Nýtt gos verður undir lok árs.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og ferðamálaráðherra, rennur á rassinn með gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum landsins. Náttúrupassinn varð ekki að veruleika og Ragnheiður Elín kemur engum vörnum við. Engar nýjar hugmyndir hennar í þessum efnum falla í kramið hjá þjóðinni.

Ísland slær enn eitt met í fjölgun ferðamanna, en Völvan sér að þessi aukning varir ekki að eilífu. Brátt dettur Ísland úr tísku sem vinsæll ferðamannastaður, þó það verði ekki strax á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×