Sport

Íslenskir bræður hoppa úr norska landsliðinu yfir í það íslenska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Leó Kristinsson og Sævar Birgisson eru áfram í landsliðinu.
Brynjar Leó Kristinsson og Sævar Birgisson eru áfram í landsliðinu. Mynd/Skíðasamband Íslands
Landslið Íslands í skíðagöngu hefur fengið góðan liðstyrk frá Noregi en helming A-landsliðsins skipa nú tveir bræður sem hafa hingað til keppt fyrir Noreg.

Skíðasamband Íslands tilkynnti í dag um val sitt á landsliði í skíðagöngu fyrir komandi vetur. Stærsta verkefni vetrarins verður án efa HM í Lahti í Finnlandi sem fer fram um mánaðarmótin febrúar-mars, en ásamt því munu landsliðin keppa á alþjóðlegum FIS mótum. Komandi vetur er líka mikilvægur uppá lágmörk fyrir ÓL 2018.

Bræðurnir Snorri Einarsson og Sturla Björn Einarsson eru að koma nýir inní landslið en undanfarið hafa þeir keppt undir merkjum Noregs.

Þeir Snorri og Sturla eiga íslenskan föður og ákváðu að breyta og keppa fyrir Skíðasamband Íslands frá og með næsta vetri. Búið er að ganga frá allri pappírsvinnu og því allt klárt gangvart þeirra keppnisrétt.

Snorri Einarsson hefur verið í landsliðum á vegum Norska skíðasambandsins og hefur náð framúrskarandi árangri á heimsvísu, hann hefur til að mynda verið í topp 20 í heimsbikar.

Hinir tveir mennirnir í A-landsliðinu eru þeir Brynjar Leó Kristinsson og Sævar Birgisson sem hafa verið báðir í A-landsliðinu undanfarin ár.

Engin kona kemst í A-landsliðið en þær Elsa Guðrún Jónsdóttir, Kristrún Guðnadóttir og Sólveig María Aspelund eru í B-landsliðinu. Aðrir í b-liðinu eru þeir Albert Jónsson, Dagur Benediktsson og Sigurður Arnar Hannesson. Landsliðsþjálfarinn er Jostein H. Vinjerui.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×