Innlent

Sex íslenskar fjölskyldur hafa tekið að sér að fóstra fylgdarlaus flóttabörn

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sex íslenskar fjölskyldur hafa tekið að sér að fóstra fylgdarlaus börn sem hafa fengið hæli á Íslandi. Félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu segir frábært hvað fjölskyldur á Íslandi hafi verið fljótar að svara kallinu og sýnt málinu mikinn áhuga.

Það eru um fjörutíu íslenskar fjölskyldur sem hafa svarað kalli Barnaverndarstofu um að vista fylgdarlaus börn sem koma hingað til lands.

Barnaverndarstofa auglýsti í febrúar eftir áhugasömu fólki sem væri tilbúið að fóstra barn á heimili sínu til lengri eða skemmri tíma. Í kjölfarið voru tveir drengir frá Afganistan fæddir árið 2000 og 2001 vistaðir hjá sitt hvorri íslensku fjölskyldunni.

Á fyrstu 10 mánuðum ársins sóttu um 12 fylgdarlaus börn um hæli hér á landi. Barnaverndarstofa auglýsti á ný eftir fjölskyldum til að fóstra börnin í september.

„Það voru tæplega 30 fjölskyldur sem komu á námskeið sem við héldum í október og byrjun nóvember. Nú eru tuttugu fjölskyldur sem hafa lýst áhuga á að koma á næsta námskeið sem við höldum þann 5. desember næstkomandi,“ segir Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu.

Hún segir að það sé aldrei að vita hvort þörf verði fyrir allar fjölskyldurnar. Börn sem koma hingað hafa mismunandi þarfir. Þau hafa kannski sum hver ferðast hér um Evrópu í tvö þrjú ár þessvegna. Þau hafa orðið viðskila við fjölskyldurna á mismunandi tímum, jafnvel í heimalandinu eða einhverstaðar á leiðinni. Við viljum bara vera reiðubúin og hafa tilbúnar fjölskyldur,“ segir Steinunn.

Nýlega hafa fjórir drengir sem fæddir eru árið 1999 verið vistaðir hjá fjölskyldum eða eru í aðlögunarferli fyrir vistun. Þessir drengir eru frá  Afganistan, Írak, Kúrdistan og Albaníu. Auk þess dvelja þrír einstaklingar sem fengu hæli sem fylgdarlaus börn á árinu 2016 hjá ættingjum en lúta umsjá barnaverndarnefnda.

Steinunn segir frábært að sjá hve mikinn áhuga fjölskyldur á Íslandi hafi sýnt þessu máli. „Þetta eru allskonar fjölskyldur sem er mjög mikilvægt af því að börnin sem koma til okkar eru með allskonar þarfir,“ segir Steinunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×