Lífið

Leita að brúðhjónum til að gifta í sýningu

Guðrún Ansnes skrifar
Guðrún Selma segir þær Gígju leita eftir einu, tveimur eða þremur pörum til að gefa saman í leiksýningunni.
Guðrún Selma segir þær Gígju leita eftir einu, tveimur eða þremur pörum til að gefa saman í leiksýningunni. Vísir/Ernir
Brúðkaup er hin fullkomna stund, þar sem allt þarf að vera fullkomið og leitast er við að ná þessu markmiði, fullkomnun,“ segir Guðrún Selma Sigurjónsdóttir sem ásamt Gígju Jónsdóttur leitar nú logandi ljósi að tilvonandi brúðhjónum sem vilja gifta sig í sýningunni þeirra A Guide to the Perfect Human sem sýnd verður í Tjarnarbíói.

„Við gerðum saman verk í fyrra sem hét Drop Dead Diet sem var unnið út frá megrunarkúrum. Nú erum við að vinna í sjálfstæðu framhaldi þar sem sjálfshjálparbækurnar eru í forgrunni. Þaðan fórum við yfir í hugmyndina um fullkomnun. Það eru allir að reyna að ná þessu markmiði, að vera fullkominn, bæði andlega og líkamlega.“

Sýningin fer á fjalirnar í janúar svo þau pör sem gæla við að láta pússa sig saman á óvenjulegan og ansi ódýran hátt ættu sannarlega að velta möguleikanum fyrir sér en þær stöllur munu sum sé sjá um vígsluna og veisluna eins og hún leggur sig, brúðhjónunum að kostnaðarlausu. Nema hvað, að þeir gestir sem brúðhjónin bjóða greiða inn á sýninguna eins og aðrir sýningargestir.

„Það hefði vissulega verið miklu auðveldara að finna einhverja leikara til að leika þetta en við viljum blanda saman raunveruleika og tilbúningi. Við erum að velta fyrir okkur hvort fullkomleikinn sé raunverulegur. Það rímar svo vel við það sem við erum að sjá á netinu og mátum okkur endalaust við, en vitum svo ekki hvað er raunverulega á bak við. Það er gaman að geta leikið sér með raunveruleikann og sviðssetninguna svona,“ útskýrir Guðrún.

En eitthvað kostar nú að blása til brúðkaups, ætla þær stöllur að standa straum af þeim kostnaði fyrir brúðhjónin? „Skiptidíllinn er þannig, já, að við sjáum um það allt. En við erum ekki að fara að kaupa hundrað þúsund króna kjól á brúðina eða neitt svoleiðis,“ segir hún og skellir upp úr en heldur svo áfram: „Við erum með góða búninga- og leikmunahönnuði á okkar snærum.“

Guðrún segir að fyrir þá sem hafa áhuga á að láta pússa sig saman á eftirminnilegan hátt sé leiksýning afar ákjósanlegur kostur. „Þetta er engin keppni, fólk getur bara haft samband við mig með því að senda mér tölvupóst á netfangið gudrunselmas@gmail.com.  Ég reikna með að við tökum ein til þrenn brúðhjón,“ segir hún og segir fólk ekki þurfa að óttast langt og strangt æfingaferli. „Þetta verður bara eins og þegar fólk giftir sig. Þau munu ekkert flækjast inn í ferlið og þurfa ekki að læra neitt hlutverk,“ segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×