Innlent

Borgum meira fyrir heilbrigðisþjónustu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Samkvæmt skýrslunni sóttu ellefu prósent Íslendinga sér ekki tannlæknisaðstoð sem þurftu árið 2014 vegna fjárhagsástæðna, landfræðilegra ástæðna eða biðraða.
Samkvæmt skýrslunni sóttu ellefu prósent Íslendinga sér ekki tannlæknisaðstoð sem þurftu árið 2014 vegna fjárhagsástæðna, landfræðilegra ástæðna eða biðraða. NordicPhotos/Getty
Íslendingar vörðu 2,9 prósent af heildarneyslu heimilanna úr eigin vasa til heilbrigðismála árið 2014. Þetta er hærra en meðaltal ESB ríkja en þar var hlutfallið 2,3 prósent. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD, Health at a Glance: Europe 2016 sem kom út í gær.

Í skýrslunni kemur fram að útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi séu 8,8 prósent af vergri landsframleiðslu, samanborið við 9,9 prósent meðaltal ESB-ríkja. Hæsta kostnaðarhlutfall sem Íslendingar greiða úr eigin vasa er vegna lyfja, en sá kostnaður er 41 prósent heildarupphæðarinnar.

Íslendingum finnst þeir vera við góða heilsu ef marka má skýrsluna. Um 76 prósent Íslendinga sögðust vera við góða heilsu árið 2014 og 18 prósent við ágæta. Til samanburðar töldu 67 prósent sig vera við góða heilsu innan Evrópusambandsins.

Í skýrslunni er dregin upp mjög áhugaverð mynd af stöðu heilbrigðismála í Evrópu. Fram kemur meðal annars að löndin verji mjög misjöfnum upphæðum til heilbrigðismála. Sjúkdómar hrjá löndin á mismunandi hátt og er hlutfall bólusettra barna og tilfelli kynsjúkdóma mjög mismunandi yfir álfuna. Evrópa er sú álfa þar sem mests áfengis er neytt í heiminum, en þó er verulegur munur milli landa. Austur-Evrópubúar drekka yfir 12 lítra af hreinu alkóhóli á mann á ári en Norður-Evrópubúar drekka undir átta lítra. Tilfellum offitu fer fjölgandi samhliða því að reykingar og drykkja dragast saman.

Þau lönd sem eru með hæstu tekjur í Evrópu, Lúxemborg, Noregur og Sviss, vörðu mestu til heilbrigðismála árið 2015. Lúxemborg varði yfir 6.000 evrum, jafnvirði 720 þúsund íslenskra króna á núvirði, á hvern íbúa. Útgjöld til heilbrigðismála (þar með talin fjárfesting) námu 3.126 evrum á íbúa á Íslandi á síðasta ári og var langstærsti hlutinn í gegnum ríkið. Þetta er hærri upphæð en meðaltal ESB, sem var tæplega 2.800 evrur, en mun lægra en í flestum vestrænum ríkjum Evrópu. Meðaltal útgjalda á Norðurlöndum nam 3.700 evrum á síðasta ári samkvæmt skýrslunni.

Útgjöld til heilbrigðismála jukust að raunvirði um 0,4 prósent á ári á Íslandi frá 2009 til 2015 á meðan meðaltal ESB var 0,7 prósent.

Heilbrigðisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu voru 8,8 prósent árið 2015 á Íslandi, þar með talin fjárfesting. Á sama tíma var meðaltal í ESB-löndum 9,9 prósent. Hlutfallið er hæst í Sviss, eða 11,5 prósent.

Ísland er meðal fremstu Evrópulanda þegar kemur að ýmsum heilbrigðismálum. Dánartíðni ungbarna er sú lægsta á Íslandi eða 1,7 börn á hver 1.000 sem fæddust milli áranna 2012 og 2014. Til samanburðar er ESB-meðaltalið 3,6. Lífslíkur eru einnig með þeim hæstu meðal Evrópulanda eða 82,7 ár, samanborið við 80,9 ára meðaltal ESB. Unglingadrykkja og reykingar hér á landi eru einnig með því minnsta innan Evrópu.

Krabbameinstilfelli eru þó rétt yfir meðaltali ESB á Íslandi eða 300 á hverja 100 þúsund íbúa. Tilfellin eru fleiri hjá konum. Á Íslandi greindust 96 tilfelli brjóstakrabbameins hjá hverjum 100 þúsund konum árið 2012, en meðaltal ESB var 74. Svipaða sögu er að segja um krabbamein í blöðruhálskirtli. Þar greindust 107 tilfelli á hverja þúsund menn á Íslandi, samanborið við 74 innan ESB.

Offita er einnig að blossa upp á Íslandi. Offita meðal stráka á Íslandi var í kringum meðaltal ESB eða um 21 prósent, en offita stúlkna var undir meðaltalinu árið 2014 til 2015. Offita fullorðinna (sjálftilkynnt) er þó mun meiri á Íslandi en innan ESB, 22 prósent samanborið við 16 prósent.

Tíðni kynsjúkdóma er ansi há á Íslandi samanborið við önnur Evrópuríki. Á Íslandi greindist klamydía í 529 mönnum á hverja 100 þúsund íbúa árið 2014 sem er næstmesti fjöldi í Evrópu, rétt á eftir Danmörku. Þetta er einnig tæplega þrefaldur fjöldi meðaltals ESB. Lekandatilfelli á Íslandi voru færri en meðaltal ESB-ríkja, en sárasótt greindist 51 prósenti oftar á Íslandi en að meðaltali innan ESB.

Samkvæmt skýrslunni eru Íslendingar undir meðaltali ESB í bólusetningum eins árs barna gegn barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mislingum. Hér var hlutfallið 90 prósent árið 2014, en var 94 til 96 prósent innan ESB.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×