Innlent

Sérþarfir kvenna í neyð vilja oft gleymast

Una Sighvatsdóttir skrifar
Rétt rúmur mánuður er nú liðinn síðan Íraksher með hjálp bandamanna á Vesturlöndum gerðu áhlaup á borgina Mósúl sem hefur verið á valdi Ísis frá árinu 2014.

Íbúar fengu viðvaranir og daginn fyrir innrásina höfðu 1900 almennir borgarar þegar lagt á flótta, en í viku hverri bætast þúsundir við og nú hafa tæplega sjötíu þúsund manns flúið heimili sín og hafast við í tjaldbúðum. Þar á meðal eru þúsundir kvenna sem höfðu þegar mátt þola gróft og langvarandi ofbeldi áður en innrásin hófst.

Lifðu undir ægivaldi ISIS-manni

„Þetta er eins og að fara úr öskunni í eldinn, þetta er hræðilegt. Þær voru voru undir ægivaldi vígamanna ISIS síðustu tvö ár. Þær voru sviptar öllu frelsi. Þeim var haldið heima hjá sér og máttu ekki einu sinni standa nálægt gluggunum því þær gætu sést þaðan. Þannig að þetta hafa verið vægast sagt ömurlegt ástand fyrir konur," segir Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Hjálparsamtök hafa undirbúið neyðaraðstoð við íbúa Mósúl í átta mánuði enda lá fyrir að innrás var í undirbúningi.

„Við erum búin að setja upp griðastaði fyrir konur þar sem þær fá vernd og öryggi og áfallahjálp eftir gróft kynferðisofbeldi og sálrænan stuðning eftir þennan hræðilega tíma sem hefur verið í Mósúl undanfari tvö ár," segir Inga Dóra. 

Nauðsynjar svo konurnar geti lifað með sæmd

UN Women hafa nú hafið neyðarsöfnun fyrir konurnar sem sárvantar nauðsynjar. Slagorðið söfnunarinnar er „Konum blæðir".

„Það gleymist dálítið oft þegar verið er að skipuleggja neyðaraðstoð eða koma upp flóttamannabúðum að konur hafa sérstakar þarfir. Þær verða ófrískar, eignast börn og fara á blæðingar og þetta eru hlutir sem oft gleymist að taka tilit til þegar verið er að undirbúa hverju þurfi að dreifa í settunum, eða þær aðstæður sem konur þurfa að hafa," segir Inga Dóra.

Í sæmdarsettunum svo kölluðu er að finna dömubindi, sápu og vasaljós. „Við biðjum fólk um að senda sms-ið Konur í 1900, þá dragast 1490 kr. af símareikningnum, og það er eitt sæmdarsett. þannig að saman getum við hjálpað mjög mörgum."

Einnig er hægt að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á bankareikning 0101-05-268086, kt. 551090-2489 ásamt skýringunni Neyð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×