Enski boltinn

Liverpool tapaði stigum gegn West Ham | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
West Ham United gerði góða ferð á Anfield í dag þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Liverpool.

Liverpool er áfram í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið er nú sex stigum á eftir toppliði Chelsea.

West Ham er hins vegar komið upp úr fallsæti. Hamrarnir eru þó enn í harðri fallbaráttu.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og Adam Lallana kom Rauða hernum yfir strax á 5. mínútu. Þetta var fimmta mark enska landsliðsmannsins í deildinni í vetur.

West Ham brotnaði ekki við mótlætið og Dimitri Payet jafnaði metin á 27. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu. Loris Karius átti slakan leik gegn Bournemouth um síðustu helgi og hann leit ekki vel út í markinu sem Payet skoraði í dag.

Sex mínútum fyrir hálfleik kom Michail Antonio West Ham svo yfir eftir klaufagang Joels Matip í vörn Liverpool. Antonio er búinn að skora sjö mörk í deildinni en þetta var það fyrsta sem hann skorar með fótunum. Fyrstu sex mörkin voru öll með skalla.

Staðan var 1-2 í hálfleik. Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn eins og þann fyrri og á 48. mínútu jafnaði Divock Origi metin eftir að Darren Randolph, markvörður West Ham, missti boltann klaufalega frá sér.

Fleiri urðu mörkin ekki og niðurstaðan 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×