Körfubolti

Mesta sem Logi hefur skorað í deildarleik í þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Vísir/Daníel
Logi Gunnarsson fór á kostum í sigri Njarðvíkur á Haukum í fyrsta leik sjöundu umferðar Domino´s deildar karla í körfubolta í Ljónagryfjunni í gærkvöldi.

Logi hitti úr 11 af 18 skotum sínum setti niður sex þriggja stiga skot og endaði með 34 stig á 39 mínútum. Logi var stigahæsti maður vallarins þótt að hann væri að spila á móti stigakóngi síðasta tímabils, Sherrod Nigel Wright, sem spilar nú með Haukum.

Logi er orðinn 35 ára gamall en það bendir ekkert til þess að það sé að hægjast á þessum frábæra leikmanni. Einhverjir gætu bent á það að hann sé í Eurobasket-formi og að þar fari leikmaður staðráðinn að vera klár í slaginn í Finnlandi næsta haust.

Logi var „bara“ 32 ára gamall þegar hann braut 30 stiga múrinn síðast í Domino´s deildinni en svo skemmtilega vill til að það var líka í leik á móti Haukum.

34 stigin hans Loga í gær var það mesta sem hann hefur skorað í leik í Domino´s deildinni síðan að hann skoraði 41 stig  í 105-83 sigri á Haukum 22. nóvember 2013. Logi var með sjö þrista í þeim leik.

Þetta er líka miklu meira en Logi hefur verið að ná mest í einum leik undanfarin tímabil.

Logi skoraði mest 21 stig í deildarleik tímabilið 2014-15 og hann var mest með 23 stig í deildarleik á síðasta tímabili.

Þetta var fjórði tuttugu stiga leikur Loga í fyrstu sjö umferðunum en hann var „bara“ með þrjá tuttugu stiga leiki á Íslandsmótinu í fyrra og þá teljum við úrslitakeppnina líka með.

Það er mikil ábyrgð á herðum Loga í Njarðvík í vetur og mikilvægi hans sést vel í tölfræðinni. Hann er að skora 23,3 stig að meðaltali í þremur sigurleikjum liðsins en „aðeins“ 16,3 stig í leik í tapleikjunum fjórum.  Þriggja stiga nýtingin fer líka úr 48 prósentum niður í 38 prósent og stoðsendingarnar úr 3,3 niður í 0,5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×