Innlent

Yfir 500 sótt um jólaúthlutun

Þorgeir Helgason skrifar
 Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reyjavíkur.
Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reyjavíkur. vísir/Anton Brink
„Það hafa yfir 500 umsóknir borist um jólaúthlutun,“ segir Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Jólaúthlutunin fer fram þann 19. desember á Bíldshöfða.

„Skráningin í ár fór mjög hægt af stað hjá okkur. Í þessari viku fengum við svo 300 umsóknir en þær berast flestar á síðustu umsóknardögunum,“ segir Anna. Hægt er að sækja um jólaúthlutun í tvö skipti í viðbót, mánudagana 28. nóvember og 5. desember. Til að hægt sé að sækja um jólaúthlutun þurfa umsækjendur að mæta í húsnæði Mæðrastyrksnefndar í Hátúni og hafa meðferðis skattframtal.

„Það eru færri fjölskyldur að koma til okkar núna en í fyrra sem betur fer. Einstaklingum hefur þó ekki fækkað og hælisleitendum og flóttamönnum hefur fjölgað. „Það hefur flækt stöðuna hjá okkur enda eru þeir margir ekki með skattframtöl en við reynum að hjálpa öllum sem við getum,“ segir Anna.

Í jólaúthlutun felst hefðbundinn jólamatur, yfirleitt hamborgarhryggur og allt sem honum fylgir, ásamt drykkjum og ís. „Foreldrar geta svo komið á sérstakan jólagjafadag og fengið jólagjafir fyrir börnin sín þann 20. desember,“ segir Anna.

Í fyrra sóttu um 1.600 heimili um jólaúthlutun en Anna telur að færri heimili sæki um í ár.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×